...við sólareld og gullin skógargöng

21. ágúst.

Ég naut menningarnætur á á eigin forsendum. Nú er ég komin á þann aldur að gera allt á eigin forsendum. Í fyrsta skipti í sögu þessa dags hafði ég skipulagt mig vel og það er langbest að vera einn á randi, þá lendir maður ekki í einhverju dilemma við fólk um hvert á að fara næst o.s.frv.

Ég var með barnabörnin mín Lilju Maren og Jón Breka í næturgistingu á föstudagskvöld og við skemmtum okkur konunglega. Á menningardaginn, þegar foreldrarnir risu úr rekkju og sóttu ungana sína, fór ég af stað. Það sem stendur upp úr eftir daginn er löng eftirmiðdagsstund við Söngskólann í Reykjavík þar sem hinir ýmsu kórar komu fram og gestir sungu saman fjöldasöng á milli. Havnakórið (minnir mig að "það" heiti) frá Færeyjum rak lestina og stjórnandinn fékk alla í færeyskan hringdans. Það þótti mér æðislegt. Svo lá beinast við að rölta upp í Hallgrímskirkju og syngja sálma um stund. Ég hafði hugsað mér að hlusta á Ragga Bjarna og Helenu Eyjólfs en þegar sólin settist var mér orðið skítkalt og fór heim. Ég fer ekki lengur á kaffihús þar sem ég get ekki iðkað mína uppáhaldsiðju, reykingar. Heima hellti ég upp á kaffi, kveikti á kertum og lagðist endilöng í sófann með allt eitrið. Mmmmm....

Í gær skráði ég svo mig og Höllu dóttur mína í konuflokk í Vindáshlíð. Okkur hefur alltaf langað að gera þetta og eina sem skyggir á tilhlökkunina er að Anna Lilja kemst ekki með.

Ég var ægilega mikil Hlíðarstúlka á sínum tíma. Ástæðan var kannski sú að mig langaði í alvöru sveit en þar sem ég var gróflega ofverndaður krakki harðneitaði mamma að senda mig í sveit til fólks sem hún vissi engin deili á. Þetta sagði hún um leið og hún setti upp Akureyrarsvipinn.  Það leggur enginn í mömmu þegar hún setur upp svipinn þann. Hún hafði sjálf vonda reynslu af sveitavist í æsku og Þóra vinkona mín, sem nú er orðin forstöðumaður Blindrabókasafnsins, heldur því fram að þetta hafi verið mín gæfa. Hún á líka hroðalegar minningar frá sinni sveitavist. En ég fékk sem sagt að fara í Vindáshlíð í staðinn.

Og þar ríkti að sjálfsögðu gleðin ein. Ég fékk að fara í marga flokka á sumri og geri bara ráð fyrir að ég hafi verið eftirlæti starfsfólksins.Blush Helstu bömmerarnir voru þessi skipti sem ég sleit rafmagnsgirðinguna þegar ég ætlaði að skutla mér eftir boltanum, sem átti til að  rata inn í reitinn sem var forboðinn kindum í Kjósinni.  Einu sinni klifraði ég yfir skilrúmið milli klósettanna og datt illa á klósettsetuna sem mölbrotnaði. Og þegar ég fékk þá virðingarstöðu að bera allt matarkexið í gönguferð upp á Sandfell þreyttist ég á leiðinni og settist á kexpokann. Það var svo dreift kexmylsnu síðar í ferðinni og ég mér leið soldið pínlega á meðan. Að öðru leyti gekk allt vonum framar. Og af því ég er svo afspyrnu gamaldags sál fannst mér æðislegt að syngja Vindáshlíðarsöngvana, sem ég er þegar byrjuð að rifja upp. Nú ætla ég að kaupa mér litabók og liti og svo verður bara æðislegt að verða aftur lítil stelpa í Vindáshlíð og syngja í keðju:

Ég sat um kveld og söng í ró og næði,

við sólareld og gullin skógargöng

 og fuglar blíðast kvökuðu sín kvæði....

Og svo framvegis.

Það sem skyggir á gleðina núna er sorgarfregn sem ég fékk í gækvöldi. Það var fregn um ótímabært lát ungrar og fallegrar stúlku í fjölskyldu sem er mér afar kær. Ég finn til vanmáttar og óendanlegrar sorgar. Í einhverju ljóði, sem ég kann ekki almennilega, kemur þessi setning fyrir:

"Ég vildi geta vafið öllum vorylnum að hjarta þínu". Þannig líður mér.  Ég vildi geta vafið alla hennar aðstandendur yl og von. Hugurinn er hjá þeim.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...það kveldið hlíðin ómaði af söng,

af sumarsöng, trarallala, af sumarnætursöng... 

Ji minn eini hvað þetta verður gaman,  það hefur nú örlítið verið gert grín að mér fyrir að vera að fara í fullorðinssumarbúðir, bæð í vinahópnum og heima hjá mér. Hef heyrt fólk nota orðið nörd í því samhengi en ég læt það ekkert á mig fá, er stolt Vindáshlíðarstelpa!

Halla (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 14:10

2 Smámynd: Inga Dagný Eydal

Hmm.....fullorðinssumarbúðir....frábær hugmynd!!! Ég vildi óska að sumarbúðirnar við Vestmannsvatn byðu upp á slíkt- en þaðan á ég mínar dásamlegustu bernskuminningar. Átta sumur í röð við systurnar báðar saman Skondið þegar þú segir að mamma þín hafi sett upp Akureyrarsvipinn, við systkinin vorum heldur ekki send í sveit....guði sé lof fyrir það miðað við hvað við fengum að upplifa í staðinn. Bestu kveðjur til þín

Inga Dagný Eydal, 26.8.2007 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband