Komin heim - og rauð í framan af jákvæðniáreynslu

4. ágúst.

Ísland. Landið mitt Ísland, sem ég elska svo heitt en vekur þó alltaf hjá mér óskilgreinda og skrýtna depurð.

Það var samt gott að koma heim. Landið var fagurt og frítt úr flugvélinni séð og mér var vel fagnað af þeim í lífi mínu sem skipta máli. Mömmu heimsótti ég strax og Jóhann son minn, sem er eina barnið mitt heima í augnablikinu. Ömmustrákarnir mínir þar, Hinrik og Haraldur, knúsuðu ömmu sína hraustlega þó krakkarnir á leikvellinum hafi að sjálfsögðu heillað meira. Þeir potuðu í bumbuna á mömmu sinni og sögðu mér að þar biði litla systir rétta tímans til að fæðast. Þeir hafa þó ekkert fyrir sér í því. Það gæti allt eins orðið lítill bróðir. Barnið á að fæðast í nóvember, en Anna og Jóhann  kunna bara að búa til nóvemberbörn. Jóhann er sjálfur fæddur 21. nóv., Hinrik 20,. og Haraldur 22. Nýja barnið er væntanlegt á svipum tíma.Wink Jóhann og Anna eru á leið til Englands með strákana að heilsa upp á Annicu litlu frænku sína eftir viku.

Ég kvaddi litlu fjölskylduna í Englandi með tárum og sakna hennar nú þegar. Seint í gærkvöldi kom svo Halla yngsta dóttir mín heim til Íslands frá Póllandi með ljósin mín tvö, Lilju Maren og Jón Breka. Ég get varla beðið eftir að hitta þau í dag. Sonur minn Páll er í Sviss með dóttur sína Daníelu og hann er líka á leið til Englands að heilsa upp á Annicu og ekki væntanlegur heim fyrr en 14. ágúst. Þannig að fjölskyldan er svona soldið út og suður og sameinast ekki öll fyrr en um jól þegar Anna Lilja kemur heim. Þá á að skíra Annicu Ísmey Lewis og líklegt að amma og afi í Bretlandi ásamt hinum ýmsu töntum fylgi með. Bretana langar að sjá alvöru gamlárskvöld og vilja þar að auki ekki fyrir nokkurn mun missa af skírninni.

Vinir mínir hafa líka tekið mér fagnandi sem var yndislegt og þrátt fyrir rigningarspá fékk ég tvo dýrðlega sólardaga þegar ég kom heim. Ég er í fúlustu alvöru að reyna að vera jákvæð og sjá landa mína í fallegu ljósi, en það er alltaf áreynsla. Ísland er fullt af yndislegu fólki, en það er eitthvað við hugsunarhátt stórs hluta þjóðarinnar sem fer í taugarnar á mér. Eitthvað sem á skylt við forpokun og heimóttarhátt, minnimáttarkennd í bland við stórmennskubrjálæði og sjúklegan ótta við að vera ekki eins og allir hinir. Enda höfum við alltaf talað illa um þá sem að einhverju leyti skara fram úr eða skera sig úr.

Fyrir framan mig í flugvélinni var enskumælandi Spánverji að spjalla við Englendinga sem voru að koma hingað í fyrsta sinn. Ég hlustaði með athygli því Spánverjinn hafði greinilega komið til Íslands áður og naut þess að fræða Englendingana. Það er alltaf gaman að reyna að sjá Ísland með augum útlendingsins og það fór ekki milli mála að Spánverjinn var heillaður af landinu. Hann lýsti náttúruperlum landsins af þvílíkri innlifun að Englendingarnir störðu á hann opinmynntir af undrun og ánægju og ef það hefði verið hægt að skrúfa niður rúðurnar í flugvélinni hefðu þau öll hangið hálf út um gluggann.W00t

Í rútunni frá Keflavík hélt fyrirlesturinn áfram og enn hélt ég áfram að horfa á landið með augum gestsins. Og vissulega er það fallegt og frábrugðið. Ég reyndi að láta sem ég hefði aldrei séð hraun áður, hvað þá Hafnarfjörð, Garðabæ eða Kópavog, og Perlan varð bara stórkostleg undir ræðu Spanjólans. Nú vona ég af öllu hjarta að þetta fólk njóti verunnar hér og beri okkur vel söguna þegar það kemur heim aftur. Að virðingarleysi við náttúruna og smáborgaraháttur verði ekki það sem stendur hæst í minningunni. Eða verðlagið!!!Sick

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Dagný Eydal

Velkomin heim 

Inga Dagný Eydal, 4.8.2007 kl. 10:48

2 identicon

Æ, takk Inga mín.

edda (IP-tala skráð) 4.8.2007 kl. 11:04

3 identicon

Velkomin heim elskan mín! Reynum að heyrast í kvöld, veit ekki betur en ég verði heima þá. Æi, ég skil vel að þú sért með útþrá. Ég fékk hana í morgun þegar ég leit út um gluggann á þennan þungbúna morgun. Er ekki hægt að byggja svalir í Reading, tjalda yfir og þar geta setið tvær fyrrum svaladrottningar og skrifað sannar sögur? Heyrumst í kvöld, knús frá Önnu X-svala.

Svaladrottningin númer tvö (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband