7. september.
Mér eru konur á miðjum aldri svo hugleiknar þessa dagana. Kannski vegna þess að ég hef átt samtal við svo margar konur undanfarið sem eru þreyttar, leiðar, jafnvel svolítið vonlausar og smeykar við framtíðina. Það eru til margir hópar af miðaldra konum, sumar eru bara að gera það gott, fullar af starfsorku og gleði, sumar eru í þægilegri sátt, en hópurinn sem ég er að tala um eru konur sem hafa einhverra hluta vegna strögglað á krókaleiðum sínum að fimmtugasta afmælisdeginum, átt börn ungar, verið einar meira og minna eða farið illa út úr skilnuðum, barist í bökkum fjárhagslega, borið ábyrgð á öllu og öllum (sjálfskipað hlutverk) og eru svo bara búnar á heila klabbinu.
Það hefur verið lafað í því allan tímann að um fimmtugt fari lífið að blasa við, en svo gengur það bara ekki eftir. Þetta á ekki að vera beiskt svartagallsraus, og ég vona virkilega að það skiljist ekki þannig, en ég hef soldið verið svona kona. Núna er ég þreytt og svo einkennilega áhugalaus. Það sem er að gerast í þessu landi hreyfir eiginlega ekkert við mér, ég hef ekki almennilega vitað í langan tíma hvað mér finnst um Káraknúka, virkjanaframkvæmdir, álver upp um allar hlíðar, jarðgangagerð, dreifbýlið, kvótann, og Vatnsmýrina, ég sem lét mig aldrei vanta í Keflavíkurgöngu. Og mér gæti ekki staðið meira á sama um hvaða milljarður skiptir um eiganda hverju sinni. Ég nenni ekki að vita hver tilheyrir hvaða group.is og hef engan áhuga á því sem hin þjóðin í landinu, þessi með Elton John-syndrómið, er að bardúsa.
Þetta er náttúrlega ótækt fyrir blaðamann. Ég hef hinsvegar áhuga á alvöru fólki.
Ég fór á sinfóníutónleileika í gærkvöldi sem er ekki beint í frásögur færandi. Nema af því að það hrærði upp í gamalli minningu sem ég ætla að segja frá hér og gerist nú óþolandi montin.
Þegar ég var um það bil tíu ára voru öll skólabörn skikkuð á tvenna sinfóníutónleika, aðra fyrir áramót og hina eftir.
Á fyrri tónleikunum var efnt til samkeppni, sem fólst í að skrifa ritgerð um persónulega upplifun á tónleikunum og teikna mynd. Þetta gerði ég snarlega þegar ég kom heim og gleymdi svo "med det samme". Þegar leið að seinni tónleikunum kom yfirkennarinn inn í stofuna, svona rétt til að minna á tónleikana og fullvissa sig um að allir ætluðu að mæta. Það ætluðu allir að gera það nema ég sem var á leið til tannlæknis. Það varð uppi fótur og fit, tannlæknatímanum var frestað og ég send á tónleikana í grænblárri crebdrakt!!!!! Það var sko enginn annar uppáklæddur á þessum tónleikum. Á leiðinni í Háskólabíó sagði bekkjarsystir mín upp úr eins manns hljóði að ég hefði örugglega unnið þessa keppni. Ég hafði ekki svo mikið sem hugleitt það. En þar sem ég stóð í bíóinu og horfði yfir fullan salinn hugsaði ég með mér: "Hver af þessum krakkagrislingum hefði svo sem átt að hafa roð í mig?" Og settist svo niður í fokking dragtinni og beið eftir að nafnið mitt yrði kallað upp og ég fengi að stjórna sinfóníuhljómsveitinni, sem voru verðlaunin.
Ég hef stundum undrast á síðastliðnum árum hvað varð um þetta sjálfstraust. Hvað varð um þessa heilbrigðu og góðu sjálfsímynd? Ég á ekki svar við því, en sennilega eru leifarnar á skrifstofum hinna og þessara bankastjóra og lögfræðinga, eitthvað hjá glötuðum karldulum sem fannst maður ekki nógu góður, sumt í vanmættinum þegar maður var ekki að standa sig gagnvart börnunum sínum, vinum og vinnuveitendum. Þetta er dreift út um allar trissur.
En stelpur. Maður getur öðlast þetta sjálfstraust á ný og ég hef persónulega fundið það skila sér hægt og sígandi. Ég var til dæmis að lita á mér hárið áðan, eins og ég geri alltaf, og oftar en ekki mislukkast það og verður gult eða orange þangað til ég er búin að setja í það þrjá, fjóra liti.
Í kvöld, þegar ég þvoði úr lit númer tvö, fann ég að hárið var allt að losna, eitthvað sem ég er búin að reikna með að hljóti að gerast fyrr en síðar. Ég hef barasta engar áhyggjur af þessu. Veit samt einhver um flotta hattabúð?
Í lokin: Tónleikarnir í gær voru geðveikir. Mozart og Atli Heimir fóru bókstaflega á kostum og ég hefði ekki viljað misa af Vorblóti Stravinskíjs fyrir nokkurn mun þó ég skilji mætavel tónleikagesti við frumflutninginn sem æptu og slógust og hentu öllu lauslegu í hljómsveitina, meðan tónskáldið flúði skelfingu lostið út um glugga á tónlistarhúsinu. Sérlega geðvonskulegt verk, en áhrifamikið.
Tenglar
gamalt og gott
Fólkið mitt
- Eldra blogg annarstaðar Bloggfærslurnar mínar meðan ég vann á eyjunni
- Halla mín
fólk
Bloggvinir
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sem betur fer skildi ég ung ... barðist reyndar í mörg ár í fátækt en mér finnst allt á svo mikilli uppleið núna og síðustu árin. Eitt af góðu skrefunum sem ég tók var að flytja á elsku Skagann. Kannski er þetta ekki endilega áhugaleysi á lífinu sem hrjáir okkur næstum 50, heldur lífsreynsla og hugsunin: Been there - done that! Mér finnst fólk æsa sig yfir ótrúlegustu hlutum sem hreyfa ekki við mér. Fæ reyndar oft að heyra að ég sé orðin "gömul" af því að ég nenni ekki lengur að eltast við einskisverða hluti eins og djamm og djúserí (been there ...), mér finnst lífshamingjan felast í allt öðrum hlutum. Það hefur ekki lengur áhrif á mig hvað fólki finnst um mig og gjörðir mínar og í því er mikið frelsi fólgið. Takk fyrir frábæra færslu, mín fór sko beint að hugsa. Það hefði verið gaman að vera á þessum tónleikum! Ætla reyndar í Bíóhöllina á miðvikudaginn að hlusta á Dúndurfréttir. Er grúppía þeirrar hljómsveitar, kannski er einhver eldur enn eftir í æðum.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 7.9.2007 kl. 22:59
Takk sömuleiðis fyrir frábæra athugasemd. Ég er sammála þér, frelsið sem felst í að láta sig engu skipta hvað öðrum finnst er ómetanlegt. Vona að þú njótir helgarinnar á Skaganum þínum góða.
edda (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 11:35
Ég elska þig mútta mín, sköllótta eður ei! Og nú fer nú að birta yfir þessu hausti því það er nú von á mér heim á klakann, hehe. Segi bara svona, hlakka svo rosalega mikið til að sjá þig! Ástarkveðjur frá okkur öllum í Reading.
Anna Lilja (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 10:28
Það sem við bekkjarsystkinin vorum stolt af þér í Háskólabíó þegar þú stjórnaðir Sinfóníuhjómsveitinni. Það kom mynd af þér í Mogganum. Finnum hana!
Helga (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 15:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.