Amma tekin í bakaríið - og smá nagg um lélega þjónustu

12.  ágúst

Þetta heitir nú að lofa upp í ermina á sér, að ekki sé meira sagt. Hér hefur enn ekkert leiftrandi og skemmtilegt verið á ferðinni, en ég átti þó yndislegan dag í gær.

Halla litla, yngsta barnið mitt, varð 25 ára í gær og nær þar með eldri systur sinni, Önnu Lilju, í rúma viku.  Anna Lilja verður ekki 26 fyrr en næsta sunnudag. Þar sem systkinin öll nema Halla voru stödd í Englandi og Elías eiginmaður hennar í Danmörku á vegum vinnunnar, stóð það upp á mig og litlu krílin hennar ásamt mömmu minni að gera henni daginn eftirminnilegan.

Við Halla og krakkarnir tókum þátt í Gay Pride í góða veðrinu og fórum svo í lambasteik til mömmu. Að því búnu fór Halla í teiti til vinkvenna sinna en ég og krakkarnir, Lilja Maren, 6 ára, og Jón Breki, 5 ára, fórum heim til þeirra til að eyða kvöldinu saman. Lilja og Jón eru að sjálfsögðu algjörar stjörnur sem vefja mér um fingur sér, enda eina reglan þegar amma passar að það séu engar reglur. Á endanum vorum við öll í hjónarúminu, Jón Breki með tölvuna, og sýndi ótrúlega leikni í leikjunum sínum (sem ég verð að taka fram að eru eingöngu saklausir leikir hannaðir fyrir börn, annars konar leikir eru stranglega bannaðir), og við Lilja Maren að spila. Hún vildi kenna mér allskonar útgáfur af þekktum spilum sem ég veit ekki hvort hún hefur fundið upp sjálf eða eru til í raun og veru. Reglurnar voru að minnsta kosti grunsamlega sveigjanlegar þegar hún var í tapstöðu enda vann hún alltaf.

"Ef við spilum eitt enn er möguleiki að þú vinnir," sagði hún þegar ég vildi hætta.

"Það er ekki líklegt," sagði Jón án þess að líta upp úr tölvuleiknum. "Hún er orðin það gömul."Woundering

Og það gekk eftir. Ég vann ekki eitt einasta spil. Halla kom snemma heim, nennti ekki í bæinn á djammið og kennir aldrinum um!!!

Ég set inn nokkrar myndir af ljósunum mínum í Jörfabakkanum, þar á meðal úr hjónasænginni þar sem tapið mitt stóra fór fram.

Ég er ekki mikið fyrir að nagga, það eru nógir aðrir um það, en get eiginlega ekki orða bundist vegna þjónustu á íslenskum veitingastöðum. Ég átti tal við Svía fyrir nokkru sem hélt því blákalt fram að hvergi á veitingastað á Íslandi væri boðlega þjónustu að hafa. Íslendingar kynnu einfaldlega ekki að þjónusta fólk. Ég maldaði í móinn og benti á dýra, flotta staði sem mér fannst að hlytu að  gera þetta með stæl. En nei, hann stóð fastur á sínu.

Undanfarið hef ég svo upplifað þetta af eigin raun. Biðin eftir þjónustu getur teygst upp í hið óendanlega og svo, löngu eftir að pöntun hefur loks verið tekin niður, líður heil eilífð þangað til kaffibollinn manns, eða hvað það nú var sem maður ætlaði að fá, er borið á borð. Þar sem ungmenni eru við afgreiðslu er oft eins og allir gangi um í leiðslu án þess að nokkuð markvisst sé að gerast og þó æðruleysi sé eitthvað sem ég æfi reglulega, er ég að missa mig af pirringi yfir þessu.

Getur verið að veitingahúsaeigendur séu að spara með því að hafa ungt fólk á lágum launum í vinnu, sem þar af leiðandi hefur engan metnað og ypptir bara öxlum þegar maður kvartar? Þarna held ég þeir séu að skjóta sig í fótinn því ég fer að minnsta kosti ekki tvisvar á veitingahús sem býður upp á lélega þjónustu. Þaðan af síður hika ég við að segja vinum og vandamönnum frá þessum stöðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hehe, þau eru bara snillingar, þessi blessuðu börn mín. Lilja Maren sagði nú við hina ömmu sína um daginn þegar hún bannaði henni eitthvað: það er allt í lagi amma, ég tala bara við Eddu ömmu, hún er svo góð við mig að hún leyfir mér allt :)

Halla (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 16:43

2 identicon

Að sjálfsögðu leyfir Edda amma allt. Innan ákveðinna marka þó. En það eru forréttindi ömmu að geta spillt barnabörnunum með eftirlæti:) Enda eiga þau það skilið. 

edda (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband