Fögur fréttadeild og glöð börn í Namibíu

24. sept.

Hafi ég fengið elskhuga í heimsókn á föstudagseftirmiðdaginn var það æðislegt.  Ég er samt ekki að halda því fram að hann hafi komið. Það er bara möguleiki. Ég var að minnsta kosti í rífandi góðu skapi alla helgina. Og talandi um elskhuga. Vinkona mín, sem ferðaðist mikið með sínum manni til útlanda, sagði mér einu sinni að hún pantaði alltaf eftirmiðdagsflug. Það var til þess að þau hjón gætu "gert það" áður en lagt var af stað. Hann varð allur svo miklu meðfærilegri í fríhöfninni,  sagði hún. Og á ferðalaginu yfirleitt.

Ég fór í frábært teiti á laugardagskvöldið, hitti gamlar samstarfskonur af Fréttablaðinu og Birtu. Það vantar ekkert upp á að starfsfólkið sé yndislegt í Skaftahlíðinni, hvaða skoðun sem maður hefur svo á 365. Það er bara allt önnur Ella. Ég set inn mynd af þessum glæsilegu konum, Steinunni, Siggu, Brynhildi, Kristínu Evu, Gunnþóru, Tótu, og Arndísi. Fegurri gerist ein deild bara ekki.

Þær eru farnar að sjá um barnatíma á RÚV Brynhildur og Kristín Eva og gera það örugglega með bravör. Þetta eru svo miklar barnakellingar. Ég var samt að hugsa um það í morgun þegar ég hlustaði á Stefán Jón lýsa skólabörnunum í Namibíu, að það væri eitthvað mikið að á þessu landi. Stefán Jón minntist á að 20% íslenskra barna væru greind með einhverskonar athyglisröskun og spurði bara si svona af hverju það sama væri ekki upp á teningnum í Namibíu. Þrátt fyrir fátæktina ríkir þar gleðin ein, börnin bera virðingu fyrir kennurunum, fara í röð prúð og frjálsleg í fasi, og gegna með brosi á vör. Ég nenni ekki að kryfja það hér og nú en það hefur eitthvað mikið misfarist á undanförnum árum í þessu guðsvolaða landi.  Best gæti ég trúað, og gerist nú afar djúp, að það hafi með gegndarlausa græðgina að gera.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband