Hvunndagshetjur og væl útaf engu

30. júlí.

Ég hef búið mér til nýja möntru sem ég þyl í sífellu og er einskonar heilaþvottamantra. Hún hljóðar svona: Það eru engar búðir í Reading, það eru engar búðir í Reading, það eru engar búðir í Reading o.s.frv. Það brast á með brjáluðum útsölum hér í síðustu viku og allt sem langar í kostar hér um bil ekki neitt. En þó ég ætti pening væri ekkert vit í að láta freistast því allt færi í yfirvigtarkostnað hvort sem er.

Í gær gerði ég mér ferð til Basingstoke til að hlusta á rúmenskan munaðarleysingjakór syngja. Ég talaði við nokkra krakka í kórnum og stjórnandann og þurfti bókstaflega að berjast við tárin. Ég ætla að gera þessu skil í blaðagrein síðar.

Á stoppistöðinni á leið heim beið með mér ungur maður frá Sierra Leone og við tókum tal saman. Hann sagði mér sögu sína og þegar leiðir skildi eftir strætóferðina var ég næstum aftur farin að grenja. Heimurinn er fullur af hversdagshetjum og þó ég sé oftast töffari og þoli ekki fólk nema í litlum skömmtum verð ég að viðurkenna að mannssálin  býr yfir ótrúlegum mætti til að komast af við ömurlegar aðstæður.

Svo er maður sívælandi yfir engu!!!! 


Geimfarar á herðablöðunum

Ég sá ekkert um það í fréttunum heima að amerískir geimfarar séu meira og minna dauðadrukknir í geimskotunum. Það var hinsvegar stórfrétt hér. Talsmenn NASA fóru vandræðalegir undan í flæmingi og vildu sem minnst úr þessu gera.

Og þeir eru fleiri sem fara undan í flæmingi. Hér í Bretlandi er hver sérfræðingurinn á fætur öðrum dreginn að sjónvarpsmyndavélunum til að tjá sig um flóðin og flóðavarnarmálaráðherrann, Elliot Morley, er allur í steik. Hann segir ábyrgðina engan veginn ríkisins þó greinilegt sé að eitthvað hefur farið úrskeiðis þegar kemur að flóðavörnum - jafnvel þó staðfestar fréttir hermi að önnur eins úrkoma hafi ekki mælst hér  í júlí í 250 ár.

Sérfræðingarnir halda langar tölur um golfstrauminn og gróðurhúsaáhrifin en almenningur hefur engan áhuga á því heldur vill að einhver verði gerður ábyrgur og krossfestur með stæl.

Ég sá að íslenskir skátar flykkjast nú á alheimsmót skáta í Englandi en það kom ekki fram hvar það er haldið. Dóttir mín, sem er skáti, lét sér fátt um finnast og sagði yfirlætislega: "Eins og við skátarnir erum vanir að segja, það geta allir skemmt sér í útilegum, en það þarf skáta til að skemmta sér í rigningarútilegum." Það var nefnilega það.W00t 


Skrilljón punda marblettur í súginn

27. júlí.

Ég lenti í því í gær þar sem ég var á leið yfir götu á skærgrænum göngukalli að bíll sem hafði beðið við gatnamótin tók skyndilega af stað og ók beint á mjöðmina á mér. Ég sveif eins og hver önnur Mary Poppins um það bil hálfan metra á regnhlífinni minni og lenti mjúklega á blautri götunni. Parið í bílnum fékk áfall og vegfarendur dreif að en ég stóð upp og hristi mig, brosti hughreystandi til vitnanna (af því mér fannst þetta svo pínlegt), og sagði öllum að allt væri í fullkomnu lagi.  Vitnin hröðuðu sér dauðfegin í burtu og parið í bílnum vinkaði afsakandi þegar það ók á brott.

Ég fór í búðina og gerði innkaupin mín en fann þegar ég kom heim að ég var helaum í mjöðminni og fagurblár marblettur að springa þar út. Í sjónvarpinu var einmitt auglýsing frá lögfræðistofu sem hvatti fólk til að "súa" og fá himinháar bætur fyrir meiðslin sín. Ég sá að ég hafði verið allt of fljót á mér. Auðvitað átti ég að taka niður númerið á bílnum, láta flytja mig á slysadeild í skýrslutöku og fara svo í mál. Nokkur þúsund pund hefðu komið sér ákaflega vel. En tækifærið er gengið mér úr greipum, marbletturinn þegar farinn að dofna og ég held áfram að telja klinkið mitt til að vera viss um að eiga nóg fyrir lestinni á flugvöllinn. Og nú losna ég við að gera mér upp verki í mjöðm sem ekkert er að, ég er afleitur leikari hvort sem er og sérstaklega þegar kemur að veikindum. Enda ekkert jafn fjarri mér en svona svindl og monkeybisnessHalo.

Í dag skín sólin í Reading og við erum á leið í gönguferð í góða veðrinu. Og ætlum að sjálfsögðu að passa okkur á bílunum...

 


Hi mother - fancy another?

Þessa pikköpplínu heyrði ég í dag þegar dóttir mín var stolt á gangi  í miðbænum með Annicu litlu í vagninum. Ungur maður vatt sér að henni, brosti sínu blíðasta og lét þessi orð falla. Alltaf jafn skondnir, Bretarnir.

Við vorum að kaupa afmælisgjöf handa Chris, sem á einmitt afmæli í dag. Það gekk vonum framar og aldrei þessu vant var ég með fullt af hugmyndum. Sem er sannarlega óvenjulegt þegar kemur að gjafakaupum. Venjulega er ég alveg botnfrosin. Líka í ljósi þess að ég veit ekki nema ég sé eitthvað að ruglast í hausnum. Að minnsta kosti sátum við Anna Lilja í garðinum í gær og bönduðum frá okkur býflugum og vespum sem sækja mjög í lavender-runnann við reykingaborðið.

"Spurning hvort það væri ekki sniðugt að færa valender-runnann," sagði ég. "Flugurnar virðast elska valender."

"Þú meinar lavender," sagði Anna Lilja og brosti.

"Já, ég sagði það."

"Nei, þú sagðir valender, meira að segja tvisvar."

Ég veit að Anna Lilja er ekki að skrökva þessu upp á mig og það fær mig til að hugleiða hvaða bull ég er að segja við fólk svona almennt án þess að taka eftir því.Blush

Ég var andvaka í nótt (ekkert til að hafa orð á nema hvað andvökur eru sérkennilegar þegar maður er að drepast úr syfju). Ég var að vona að ég hefði kannski í miðri andvökunni fundið skýringu á þessu með valenderinn. Ég er nefnilega að lesa reyfara eftir Henning Mankell (númer tvö á stuttum tíma) og aðallöggan hans heitir Kurt Wallander. Er ekki lang trúlegast að það sé skýringin?

Ég hef sérstaklega gaman af að lesa Mankell því sögurnar hans gerast á Skáni, í Ystad og Malmö þar sem ég bjó sem unglingur. Þar þekki ég staðháttu vel og það er eitthvert spes kikk í í því.

Mér fannst líka gaman á blaðamannakúrsi í Árósum í fyrra þegar ritstýra Sydsvenska kom með fyrirlestur um árin '68 til '70 þegar innflytjendur flykktust til Svíþjóðar. Hún rifjaði upp margar hryllingssögur úr tveimur verstu hverfunum í Malmö, Rosengaarden og Krocksback, þar sem fólk var litið hornauga og kallað innflytjendadjöflar. Þegar hún spurði í lokin hvort við hefðum einhverjar athugasemdir sagði enginn neitt nema ég sem gat sagt henni að á þessum tíma hefði ég einmitt verið innflytjendadjöfull í Krocksback. Ég þekkti þessar sögur af eigin raun þó ég hafi sjálf ekki orðið fyrir aðkasti að ráði. Ég notaði "if-you-can't-beat-them-join-them"-aðferðina, í þeirri merkingu að ég lærði málið á mettíma og aðlagaði mig sænskum háttum. Ég á því eingöngu góðar minningar frá Svíþjóð, sem er örugglega meira en hægt er að segja um fjölda innflytjenda á þessum tíma.  (Í þessum texta eiga að sjálfsögðu að vera a með bollu og a með tvípunkti en ég nenni ekki að leita að því á tölvunni).

Nú er afmælisundirbúningur að hefjast og þýðir ekki að sitja og lesa... Verð þó að láta fylgja að ég er farin að hlakka til að koma heim.W00t

 


Málin krufin í úrhellinu

23. júlí.

Tóti tölvukall hefði að ósekju mátt gefa sér örlítið meiri tíma til að tékka nettenginguna hérna, hún er ekki baun skárri en hún var, ýmist inni eða úti og aðallega úti.

Annars var þetta dagurinn sem við Kate ætluðum að fara á sveitakrá hér í nágrenninu, sitja úti í sólinni, borða óhollan pöbbamat og kryfja allskonar merkileg mál til mergjar. Það gekk allt eftir nema hvað hvergi sást til sólar heldur rigndi hundum og köttum að venju. Bretar eru að verða langþreyttir á sumarleysinu og spáin fyrir næstu daga er ekkert skárri. Það breytti ekki því að við ömmurnar fundum okkur stað úti þar sem tjöld voru vandlega dregin yfir borðin og hitakútar á fullu. Ég hreyfi mig ekki nema geta reykt og þetta var bara ferlega kósý. Nú höfum við líka svörin við allskonar pælingum, eins og af hverju karlmenn eru svona skrýtnir í sálinni, af hverju ábyrgðarkenndin er alltaf að sliga okkur og af hverju við getum ekki bara gefið dauðan og djöfulinn í strögglið og lifað lífinu. Við ætlum að gera það "from now on..."

Er að reyna að setja mig í gír til að fylgjast af einhverju viti með því sem er að gerast heima þar sem styttist í heimferð, en hef einhvernveginn engan áhuga. Ég horfi á íslenskar fréttir næstum daglega og geyspa úr leiðindum. En það er nú örugglega bara af því ég er í neikvæðnikasti gagnvart Íslandi, sem lagast vonandi um leið og ég stíg fæti á íslenska grund og fæ sólina í andlitið. Bara til æfa mig aðeins sendi ég ástar- og saknaðarkveðjur heim... Errm


Bresk tölvuást - og ég um það bil hársbreidd frá heimsfrægð

21. júlí.

Tóti tölvukall kom í gærkvöldi og staldraði við í þrjár mínútur. Síðan hefur nettengingin virkað nokkurnveginn. Sem minnir mig á annan tölvukall sem ég kynntist fyrir nokkrum árum. Og nú finn ég mig knúna til að segja ykkur fallega, breska ástarsögu.

Hún gerðist fyrir átta árum þegar ég bjó ásamt Önnu Lilju í fallega þorpinu okkar Forest Row í Sussex. Halla dóttir mín var farin heim því hjarta hennar var hjá Elíasi (nú tengdasyni) á Íslandi og hann var óður á línunni á hverju kvöldi að véla hana heim. Sem honum tókst. Við Anna Lilja undum hag okkar vel, báðar í skóla og unnum á golfhótelinu fyrir fjögur pund á tímann til að drýgja tekjurnar. Svo elduðum við stundum á heimavistarskóla fyrir börn auðkýfinga frá Þýskalandi og Frakklandi, en þar höfðum við heil fimm pund á tímann upp úr krafsinu.  Ég er rosalega montin að hafa þetta starf í CV-inu mínu því fátt er mér óeðlilegra en elda mat handa heilum heimavistarskóla. Unglingarnir voru þó afar kurteisir og elskulegir, enda oftast í hassvímu, en höfðu þó sérþarfir hægri vinstri. Sumir voru grænmetisætur, aðrir átu ekki mjólkurafurðir og einhverjir voru gluten-fríir. Sem sagt kúnst að koma saman matseðli sem allir gátu sætt sig við. En alltaf voru þau jafn glöð þessar elskur.

Og nú aftur að ástarsögunni. Við vorum með tölvuskribbli heima sem snerist ekki hálfan snúning og einhver (nú man ég ekki hvort það var starfsmaður á hótelinu eða einhver á heimavistinni) sagðist þekkja strák sem væri snillingur á tölvur. Hvort ég vildi ekki fá hann heim til að líta á gripinn. Ég þáði það með þökkum.

Tveim kvöldum seinna var barið á dyrnar og úti stóð gullfallegur drengur, ljós og fagur, um það bil átján ára. Hann sagðist vera Allan og kominn til að kíkja á tölvuna. Ég bauð honum inn og Anna Lilja sem stóð álengdar, leit á hann, sendi mér svona "oh-my-god"-augnaráð og lét sig hverfa. Þegar Allan hafði átt við tölvuna góða stund datt mér í hug að bjóða honum eitthvað að drekka og hann þáði að enskum sið smá tesopa. Fuck. Ég efaðist um að við ættum te, hvað þá að við kynnum að gera það eins og Englendingum þykir best, en af skepnuskap setti ég Önnu Lilju í málið. Hún gretti sig framan í mig, fann gamlan kassa með tepokum og bjó til te sem hún færði drengnum. Hann drakk það, trúlega af kurteisi einni saman, lauk við að gera við tölvuna og kvaddi.

Þegar hann var farinn sat Anna Lilja með tebollann hans, dreymin á svip, og mátti vart mæla fyrir hrifningu. Í sömu andrá hringdi síminn og það var sjálfur Allan sem kynnti sig. "Ég var að velta því fyrir mér," sagði hann, "hvort þú myndir samþykkja að ég byði dóttur þinni út." Ég fékk næstum hláturskast en sagðist ekkert hafa á móti því, hvort hann vildi ekki bara tala við Önnu sjálfa. Þau spjölluðu góða stund og svo var deitið ákveðið. Þetta ástarsamband stóð í nokkra mánuði og var hið ljúfasta. Þegar þau hættu saman var það í góðu og enn þykir þeim vænt hvoru um annað. Nú er auðvitað Chris stóra ástin hennar Önnu og allt eins og það á að vera. En skelfilega var þetta kjút.

Tölvukallinn í gær skilur ekki eftir sig neinar minningar, en vonandi virkar netfjandinn í framtíðinni.

Af því að sólin á Íslandi skín og skín og skín og rigningin í Englandi er að setja allt á kaf verð ég að láta vita af því að hér í Reading verður lítið vart við flóðin. Í gær rigndi þó eldi og brennisteini og þrumur af geðveikustu sort hljómuðu allan daginn og eldingar lýstu upp himininn. Spáin fyrir næstu fjóra daga var á sömu nótum en í dag hef ég setið í garðinum og reykt regnhlífarlaus. Það hafa meira að segja verið sólarglætur af og til svo ég veit ekki hvað mér á að finnast um enska verðurfræðinga.

Eitt enn áður en ég hætti. Ég minntist á finnska poppgoðið Danny K. hér í færslu fyrir nokkru og nú skilst mér að ég sé orðin fræg í Finnlandi. Eða þannig. Ég meina, það birtist mynd af mér með stjörnunni í héraðsfréttablaðinu í Halmeniemi og trúlega er það bara byrjunin. GetLost Ég ætla að prófa að setja linkinn hér inn á síðuna svo allir geti séð hvað við erum æðisleg.

Klikkið hér

 

 

 

 

 

Ergilegt sambandsleysi

17. júlí.

Netsambandið er hrunið á Sheerwood Street og ég verð að hryggja alla 30 aðdáendur þessa bloggs (það er þó sennilega ríflega áætlað) Pinch að næstu færslur verða ekki fyrr en eftir helgi. Ég hef þurft að sæta lagi hér til að fara í tölvuna þegar tengingin virkar, en nú virkar hún ekki rassgat. Viðgerðarmaður er væntanlegur öðru hvoru megin við helgina og þá verður þessu kippt í liðinn!!! Ég væri persónulega búin að missa mig við einhvern ábyrgan undir þessum kringumstæðum en Bretar hafa sinn háttinn á og ég beygi mig undir það. Þangað til: Lifið í lukku. Crying


Timewarpað aftur með sjálfum O´Brien

15. júlí.

Já, við fórum sumsé á Rocky Horror í gærkvöldi. Þetta var síðasta sýning leikflokksins á þessu sumri og endapunktinn settu þeir í New Victoria Theatre í Woking, 40 mílur héðan frá Reading. Ég veit ekki hversu margir Rocky Horror-aðdáendur lesa þessa síðu en ég hef elskað Rocky Horror frá því ég sá myndina fyrst fyrir u.þ.b. 30 árum. Fór gjarnan á miðnætursýningar í Nýja bíói í gamla daga og þá að sjálfsögðu með göróttan drykk innanklæða. Uppfærsluna á sviði sá ég fyrst í London fyrir nokkrum árum.  

Bretar líta á þessa sýningu sem "cult" og mæta að sjálfsögðu í viðeigandi klæðnaði. Allir kunna stykkið utanað og taka ósvikið þátt í gamninu. Það er leyfilegt að taka með sér allskonar hluti svo sem gúmmíhanska,  hrísgrjón, vatnsbyssur og ljós og svo verður auðvitað að vita hvenær maður á að öskra. Ef Janet er nefnd á nafn æpir lýðurinn "slut" og þegar Brad er nefndur öskra allir "arsehole". Dr. Scott fær "Sieg heil" í hausinn og sögumaðurinn er púaður niður í hvert skipti sem hann birtist. Allir standa upp og dansa Timewarpið og veifa ljósunum sínum þegar lagið "There's a light" er sungið. Með árunum hafa bæst við allskyns frammíköll sem eiga við á hverjum tíma.

Uppfærslan í gær olli ekki vonbrigðum og þar sem þetta var síðasta sýning að sinni voru áhorfendur venju fremur uppivöðslusamir. Ég gerði tilraun til að taka mynd eftir að sýningin hófst en var umsvifalaust hundskömmuð af fílefldum öryggisverði. En djö... hvað við fíluðum okkur vel.

Og svo kom hápunkturinn!!! Þegar sýningunni var lokið og leikararnir búnir að hneigja sig skrilljón sinnum mætti sjálfur Richard O'Brien á sviðið. Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna, en svo söng hann hvert lagið á fætur öðru og "Riff-Raffaði" með leikaranum sem lék hann í þessari sýningu. Blaðamaðurinn í mér nötraði af löngun til að fara baksviðs og fá viðtal við stjörnuna en brjóstabarnið beið hungrað heima. 

Ég var hás af öskrum eins og allir hinir í leikhúsinu og á bílastæðinu hljómaði tónlist og söngur úr hverjum bíl. Ólýsanleg stemmning. Ég hvet eindregið þá sem eiga leið um England að ári að fletta upp www.timewarp.org.uk og athuga hvort  ekki séu einhverjar sýningar í gangi í London eða næsta nágrenni. Það er einstakt tækifæri til að fá útrás fyrir litla perrann í sér og ath.!!! Ekki klikka á átfittinu.Devil

Ég set inn nokkrar myndir af þessari skemmtilegu upplifun fyrir þá sem hafa áhuga. Albúmið heitir Rocky Horror.

Annars gekk barnapössunin ágætlega hjá ensku ömmu og afa, þau voru soldið búin á því þegar við komum til baka, en Annica hafði sýnt á sér margar hliðar, brosað, hjalað, verið ergileg og beinlínis öskureið. Það leyndi sér ekki gleðin þegar mamma kom heim og Annica bókstaflega henti sér á brjóstið.

Í dag er þrumveður í Englandi og við erum bara að dunda við sitthvað smálegt og ná okkur niður í rólegheitum eftir lætin í gærkvöldi. Ljúft.


Sveiflast milli væmni og hroka

12. júlí 

Átti samtal við dóttur mína á Íslandi í gær og hún sagði mér að fátt þætti hallærislegra heima en að blogga. Það þóttu mér skondin tíðindi. Ég held samt ótrauð áfram, alltaf fundist soldið kúl að vera hallærisleg.

Það gerist reyndar fátt í augnablikinu, Rocky Horror er okkur efst í huga því við ætlum sko ekki að klikka á hallærislegheitunum þar. Við horfðum á myndina í gær og fengum hugmyndir að búningum. Fyrir þá sem ekki hafa séð þessa sýningu í Bretlandi upplýsi ég að hún er upplifun engu lík. Áhorfendur eru virkir allan tímann og maður verður eiginlega að þekkja sjóið til hlítar til að vita hvenær maður á að grípa inní. Stuðið er engu líkt. Þegar ég sá þessa sýningu í London fyrir tveimur árum langaði mig rakleiðis inn aftur og byrja allt upp á nýtt. Myndir af okkur á leið á sýninguna verða að sjálfsögðu birtar hér á vefnum.

Anna Lilja hefur verið hálf ómöguleg að þurfa að skilja litlu prinsessuna eftir í nokkra tíma, en Kate amma og Debra frænka æfa sig á hverjum degi að gefa brjóstabarninu pela og vonandi gengur allt vel.

Ég er persónulega að reyna að hafa ekki áhyggjur af þessu, en veikindin mín, sem lýsa sér í kvíða í tíma og ótíma og ótrúlegum áhyggjum af öllu og engu, gera mér stundum erfitt fyrir. Árni Matt vinur minn á Mogganum sagði einhverntíma að það væri dyggð að bera harm sinn í hljóði. Maður yrði bara að vera viss um að allir vissu af því. Það þótti mér fyndið. Árni á ótrúleg gullkorn í gegnum tíðina og svo hefur maður líka á tilfinningunni að honum sé ekkert ofviða. Hann er einn af þessum glaðlyndu mönnum sem hefur mannbætandi áhrif á umhverfi sitt.

Ég skrifa samt ekki um þetta til að fá samúð heldur til að ítreka að þetta getur komið fyrir hvern sem er. Fyrir nokkrum árum vissi ég ekki hvað kvíði var og skildi ekki fólk sem alltaf á taugum útaf öllu og engu. En morgnarnir mínir núna einkennast af öðru af tvennu: Kvíðahnút í maganum sem lagast eftir smá stund eftir að ég hef hugleitt og gert allt sem ég get til að róa mig niður. Eða: Tilfinningu sem á helst skylt við angist og tekur lengri tíma að díla við. Kvíðaköstin geta svo komið hvenær sem er að deginum. Meðfædd bjartsýni, yndisleg fjölskylda, frábærir vinir plús hinar og þessar þumalputtaaðferðir til að kljást við þetta hafa komið að gagni.

Ég elska að sitja á kaffihúsi og horfa á fólk, ekki síst í útlöndum. Í Reading er til dæmis urmull af skrýtnu fólki og oftast finnst mér nærandi að sitja í rólegheitum, drekka kaffið mitt og láta hugann reika. Svo koma dagar þegar ég dett í hrokakast og finnst allir jafn ömurlegir sem eiga leið hjá. Hávær hlátur, háværar karlaraddir, píkuskrækir, barnagrátur, allt þetta getur gert mig brjálaða. Og ég á ekki orð yfir klæðnað fólks!!! Hvað er ég, tískulögga? Grunt, grunt.

Í gær sat ég og drakk kaffið mitt á kaffihúsi niðri við kanalinn og eitt get ég sagt ykkur. Hér er hart barist um reykingaborðin. Kona á mínum aldri spurði feimnislega hvort hún mætti setjast við borðið hjá mér og fékk góðfúslegt leyfi. Það var sumsé þannig dagur. Við fórum að spjalla saman og það kom í ljós að hún var á leið til Noregs í næstu viku þar sem hún á ættingja. Hún sagði mér að hún væri ljósmyndari og maðurinn hennar blaðamaður. Við áttum frábært spjall um lífið og tilveruna í hátt í klukkutíma. Svo kvöddumst við með virktum. Ég veit ekki hvað hún heitir né sagði ég til nafns en þetta var nærandi og skemmtilegt spjall sem gerði mig glaða í hjartanu. Er ég væmin núna? Það gerir þá fjandann ekkert til. Maður verður einfaldlega að vera opin fyrir góðu mómentunum í lífinu. Samtal við bláókunnugt skemmtilegt fólk getur verið móment í safnið.


Morðið á húsveggnum, Ryan Air og elsku Toini lappadjöfull

10. júlí.

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir rúmum mánuði gerði ég mér enga grein fyrir að blogg væri að verða  þjóðaríþrótt á Íslandi. Nú sé ég að allir sem vettlingi geta valdið blogga og svei mér ef það er ekki örlítil keppni í gangi. Hver er frumlegastur, skemmtilegastur, mest inni í umræðunni, etc. Allir vilja vera stórir, flottir, þekktir og vinsælir á landinu okkar litla og kannski er það bara mannlegt. Ég held að sjálfsögðu bara mínu striki og blogga um það sem gerist í mínu litla lífi, sjálfri mér og vonandi vinum og vandamönnum til skemmtunar.

Ég hef áður minnst á fröken Esmeröldu, sem er köngulóin voðalega sem býr hér á verkfæraskúrnum í garðinum. Í gær varð ég vitni að hroðalegu morði þar sem ég sat í sakleysi mínu og reykti út í bláinn. Stærðar býfluga kom á fleygiferð fram hjá mér og búmm, beint í vefinn. Skrýmslið hún Esmeralda var ekki lengi að taka við sér og kom á fleygiferð, réðst á býfluguna og nú upphófst bardagi upp á líf og dauða. Esmeralda hóf strax að vefja býfluguna inn í vefinn, og flugugreyið átti aldrei séns. Á endanum var býflugan eins og vakúmpakkaður böggull í fanginu á svartri köngulónni og í morgun þegar ég leit yfir sviðið sá ég að köngulóin sat efst í vefnum sínum, enn með böggulinn í fanginu og viðurstyggilegt glott á svörtu fésinu. Nægur matur til næstu daga því að sjálfsögðu er Esmeralda búin að dreifa litlum afkvæmum um allan skúr. 

En að öðru. Ég get eiginlega ekki skilið við Finnland án þess að minnast aðeins á síðustu dagana mína þar.

Ég hafði ekki endilega ætlað til Helsinki en Toini vinkona mín lappadjöfull (ég tek það skýrt fram að þannig kynnir hún sig sjálf) mátti ekki heyra á það minnst að ég kæmi ekki við hjá henni í lokin. Þegar til kom var íbúðin hennar full af kanínum sem hún var að passa fyrir vini sína og að sjálfsögðu hafði hún líka tekið að sér að vökva blóm fyrir annað  vinafólk í fríi. Toini vill allt fyrir alla gera. Hún fékk inni fyrir okkur þar sem hún vökvaði blómin. Við tókum því afar rólega daginn sem ég kom því ég var á leið til Tallin snemma morguninn eftir. Þar var ég búin að fá gistingu í klaustri en þegar til kom hafði ég verið bókuð á vitlausum degi og missti því af þeirri upplifun. Tallin var full af túristum, sérstaklega gamli bærinn sem er undurfallegur, en ég naut þess að rölta um, spjalla við fólk og birgði mig að sjálfsögðu upp af tóbaki eins og vera ber. Við höfðum svo einn dag til ráðstöfunar í Helsinki. Kvöldið sem ég kom frá Tallin tók Toini á móti mér á bryggjunni. Hún hafði keypt hreindýrakjöt og lappaost og heimtaði að fá að elda handa mér alvöru lappamat. Það þarf ekki að orðlengja það að maturinn var guðdómlegur.

Toini þykir sopinn góður og uppáhaldsvínið hennar er Absolut Vanilla. Ég keypti einn lítra af því í Tallin og meðan hún eldaði matinn drakk hún fjóra bjóra og lagðist svo í Absolut-flöskuna. Óvirki alkinn ég tók þessu með stóískri ró. Hún var kát og skemmtileg og sagði mér sögur af uppvextinum sem var erfiður lítilli stelpu sem ólst upp á fósturheimilum og hafði aldrei fast land undir fótum. Að hún skyldi taka stúdentspróf og fá góða vinnu er næstum kraftaverki líkast. Þegar ég vaknaði daginn eftir hraut Toini hraustlega og ég sá að flaskan var tæplega hálf. Við höfðum ætlað að gera margt þennan dag en ég bjóst ekki við miklu úr því sem komið var. Þar tók ég hinsvegar feil. Toini fékk sér góðan afréttara þegar hún vaknaði og við héldum glaðar af stað á Gay Pride. Þaðan lá leiðin í hina frægu neðanjarðarkirkju í Helsinki og svo fórum við á safn og skoðuðum áhugaverða sýningu listamanna frá fyrrum Sovétlýðveldunum. Að öllu þessu loknu fórum við á veitingastað á 14. hæð með dýrlegu útsýni yfir bæinn og þaðan fór ég svo í lestina til Tampere, en ég átti flug þaðan klukkan ellefu. Það var mikið um að vera í Helsinki þennan dag og margir fúlir og drukknir miðaldra Finnar á ferðinni. Þeir bölvuðu og rögnuðu og helltu yfir fólk svívirðingum en Toini sendi þeim tóninn  til baka þannig að ég var föl af skelfingu. Toini lætur sko ekki vaða yfir sig. Þetta var frábær dagur og ég hlakka til að fá Toini í heimsókn til Íslands, en þangað hefur hún komið tvisvar áður. Hún einfaldlega elskar Íslendinga.

Og þá er ég komin að fluginu með Ryan Air frá Tampere, en Anna Kristjáns bloggaði einmitt um flugtíma fyrir nokkru. Ég er einlægur aðdáandi Ryan Air því ég hef ítrekað flogið með þeim fyrir kúk og kanil um víða veröld. Þeir eru samt ótrúlega streit á farangursþyngdinni og þarna á flugvellinum voru bókstaflega allir með yfirvigt. Fólk var spurt hvort það vildi borga aukakílóin eða taka þau úr ferðatöskunni og yfir í handfarangurinn. Að sjálfsögðu vilja menn ekki borga svo fólk sat um allan völl með opnar ferðatöskur og var að pakka upp á nýtt. Þetta meikar auðvitað engan sens.  Ég var komin til London Stanstead rúmlega tólf um nótt að enskum tíma og átti eftir að koma mér til London. Klukkan var að verða fimm að morgni þegar ég kom á hostelið mitt og dagurinn eftir nýttist auðvitað ekki í neitt. En allt var þetta hverrar mínútu virði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband