Úps

Sagði ég bjartri framtíð? 7,9,13.

Af kuklurum og föndurgerð

9. júlí.

Ég reikaði inn á kuklráðstefnu hér í Reading í gær og á móti mér tók gæðaleg kona sem leiddi mig rakleitt að borðinu hans Davids sem les í lófa. Þegar ég opnaði lófana blasti við David hvað ég væri mikil hagleikskona og fim í höndunum. David var auðvitað ekki viðstaddur jólaföndrið á leikskólum barnanna minna. Það eru martraðarkenndustu minningar lífs míns. Þegar heilu jólasveinafjölskyldurnar stóðu tilbúnar og brosandi á næstu borðum var ég að slást við lím og klístraða fíltbúta sem festust allstaðar, börnin mín með skeifu og ég gráti nær. Yfirleitt kom einhver mamman eða fóstran til bjargar. David reddaði sér fyrir horn eins og Þórhallur miðill og sagði að ég ætti enn eftir að uppgötva þennan hæfileika. Dö! Ég var einu sinni á listaskóla í Bretlandi og tókst á heilum vetri að búa til ljótustu leirkerlingu sem sögur fara af og það með dyggri aðstoð Linusar hins sænska sem var næstur mér í stofunni og í meðvirknikasti allan tímann.

David sá líka að ég yrði aldrei rík en væri trúlega á leið til Ástralíu eða Norður-Ameríku (??!!). Ég væri voðalega vel heppnuð svona almennt séð og aldrei að vita nema stóra ástin dytti í fangið á mér innan þriggja ára.  Ég þakkaði pent og valhoppaði fagnandi mót bjartri framtíð.

 


Dræsulegur jakkafatastrákur í dragi

07.07.07.

Ég las í The Guardian að 38.000 pör hefðu verið gefin saman á Bretlandseyjum í dag.  Á venjulegum laugardegi í júlí gifta sig um það bil 12.000 pör. Af þessum 38.000 pörum dagsins ætluðu 100  að játast hvort öðru efst í hinum ýmsu rússíbönum. Hætt við að þau hjónabönd einkennist af "ups and downs". Reyndar sagði Gulli stjarna að þetta væri afleitur dagur til giftinga. Pétur í Óháða sagði mér í viðtali fyrr á árinu að hann væri með nokkrar bókanir þennan dag, en merkilegast fannst honum að kona nokkur hafði pantað 7. september 2013,  án þess að nokkur brúðgumi væri í spilinu. Þegar ég sagði honum að 7, 9, 13 væru líka uppáhaldstölurnar mínar bókaði hann mig umsvifalaust og þar sem ég hef heldur engan tiltækan biðil bauð hann mér í árlegt tilhleypingapartý sem hann heldur í desember. Ætla rétt að vona að hann klikki ekki á því!

Chris og Anna Lilja fóru í "second hand"-búða leiðangur í dag, ekki síst til að finna "outfit" á Chris fyrir leikhúsferðina á laugardaginn. Við ætlum að sjá Rocky Horror og Chris verður í svörtu leðurpilsi, dræsulegustu netsokkum sem ég hef á ævinni séð og svo fann hann í búðinni háhælaða skó í réttri stærð. Við þetta mun hann klæðast skyrtu, bindi og jakkafatajakka. Ég er að spá í hvort þetta geti ekki verið hættulegt, ég meina, hvað ef hann fílar þetta í botn og heimtar að vera í dragi á hverjum laugardegi? Chris er einn af þeim sem ekki er hægt að hleypa einum í skranbúðir, hann kemur alltaf heim með drasl í kassavís. Hann er líka meðlimur á einhverskonar prívatvefsíðu þar sem hægt er að fá allan andskotann gefins. Þegar hann kom geislandi heim með fjóra risastóra kassa af He Man-dóti og þrjá He Man-kastala var Önnu Lilju allri lokið. Til allrar guðs lukku kom barnafjölskylda í heimsókn stuttu síðar sem þáði með þökkum allt dótið. Chris tókst á elleftu stundu að bjarga nokkrum fígúrum, sem skreyta nú blómabeðin í garðinum.

Við Anna Lilja erum ekki búnar að ákveða hvernig við verðum klæddar á  Rocky Horror, ætlum að horfa á myndina í vikunni og fá hugmyndir.

 

 


Stóru litlu börnin manns

5. júlí.

Ég var alveg ómöguleg í gær þegar ég frétti að Halla mín litla hefði verið flutt fárveik á sjúkrahús nóttina áður. Þó Halla sé 24 ára, tveggja barna móðir og hetja, er hún samt litla barnið mitt, eins og reyndar öll hin. Það kom í ljós að um gallsteina var að ræða og bólgu í gallblöðru, sem nú er búið að fjarlægja. Ég var alveg ónýt að vera ekki hjá henni, en nú er hún komin heim og vonandi er allt á réttri leið. Það er sama hvað börnin manns eru gömul, þau eru alltaf litlu börnin manns, ekki síst þegar eitthvað bjátar á.

Ég var að lesa Inspector Morse ekki alls fyrir löngu (sem er engan veginn í frásögur færandi) nema hvað ég staldraði við á einni síðunni þar sem Morse lýsir því yfir að hann hafi "enga áhyggju í öllum heiminum". Ég hugsaði einmitt þá að það væri tilfinning sem ég hefði ekki upplifað í rúmlega 30 ár. Að eiga börn er ávísun á lífstíðaráhyggjur.

Að öðru leyti er allt fínt, nema hér rignir hundum og köttum dag eftir dag. Veðurfréttamennirnir eru alveg jafn sorgmæddir á svipinn og Siggi Stormur þegar veðrið heima er slæmt og reyna að draga úr leiðindunum eftir bestu getu. Nú á að rofa til og bresta á með blíðu um helgina. Eða svo segja þeir og horfa hughreystandi framan í áhorfendur. Ævintýrin frá Finnlandi og Eistlandi verða að bíða til morguns þar sem nú stendur til að lita hárið á Önnu Lilju, sem er á leið út á lífið á laugardaginn með Chris og vinafólki frá Brighton.  Amma verður að sjálfsögðu heima og passar:)


Pamela Anderson, ég og Danny K

2. júlí.

Hef ekki verið nettengd fyrr en núna þegar ég er aftur komin til Englands. Eins og þessi færsla vitnar um var ég hvorki étin af snákum né mýflugum, en fy fan hvað ég er lúbarin og endurnærð. Dvölin í sumarbústaðnum var hreint undursamleg og fjórar tegundir af sánu í boði. Foreldrar Paiwi og bræður búa öll í Halmeniemi og eiga gommu af sumarhúsum sem þau leigja út. Mamma hennar tók sérstöku ástfóstri við mig og á hverjum degi beið mín nýr vöndur, gerður úr birkigreinum, og svo var ég send í gufubað með vöndinn og pískuð uppúr og niðrúr. Inn á milli fékk ég svo glös af "mahla" sem er vökvi tekinn úr birkitrjám á vorin áður en þau laufgast. Vökvinn er fullur af steinefnum og vítamínum og ég get upplýst lesendur um að hægt er að taka "mahla" úr sama trénu 20-30 sinnum á dag, án þess að það skaði tréð hið minnsta.  Þetta drekkur maður svo í sánunni rétt á meðan enginn er að berja mann og á endanum líður manni mér eins og maður sé  um það bil að breytast í birkitré. 

Það var svo engin miskunn með að fara í vatnið á milli. Einhverntíma stóð ég bryggjupollanum og var að glápa oní vatnið þegar ég sá svartan orm hlykkjast milli smáfiskanna. Ég ákvað þar og þá að nú væri mínum vatnaferðum lokið, en heimamenn sannfærðu mig um að svona ormar væru afar sjaldgæfir og ég væri lukkunnar pamfíll að hafa séð einn yfir höfuð. Þeir væru meira að segja friðaðir. Til að vera ekki leiðindatepra ákvað ég að halda áfram að baða mig í vatninu hvað sem liði ormum og smáfiskum og helvíti var það alltaf hressandi. Mig hundlangar að birta myndir hér á vefnum af sjálfri mér og öðrum í sánu eða æpandi í vatninu, en þetta er auðvitað enginn dónavefur og á þessum myndum eru allir berir. Nema hvað. 

Ég get ómögulega gert öllum skemmtilegheitunum skil í einni færslu, en verð þó að nefna miðsumarkvöldið sjálft. Eftir að hafa yljað okkur við bálið (það var sko skítkallt, eins og á íslenskri útihátíð) fórum við í betri fötin (hvíta kjólinn) og á ballið. Þar var troðið út úr dyrum, rífandi dansstemmning á einum stað, karaokí á öðrum og alls staðar fullt af fólki í miðsumarskapi, étandi pylsur, lörtsu (finnskt delicatessé í kleinuhringjastíl) og drekkandi görótta drykki. Hápunktur kvöldsins var svo finnskur skallapoppari, kallaður Danny K, sem var beðið með eftirvæntingu. Þegar hans tími nálgaðist fór í gang mikið ljósasjóv og trumbusláttur, fólk hætti að dansa og flykktist að sviðinu.  Danny var giftur finnskri fegurðardís en er nú skilinn og þykir ægilegt kvennagull þrátt fyrir að vera ansi markeraður.  Það ætlaði allt um koll að keyra þegar hann steig á sviðið og söng gamla Tom Jones-slagara í bland við finnskt rokk, sumt meira að segja frumsamið. Hann sagði viðstöddum að hann ætti von á Pamelu Anderson í heimsókn síðar um kvöldið, enda stúlkan sú af finnskum ættum og var að visitera familíuna í Finnlandi. Pamela hætti hinsvegar við heimsóknina til Danny af einhverjum ástæðum, sem varð til þess að honum lá ekkert á og tók fagnandi á móti íslenskri blaðakonu í hvítum kjól baksviðs eftir sjóvið. Það fór vel á með okkur Danny, við áttum það til dæmis sameiginlegt að hafa bæði farið í aðgerð á hné fyrir skömmu, og gátum borið saman bækur okkar. Hann var bara sjarmerandi svona í návígi og nú er ég með símann hjá honum og heimboð næst þegar ég á leið um Finnland.

Nú eru komnir gestir í kvöldmat hér í Reading, enska amma og afi voru að koma heim úr siglingu um grísku eyjarnar svo nú verða sagðar ferðasögur á báða bóga milli þess að við dáumst að Annicu litlu sem hefur stækkað ótrúlega síðan við vorum hér síðast og brosir og hjalar í sífellu. Ég mun hinsvegar halda áfram með Finnlandsævintýrin hér í næstu færslum. Set inn nokkrar myndir til gamans.

 

 


Úr siðmenningunni í snákana

19. júní.

Bara nokkrar línur áður en ég yfirgef hina fögru Mikkelí og gerist sveitastúlka í Halmenieni. Halmenieni er lítið sveitaþorp og þar skammt frá á Kapiainen-fjölskyldan "en liten stuga" þar sem við munum dvelja næstu daga. Mér skilst að Finnar flykkist nú í sumarhúsin sín, haldi upp á miðsumarið með stæl, kveiki elda, haldi dansleiki, grilli og drekki vodka úr staupum sem hafa verið skorin út úr feitum "korvum" (pylsum).   Í sumarhúsinu er ekkert rennandi vatn, bara sánan og vatnið  við bæjardyrnar þar sem við munum skola af okkur svitann. Salerni er ekki í boði, bara kamar í garðinum eða sjálf náttúran. Það fór í gang hér mikil snákaumræða í gærkvöldi og mér líst ekki meira en svo á blikuna. Af fjórum tegundum af snákum í Finnlandi er einn eitraður og þó mér hafi ekki fundist ýkjur einkenna Finnana hingað til vona ég að þeir hafi krítað liðugt í gær. Að minnsta kosti lýstu þeir af innlifun þykkt og lengd snákanna og ég býst alveg eins við að verða étin upp til agna rétt á meðan ég sinni kalli náttúrunnar í skóginum. Ef snákarnir verða mér ekki að aldurtila þá verða það hugsanlega helvítis mýflugurnar sem virðast elska íslenskt blóð.  Ég ætla samt að taka þessu með stóískri ró og lifa mig inní það sem Finnar segja einkenna þá á þessum árstíma, "easy life" og notalegheit. Bróðir Paiwi býr í þorpinu og þar er tölvusamband svo ég næ kannski að skrifa nokkrar línur af og til.

Hvíti kjóllinn er nú vandlega samanbrotinn í töskunni og verður notaður á dansleikjum eins og til stóð. Við erum búin að fylla bílinn af allskyns dóti og leggjum af stað innan tíðar. "Ekkert stress," segja þau, "við þurfum bara að vera mætt í blakið klukkan sjö." Það var nefnilega það.   


Postulleg kveðja á finnsku - og já, biðill á torginu

17. júní.

Ég hóf daginn á að fara í finnska messu. Skátarnir voru þar í stóru hlutverki, sem minnti mig á 17. júní-messurnar heima, en annars er einhverskonar trúarráðstefna í bænum svo það var allt troðið. Ég tók við postullegri kveðju á finnsku enda engin landamæri í guðshúsinu.

þegar ég labbaði niður á torgið var ég stoppuð af manni sem varð "fyr og flamme" þegar ég sagðist vera frá Íslandi. Hann bauð mér upp á kaffi og við sátum góða stund og spjölluðum saman. Það var ekki langt liðið á samtalið þegar hann spurði upp úr þurru hvort ég vildi giftast honum. Það hefur kannski spurst út að hér væri staddur snarvitlaus, íslenskur kvenmaður í karlaleit. (Sem er reyndar fjarri sanni því þetta karlavesen er bara í nösunum á mér.) En nú var komið að mér að hrista höfuðið dapurlega því þetta var einn af rónunum í Mikkelí. Hann átti pottþétt ekkert nema leppana sem hann stóð í og hundinn sem hann var með í bandi.  Ég hef alltaf laðað að mér utangarðsmenn og þessi mátti eiga að hann var skemmtilegur, vel upplýstur og glaður í bragði og talaði bæði sænsku og ensku. Maður verður samt að hafa einhvern standard, og rónar eru einfaldlega úti. Við kvöddumst þó með virktum og hann vildi senda árnaðaróskir til íslensku þjóðarinnar í tilefni dagsins og vara okkur í leiðinni við græðgi og eftirsókn eftir vindi. Svo mörg voru þau orð.

Svo fórum við Paiwi og co. á ströndina og eftir það í húsaleit. Susanni, sem er heimilisvinur fjölskyldunnar, er að leita sér að húsi. Við Paiwi erum í stökustu vandræðum með hana því hún er slegin blindu þegar nígerískur barnsfaðir hennar er annars vegar. Gaurinn vinnur ekkert, gengur í skrokk á henni annað slagið og síðasta útspilið var að hann væri hommi og vildi ekkert með hana hafa. Hann vill hinsvegar ekki skilja nema fyrir dágóða peningaupphæð. Susanni trúir því statt og stöðugt að hann eigi bara eitthvað bágt í sálinni og allt muni lagast þegar hún kaupir hús þar sem honum getur liðið vel!!!! Hún tekur að sjálfsögðu engum sönsum þó við Paiwi þrumum yfir henni. Það segir enginn konu í þráhyggjukasti að hún sé að tortíma sjálfri sér. Því miður.

En að allt öðru. Ég er með frábæra viðskiptahugmynd, ég sem hef aldrei átt bót fyrir rassgatið á mér og hef ekkert vit á peningum. Málið er sumsé að hér við eitt af hinum undurfögru vötnum er glæsilegt hús sem var fyrir ekki svo mörgum árum fimm stjörnu hótel. Það fór því miður á hausinn vegna lélegrar stjórnunar og var um tíma notað fyrir sómalska flóttamenn. Svo keyptu einhverjir Rússar það og láta það bara grotna niður. Hér er hinsvegar aragrúi ferðamanna og spurning hvort ekki væri ráð að kaupa  hótelið fyrir slikk af Rússunum. Finnarnir segja að maður eigi aldrei að treysta Rússa, ekki einu sinni eftir að maður hefur steikt hann í smjöri, en ég hef tröllatrú á að Íslendingar gætu dílað við þá og gert þetta að stórbisness. Velti þessu svona upp ef einhver hefur áhuga.

Nú er hinsvegar gufubaðið tilbúið, svo og hrísvendirnir góðu, og því enginn tími til að skrifa meira að sinni.  

 


Hryggbrot og gítarsóló

16. júní.

Ég gerði heiðarlega tilraun áðan til að syngja þjóðsönginn fyrir gestgjafa mína Finnana en varð að gefast upp. Maður misþyrmir ekki þjóðsöngnum.

Við erum búin að vera á fartinni um allt, Paiwi þekkir allstaðar fólk og kynnir mig hægri, vinstri. Í hefndarskyni fyrir kjólakaupin heilsaði ég  karlkyns-Finnum afar kurteislega og spurði svo hvort þeir vildu giftast mér. Paiwi setti dreyrrauða í fyrstu og mennirnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Ég hef aldrei verið hryggbrotin jafn oft á jafn stuttum tíma. 

Ég er orðlaus yfir fegurðinni hérna og myndin sem ég var búin að gera mér af Finnum stenst engan veginn. Þeir eru opnir og vingjarnlegir, hafa viðurstyggilega góðan húmor og vilja allt fyrir mann gera. Paiwi og maðurinn hennar búa þægilega og hafa valið sér lífstíl sem byggist á kyrrð og rólegheitum. Dóttir þeirra er í námsreisu í Eistlandi og sonurinn, 16 ára býr heima.  Það er nú samt þannig að fátt er svo með öllu gott.... Drengurinn á nefnilega rafmagnsgítar og æfir sig reglulega, allt upp í tvo tíma í senn, djöflast á gítarnum og allt í botni. Foreldrarnir haggast ekki en ég er svona um það bil að fá taugaáfall eftir fimmtán mínútur. Þá fer ég í reykingagöngutúr til að ná hjartslættinum niður. Þau vilja leyfa honum að æfa sig til að "stífla ekki flæðið", en eru ekki til einhverskonar heyrnartól sem hann gæti haft á hausnum til að hlífa umhverfinu?   

Ég fer í gufubað á hverju kvöldi og á morgun er það ströndin. Eftir helgina er svo ferðinni heitið í sumarhúsið þeirra þar sem mér skilst að verði mikið miðsumarspartý. Ég reyni kannski að syngja fyrir þau Hæ, hó, jibbíjeij á morgun, svona í tilefni dagsins. Að öðru leyti verð ég til friðs.

Og meðan ég man. Ég á afmæli á fimmtudaginn og verð að heiman. Þeir sem vilja gleðja mig á afmælisdaginn geta lagt inn fúlgur fjár á reikning xxxxx - eða þannig. 

Nú ætla ég út í finnsku sumarnóttina, sem er björt eins og heima, horfa á íkornana leika sér í trjánum og senda fallegar hugsanir til allra sem ég elska - og jafnvel hinna líka. Gleðilega þjóðhátíð.


Djúpur tangó og konur í krísu

14. júní.

Ég klúðraði þessu algjörlega með brenniboltann, fór í sturtu og smurði mig með kremi sem átti að slá á kláðann vegna mýbitanna og svo sofnaði ég svefni hinna réttlátu. Sem betur fer var mín sárt saknað og Norðmennirnir höfðu ætlað að kaupa okkur Íslendingana dýru verði. Geir var sem betur fer mættur og stóð sig vel, en reglurnar eru skýrar:

1. Dómarinn er strangur og óréttlátur.

2. Allt er leyfilegt.

3. Gestgjafarnir vinna.

Svo Danir fóru með sigur af hólmi. Við Geir vorum þó auðvitað ekki dauð úr öllum æðum og síðar um kvöldið, þegar kveðjupartýið  var haldið, tókum við djúpan tangó sem sló Finnana út þó tangóinn væri sérstaklega ætlaður þeim. Ég kom mér í ró um tvöleytið en partýið stóð til morguns.

Ég hitti mikið af áhugaverðu fólki þarna, eftirminnilegust er trúlega hin finnska Toini Imponen, lappadjöfull eins og hún sjálf kallar sig, en hún hefur verið á Íslandi og elskar Íslendinga. Toini er alin upp á fósturheimilum um gjörvallt Finnland, er ör og skapstór en hefur spjarað sig vel. Þarna var líka yndisleg eldri kona frá Króatíu sem gaman var að spjalla við og hinn danski Jens, sem hefur óstjórnlegan áhuga á íslensku Thorsurunum og hefur skrifað grein um þá. Að ótöldum öllum hinum.

Í partýinu bauð hin danska Kristina mér far til Randers daginn eftir sem ég þáði því þaðan var einfalt að taka rútu til Ebeltoft. Þegar við settumst inn í bílinn sagði hún mér titrandi röddu að hún ætlaði að aka hægt og rólega og þá sá ég að hún var ekki í standi til að keyra yfir höfuð. Hún hafði haldið dampi til sex um morguninn og var á þessu hrikalega stigi þegar þynnkan er að taka yfir, hausinn fullur af bómull og innri titringurinn að drepa mann. Ég bauðst til að skipta um sæti við hana og hún fór þakklát yfir í farþegasætið. Óvænta atriðið á ráðstefnunni þennan morgun hefur örugglega verið mörgum erfitt því þar voru mættir til leiks þrír Danir sem höfðu í farteskinu stáltunnur, öskutunnulok og fleira í þeim dúr og hávaðinn var  ærandi. Ég hefði ekki viljað sitja þunn undir þeim ósköpum öllum!

Í rútunni á leið niður Jótland, í gegnum alla yndislegu bæina, í guðdómlegu veðri, fann ég gamalkunnan kvíða læðast að mér. Eins og venjulega var hann óskilgreindur, hefur eitthvað með framtíðina að gera, peningamál og óöryggi, og ég mátti hafa mig alla við að öðlast ró á ný. Ég þuldi möntruna mína, hugsaði um allt það góða í lífinu og náði að slaka á. Ég er samt afar hugsi yfir því að allstaðar í heiminum hitti ég konur á mínum aldri í svipaðri aðstöðu. Þreyttar, útbrenndar með lélega sjálfsímynd og margar þeirra drekka ótæpilega. Þetta virðist vera almennt hjá minni kynslóð og er sennilega vegna þess að við ólumst upp við tvöföld skilaboð, annars vegar gömlu gildin frá mæðrum okkar og ömmum, hins vegar frá samfélaginu sem var að breytast og vakna til meðvitundar um stöðu kvenna. Ég var nítján ára þegar ég stóð í Bankastrætinu á kvennafundinum fræga, ólétt að tvíburum og eiginlega alveg lost. Skaparanum hugnaðist ekki að nesta mig út með "kvenlegum dyggðum". Ég hef aldrei á ævinni saumað flík, kann ekki að stoppa í sokka, finnst leiðinlegt að þrífa, og er alltaf eins og geimvera í hópi kvenna sem skiptast á mataruppskriftum, svo dæmi séu tekin. Mömmu fannst það hins vegar mikil sjálfselska að ég ynni úti frá fjórum börnum og væri ekki til staðar fyrir þau og ektamanninn. Enda hef ég aldrei tollað í hjónabandi nema tímabundið. Sektarkenndin hefur nánast verið "my middle name" alla tíð. Ég er að reyna að breyta þessu og vona að börnin mín séu að ala upp kynslóðina sem er laus við sektarkenndina fyrir fullt og allt.

Nóg um það.

Nú er ég komin til Finnlands þar sem ég dvelst í góðu yfirlæti hjá vinkonu minni Paiwi í Mikkelí. Ég flaug frá Árósum til Stanstead og þaðan til Tampere. Það var langódýrast. Ég hékk á flugvellinum í sex tíma en mér finnst flugvellir skemmtilegir staðir og leiddist ekki baun. Í gær fórum við Paiwi í bíltúr um stærsta vatnahérað Evrópu og það var æðislegt. Hún vildi endilega stoppa hjá finnskum fatahönnuði á leiðinni og neyddi mig til að máta kjóla. (Ég veit ekki hvað þetta er með vinkonur mínar að vilja alltaf draga mig inn í fatabúðir þrátt fyrir að ég viti ekkert leiðinlegra. Sennilega finnst þeim ég svona drusluleg.) Þetta endaði með að Paiwi keypti handa mér hvítan, síðan kjól sem henni og afgreiðslustúlkunni bar saman um að væri eins og sniðinn á mig!!! Ég - í hvítum kjól. Paiwi segir að ég eigi að dansa í honum á midsommarafton en ég er að spá í að nota hann sem brúðarkjól. Búin að finna æðislega sveitakirkju skammt frá Savonlinna og vantar bara brúðgumann.  

 


Boot Camp

Það er 30 stiga hiti og ekki skýhnoðri á himni. Ég er hlekkjuð við fimm bláókunnugar manneskjur inni í dimmum skógi. Við erum öll með bundið fyrir augun. Ég er öftust í röðinni. VIð höfum kaðal til að feta okkur eftir en hann hlykkjast meðfram trjám, yfir trjárætur og ófærur og stundum rekumst við á fleiri kaðla sem við flækjumst í. Við dettum hvort um annað, rispum okkur á trjágreinum og liggjum í kös á skógarbotninum. Ég er berlæruð og berhandleggjuð. Þegar við komum að endanum á kaðlinum erum við losuð hvort frá öðru og bindið tekið frá augunum. Ég hristi af mér blaðlýsnar og býst við smá pásu en er umsvifalaust dregin af stað lengra inn í skóginn. Þar bíða okkar bogar og örvar og við tökum til óspilltra málanna. Þetta er keppni og við verðum að vera snögg og hitta í mark. Við skjótum 30 örvum með frekar lélegum árangri. Engin pása. Næst er það axarkast. Öxin er svo þung að ég veld henni varla en við köstum eins og við lifandi getum. Aftur frekar lélegur árangur.

Vatn! Ég verð að fá vatn. En það er ekkert vatn í boði.

Við höldum lengra inn í skóginn þar sem bíður okkar digur trjábolur og tvær sagir. Við eigum að saga sex bita af trénu og skiptumst á að sitja klofvega á trjábolnum sem hefur verið lagður á tvo stólpa. Svo er sagað og sagað. Mig verkjar í hendurnar og þegar við ljúkum verkefninu finn ég að ég er þakin tréflísum frá ökkla uppí rass. En það er enginn tími til að draga þær út. Við blasa himinháar stangir sem við eigum að klifra upp. Ef við komumst á toppinn doblum við skorið. My ass. Við gefumst upp og erum dregin af stað til baka þar sem við fáum hvert sitt fjallahjólið til afnota. Bara fimm kílómetrar segir foringinn. Við hjólum af stað inn í skóginn, og ég sem hélt það væru engar brekkur í Damörku. Skógarstígurinn er þakinn rótum og ójöfnum og ég dett af hjólinu. Sá sem er á eftir mér dettur líka en við stígum samstundis á bak aftur og höldum áfram. Það er hjólað í djöfulmóð og ég er rennsveitt af svita og óhreinindum og mig verkjar í klofið. Við komum í mark og gerum ráð fyrir að nú sé tími kominn á gourmet-dinnerinn sem okkur var lofað. En nei, ó nei. Næst er það eróbikk. Djöfull er ég búin á því. En nú er sumsé matur. Við brosum hvert til annars, berjum á axlir og þykjumst hafa staðið okkur vel. Þegar stigin eru talin erum við næst neðst.

Við hröðum okkur að matarborðinu og ég fæ létt áfall. Við grillið er tunna full af slímugum fiski. Þeir segja það vera urriða en ég þekki urriða þegar ég sé hann. Þetta er í skásta falli þorskur. Við köfum í tunnuna, finnum okkur fisk og álpappír og pökkum inn. Fisknum er hent á grillið og þegar minn er tilbúinn býst ég við að taka utan af honum álið og látast smakka. Áður en ég veit af er ég búin að éta allan fiskinn. Ég er nær dauða en lífi af hungri og þorsta.

Þetta er ekki Boot Camp. Þetta er ráðstefna fyrir freelanceblaðamenn á Jótlandi og þessi skemmtilegheit flokkast undir liðinn aktiviteter. Eftir matinn er talið í söngvakeppni. Löndin takast á og þar sem við erum bara tvö frá Íslandi og fyrst í röðinni stígum við upp á borð og syngjum Rósina með miklum tilþrifum og við geðveikar undirtektir. Nú snýst þetta bara um að láta sig hafa það. Við erum í öðru sæti, töpum naumlega fyrir Norðmönnum. Shit! En djöfull er þetta hressandi. Það eru hundrað manns í allt á ráðstefnunni og þegar við ökum aftur heim á hótel eru 99 drukknir og einn edrú. Ég.

Í dag hefur prógrammið verið hreint frábært. Vinnugleði er þemað og hvernig forðast beri stress og að brenna út. Hér eru margir sem hafa brunnið út eða verið alveg í þann veginn. Þetta er eins og vítamínsprauta.

Ég verð ábyggilega í viku að tína úr mér flísarnar og mýbitin eru um allan skrokk, líka inni í eyrunum á mér. Eftir hjólatúrinn líður mér milli fótanna eins og helriðinni hóru. Er algjörlega óvön hörðum sætum á fjallahjólum. En það þýðir ekki að láta deigan síga. Eftir nokkrar mínútur hefst keppni milli landa í brennó og kýló. Af því við erum bara tvö Íslendingarnir ætlum við að láta bjóða í okkur. Efast ekki um að það verður hart barist um víkingana tvo. Meira síðar.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband