Sveiflast milli væmni og hroka

12. júlí 

Átti samtal við dóttur mína á Íslandi í gær og hún sagði mér að fátt þætti hallærislegra heima en að blogga. Það þóttu mér skondin tíðindi. Ég held samt ótrauð áfram, alltaf fundist soldið kúl að vera hallærisleg.

Það gerist reyndar fátt í augnablikinu, Rocky Horror er okkur efst í huga því við ætlum sko ekki að klikka á hallærislegheitunum þar. Við horfðum á myndina í gær og fengum hugmyndir að búningum. Fyrir þá sem ekki hafa séð þessa sýningu í Bretlandi upplýsi ég að hún er upplifun engu lík. Áhorfendur eru virkir allan tímann og maður verður eiginlega að þekkja sjóið til hlítar til að vita hvenær maður á að grípa inní. Stuðið er engu líkt. Þegar ég sá þessa sýningu í London fyrir tveimur árum langaði mig rakleiðis inn aftur og byrja allt upp á nýtt. Myndir af okkur á leið á sýninguna verða að sjálfsögðu birtar hér á vefnum.

Anna Lilja hefur verið hálf ómöguleg að þurfa að skilja litlu prinsessuna eftir í nokkra tíma, en Kate amma og Debra frænka æfa sig á hverjum degi að gefa brjóstabarninu pela og vonandi gengur allt vel.

Ég er persónulega að reyna að hafa ekki áhyggjur af þessu, en veikindin mín, sem lýsa sér í kvíða í tíma og ótíma og ótrúlegum áhyggjum af öllu og engu, gera mér stundum erfitt fyrir. Árni Matt vinur minn á Mogganum sagði einhverntíma að það væri dyggð að bera harm sinn í hljóði. Maður yrði bara að vera viss um að allir vissu af því. Það þótti mér fyndið. Árni á ótrúleg gullkorn í gegnum tíðina og svo hefur maður líka á tilfinningunni að honum sé ekkert ofviða. Hann er einn af þessum glaðlyndu mönnum sem hefur mannbætandi áhrif á umhverfi sitt.

Ég skrifa samt ekki um þetta til að fá samúð heldur til að ítreka að þetta getur komið fyrir hvern sem er. Fyrir nokkrum árum vissi ég ekki hvað kvíði var og skildi ekki fólk sem alltaf á taugum útaf öllu og engu. En morgnarnir mínir núna einkennast af öðru af tvennu: Kvíðahnút í maganum sem lagast eftir smá stund eftir að ég hef hugleitt og gert allt sem ég get til að róa mig niður. Eða: Tilfinningu sem á helst skylt við angist og tekur lengri tíma að díla við. Kvíðaköstin geta svo komið hvenær sem er að deginum. Meðfædd bjartsýni, yndisleg fjölskylda, frábærir vinir plús hinar og þessar þumalputtaaðferðir til að kljást við þetta hafa komið að gagni.

Ég elska að sitja á kaffihúsi og horfa á fólk, ekki síst í útlöndum. Í Reading er til dæmis urmull af skrýtnu fólki og oftast finnst mér nærandi að sitja í rólegheitum, drekka kaffið mitt og láta hugann reika. Svo koma dagar þegar ég dett í hrokakast og finnst allir jafn ömurlegir sem eiga leið hjá. Hávær hlátur, háværar karlaraddir, píkuskrækir, barnagrátur, allt þetta getur gert mig brjálaða. Og ég á ekki orð yfir klæðnað fólks!!! Hvað er ég, tískulögga? Grunt, grunt.

Í gær sat ég og drakk kaffið mitt á kaffihúsi niðri við kanalinn og eitt get ég sagt ykkur. Hér er hart barist um reykingaborðin. Kona á mínum aldri spurði feimnislega hvort hún mætti setjast við borðið hjá mér og fékk góðfúslegt leyfi. Það var sumsé þannig dagur. Við fórum að spjalla saman og það kom í ljós að hún var á leið til Noregs í næstu viku þar sem hún á ættingja. Hún sagði mér að hún væri ljósmyndari og maðurinn hennar blaðamaður. Við áttum frábært spjall um lífið og tilveruna í hátt í klukkutíma. Svo kvöddumst við með virktum. Ég veit ekki hvað hún heitir né sagði ég til nafns en þetta var nærandi og skemmtilegt spjall sem gerði mig glaða í hjartanu. Er ég væmin núna? Það gerir þá fjandann ekkert til. Maður verður einfaldlega að vera opin fyrir góðu mómentunum í lífinu. Samtal við bláókunnugt skemmtilegt fólk getur verið móment í safnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ elskust.........vont að heyra að sveiflurnar skuli elta þig yfir hafið mín kæra, en mundu það að allt vont tekur enda og gott tekur við...........Ég fletti í bók sem ég á og er um hamingju og það sem kom er.......Reyndu að sneiða hjá því sem kemur þér í uppnám og finna þér jákvæðara umhverfi. (lestu skilaboð frá mér í fyrri færslu þinni) Og á sömu blaðsíðu stendur......... Hamingjan felst í því að lifa í samræmi við eigin orku en ekki annara........ Vona svo sannarlega að þér líði aðeins betur þegar þú lest þetta. kveðja og knús stoska

steinunn ósk (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 13:48

2 identicon

Ástarþakkir, þetta var góð lesning og átti sannarlega við í dag. Skýri það betur síðar. Annars bara allt fínt

edda (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 17:27

3 Smámynd: Inga Dagný Eydal

Vildi bara segja þér að þú ert ekki ein á báti. Einkennilegt hvernig kvíðahnúturinn í maganum, pirringurinn og þessi einkennilega hræðsla við það sem framundan er- á ekkert skylt við rökhugsun eða gáfur. Annars myndi okkur að sjálfsögðu aldrei líða svona

Bestu kveðjur.....go girl! 

Inga Dagný Eydal, 13.7.2007 kl. 19:27

4 identicon

Kærar þakkir, elsku Inga mín. Við verðum að standa saman stelpurnar, trúa á mátt okkar og megin og þiggja stuðning hver annarrar. Að sjálfsögðu á þetta ekkert skylt við rökhugsun, hvað þá heldur gáfur.  Enn og aftur, takk fyrir hugulsemina _ og svo bara stöndum við okkur

edda (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband