Bresk tölvuást - og ég um það bil hársbreidd frá heimsfrægð

21. júlí.

Tóti tölvukall kom í gærkvöldi og staldraði við í þrjár mínútur. Síðan hefur nettengingin virkað nokkurnveginn. Sem minnir mig á annan tölvukall sem ég kynntist fyrir nokkrum árum. Og nú finn ég mig knúna til að segja ykkur fallega, breska ástarsögu.

Hún gerðist fyrir átta árum þegar ég bjó ásamt Önnu Lilju í fallega þorpinu okkar Forest Row í Sussex. Halla dóttir mín var farin heim því hjarta hennar var hjá Elíasi (nú tengdasyni) á Íslandi og hann var óður á línunni á hverju kvöldi að véla hana heim. Sem honum tókst. Við Anna Lilja undum hag okkar vel, báðar í skóla og unnum á golfhótelinu fyrir fjögur pund á tímann til að drýgja tekjurnar. Svo elduðum við stundum á heimavistarskóla fyrir börn auðkýfinga frá Þýskalandi og Frakklandi, en þar höfðum við heil fimm pund á tímann upp úr krafsinu.  Ég er rosalega montin að hafa þetta starf í CV-inu mínu því fátt er mér óeðlilegra en elda mat handa heilum heimavistarskóla. Unglingarnir voru þó afar kurteisir og elskulegir, enda oftast í hassvímu, en höfðu þó sérþarfir hægri vinstri. Sumir voru grænmetisætur, aðrir átu ekki mjólkurafurðir og einhverjir voru gluten-fríir. Sem sagt kúnst að koma saman matseðli sem allir gátu sætt sig við. En alltaf voru þau jafn glöð þessar elskur.

Og nú aftur að ástarsögunni. Við vorum með tölvuskribbli heima sem snerist ekki hálfan snúning og einhver (nú man ég ekki hvort það var starfsmaður á hótelinu eða einhver á heimavistinni) sagðist þekkja strák sem væri snillingur á tölvur. Hvort ég vildi ekki fá hann heim til að líta á gripinn. Ég þáði það með þökkum.

Tveim kvöldum seinna var barið á dyrnar og úti stóð gullfallegur drengur, ljós og fagur, um það bil átján ára. Hann sagðist vera Allan og kominn til að kíkja á tölvuna. Ég bauð honum inn og Anna Lilja sem stóð álengdar, leit á hann, sendi mér svona "oh-my-god"-augnaráð og lét sig hverfa. Þegar Allan hafði átt við tölvuna góða stund datt mér í hug að bjóða honum eitthvað að drekka og hann þáði að enskum sið smá tesopa. Fuck. Ég efaðist um að við ættum te, hvað þá að við kynnum að gera það eins og Englendingum þykir best, en af skepnuskap setti ég Önnu Lilju í málið. Hún gretti sig framan í mig, fann gamlan kassa með tepokum og bjó til te sem hún færði drengnum. Hann drakk það, trúlega af kurteisi einni saman, lauk við að gera við tölvuna og kvaddi.

Þegar hann var farinn sat Anna Lilja með tebollann hans, dreymin á svip, og mátti vart mæla fyrir hrifningu. Í sömu andrá hringdi síminn og það var sjálfur Allan sem kynnti sig. "Ég var að velta því fyrir mér," sagði hann, "hvort þú myndir samþykkja að ég byði dóttur þinni út." Ég fékk næstum hláturskast en sagðist ekkert hafa á móti því, hvort hann vildi ekki bara tala við Önnu sjálfa. Þau spjölluðu góða stund og svo var deitið ákveðið. Þetta ástarsamband stóð í nokkra mánuði og var hið ljúfasta. Þegar þau hættu saman var það í góðu og enn þykir þeim vænt hvoru um annað. Nú er auðvitað Chris stóra ástin hennar Önnu og allt eins og það á að vera. En skelfilega var þetta kjút.

Tölvukallinn í gær skilur ekki eftir sig neinar minningar, en vonandi virkar netfjandinn í framtíðinni.

Af því að sólin á Íslandi skín og skín og skín og rigningin í Englandi er að setja allt á kaf verð ég að láta vita af því að hér í Reading verður lítið vart við flóðin. Í gær rigndi þó eldi og brennisteini og þrumur af geðveikustu sort hljómuðu allan daginn og eldingar lýstu upp himininn. Spáin fyrir næstu fjóra daga var á sömu nótum en í dag hef ég setið í garðinum og reykt regnhlífarlaus. Það hafa meira að segja verið sólarglætur af og til svo ég veit ekki hvað mér á að finnast um enska verðurfræðinga.

Eitt enn áður en ég hætti. Ég minntist á finnska poppgoðið Danny K. hér í færslu fyrir nokkru og nú skilst mér að ég sé orðin fræg í Finnlandi. Eða þannig. Ég meina, það birtist mynd af mér með stjörnunni í héraðsfréttablaðinu í Halmeniemi og trúlega er það bara byrjunin. GetLost Ég ætla að prófa að setja linkinn hér inn á síðuna svo allir geti séð hvað við erum æðisleg.

Klikkið hér

 

 

 

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég segi nú bara eins og Anna Lilja forðum ''ó my god'' en ekki í sömu merkingunni. Alveg viss um að ég myndi ekki vilja láta mynda mig með þessum gaur og setja í fréttablað.l

Alda (IP-tala skráð) 21.7.2007 kl. 23:08

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Ert þú lögst út mín kæra Edda? En mikið öfunda ég þig af að geta verið áhyggjulaus í útlöndum, talað tungum, setið á kaffihúsum, arkað í búðir, horft aðdáunaraugum á litla nýja barnabarnið og faðmað þina elskulegu dóttur, Önnu Lilju.

Vildi að ég hefði ekki neinar skyldur við þetta lið hérna heima, dætur, barnabörn elskulegan eiginmann sem ekki gæti séð af mér svo mikið sem sólahring og svo náttúrulega hundaspottin mín sem maður fer ekki svo auðveldlega frá. Hef samt gælt við það lengi að komast til útlanda og dvelja um skeið; ein og frí og frjáls.

Úr þessu verður það vart fyrr en í næsta lífi. En Edda mín hafðu það gott og hættu að hugsa um kvíðann. Þegar hann mætir og borar sig inn í mann á morgnanna er eina rétta að segja honum að hunskst í einhvern annan maga, fara í sturtu og út að hitta fólk og aftur fólk. Það er mín besta lækning.

Forvitna blaðakonan, 22.7.2007 kl. 02:15

3 identicon

Hvað meinarðu, elsku Alda mín? Þetta er ægilega sætur maður, hann myndast bara soldið illa. Hann var ekkert smá flottur þegar hann var yngri og svo á hann böns af peningum. En auðvitað er þetta allt í gríni. Kærar kveðjur til þín og ykkar allra

Og Begga mín. Það vildi ég óska að þú gætir dvalið í útlöndum og haft það notalegt, ef einhver á það skilið ert það þú. Hins vegar er ég því miður aldrei áhyggjulaus og er á leið heim um mánaðamót því ég er löngu orðin blönk og verð að fara að gera eitthvað. Hef samt verið að vinna smá hér úti. Halla er í augnablikinu í Póllandi í fríi með fjölskyldunni, Palli með dótturina í Sviss og Jóhann og Anna á leið hingað í ágúst með krakkana.

Þetta er samt búið að vera frábært og endurnærandi og ég geri mitt besta til að halda kvíðanum í skefjum. Að senda hnútinn í aðra maga er ný en frábær hugmynd Bestu kveðjur, elsku krúttið mitt, og knúsaðu hundana, börnin og Magnús. Svo fer að líða að kaffihúsaspjalli þegar ég kem heim.

edda (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 10:23

4 identicon

Jæja á ég fræga vinkonu í útlöndum ? Gott og miklu betra að vera fræg þar heldur en hér heima. En hann þessi ofur frægi má muna sinn fífil fegri, en óskaplega hlítur hann að hafa orðið svekktur að líta þessa mynd því þú ert flottust eins og ævinlega. Ég kom aðeins í borg óttans eins og fólk á þeim stað sem ég ætla að vera út ágúst segir í gær að ná í humar sem ég er að selja á þann sama stað og fór á eitt stykki deit með manni íslenskum sem lítur betur út enn þessi sem er með þér á myndinni. Svo það er ekki allt best í útlöndum. Þetta sem við vorum að ræða um að þú kæmir og fengir orku í yndislegu umhverfi og koma með mér upp á jökul og anda að þér dýrðinni er ekki svo galið. Þú gætir líka nýtt þér það að taka viðtöl við ótrúlegasta fólk undir jökli. Óplægður akur þar elskan mín og svo myndir þú skilja kvíðan eftir í einhverjum útlenskum mallakút og láta hann fara með hann út úr landi. En án gríns, hugsaðu um þetta Edda mín.           Knús stórt yfir hafið með tilhlökkun að sjá þig aftur og faðma.                                K

steinunn ósk (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 07:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband