Hi mother - fancy another?

Þessa pikköpplínu heyrði ég í dag þegar dóttir mín var stolt á gangi  í miðbænum með Annicu litlu í vagninum. Ungur maður vatt sér að henni, brosti sínu blíðasta og lét þessi orð falla. Alltaf jafn skondnir, Bretarnir.

Við vorum að kaupa afmælisgjöf handa Chris, sem á einmitt afmæli í dag. Það gekk vonum framar og aldrei þessu vant var ég með fullt af hugmyndum. Sem er sannarlega óvenjulegt þegar kemur að gjafakaupum. Venjulega er ég alveg botnfrosin. Líka í ljósi þess að ég veit ekki nema ég sé eitthvað að ruglast í hausnum. Að minnsta kosti sátum við Anna Lilja í garðinum í gær og bönduðum frá okkur býflugum og vespum sem sækja mjög í lavender-runnann við reykingaborðið.

"Spurning hvort það væri ekki sniðugt að færa valender-runnann," sagði ég. "Flugurnar virðast elska valender."

"Þú meinar lavender," sagði Anna Lilja og brosti.

"Já, ég sagði það."

"Nei, þú sagðir valender, meira að segja tvisvar."

Ég veit að Anna Lilja er ekki að skrökva þessu upp á mig og það fær mig til að hugleiða hvaða bull ég er að segja við fólk svona almennt án þess að taka eftir því.Blush

Ég var andvaka í nótt (ekkert til að hafa orð á nema hvað andvökur eru sérkennilegar þegar maður er að drepast úr syfju). Ég var að vona að ég hefði kannski í miðri andvökunni fundið skýringu á þessu með valenderinn. Ég er nefnilega að lesa reyfara eftir Henning Mankell (númer tvö á stuttum tíma) og aðallöggan hans heitir Kurt Wallander. Er ekki lang trúlegast að það sé skýringin?

Ég hef sérstaklega gaman af að lesa Mankell því sögurnar hans gerast á Skáni, í Ystad og Malmö þar sem ég bjó sem unglingur. Þar þekki ég staðháttu vel og það er eitthvert spes kikk í í því.

Mér fannst líka gaman á blaðamannakúrsi í Árósum í fyrra þegar ritstýra Sydsvenska kom með fyrirlestur um árin '68 til '70 þegar innflytjendur flykktust til Svíþjóðar. Hún rifjaði upp margar hryllingssögur úr tveimur verstu hverfunum í Malmö, Rosengaarden og Krocksback, þar sem fólk var litið hornauga og kallað innflytjendadjöflar. Þegar hún spurði í lokin hvort við hefðum einhverjar athugasemdir sagði enginn neitt nema ég sem gat sagt henni að á þessum tíma hefði ég einmitt verið innflytjendadjöfull í Krocksback. Ég þekkti þessar sögur af eigin raun þó ég hafi sjálf ekki orðið fyrir aðkasti að ráði. Ég notaði "if-you-can't-beat-them-join-them"-aðferðina, í þeirri merkingu að ég lærði málið á mettíma og aðlagaði mig sænskum háttum. Ég á því eingöngu góðar minningar frá Svíþjóð, sem er örugglega meira en hægt er að segja um fjölda innflytjenda á þessum tíma.  (Í þessum texta eiga að sjálfsögðu að vera a með bollu og a með tvípunkti en ég nenni ekki að leita að því á tölvunni).

Nú er afmælisundirbúningur að hefjast og þýðir ekki að sitja og lesa... Verð þó að láta fylgja að ég er farin að hlakka til að koma heim.W00t

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég þarf að lesa þessar bækur.  Þekki vel til í Ystad en þar býr ein mín besta vinkona. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.7.2007 kl. 23:31

2 identicon

  • Góð hugmynd. Þær eru þrælspennandi og fást að sjálfsögðu bæði á ensku og sænsku. Og íslensku auðvitað, hvernig læt ég....

edda (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 11:22

3 identicon

Hvernig er það með þig Svaladrottning? Ertu bara flutt alveg af landinu? Hér gengur allt sinn vanagang, er í sumarfríi og búin að liggja í flensu of all things í heila viku. Skemmtilegt frí. Sendu mér meil og segðu mér hvað þú ert að gera fyrir utan það sem þú greinir frá opinberlega á blogginu!  knús frá hinni svaladrottningunni (það er ekki nauðsynlegt að hafa svalir þegar maður reykir ekki lengur, en helv... var nú oft gaman þegar þú mættir á sloppnum, say no more)

Anna Kr (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 14:51

4 identicon

HAHH - fann þig loksins aftur gamla vinkona! - Tölum saman þegar þú kemur heim. Ég er á mínum stað.

Helga Haraldsdóttir (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 23:14

5 identicon

Sendu mér e-mailið þitt á gemsann, elsku Anna mín, svo ég geti sagt þér öll leyndarmálin. Annars e ég á heimleið von bráðar.

Og Helga mín. Frábært að heyra frá þér. Hugsa oft til þín og verð í sambandi þegar ég kem heim.

edda (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband