10. júlí.
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir rúmum mánuði gerði ég mér enga grein fyrir að blogg væri að verða þjóðaríþrótt á Íslandi. Nú sé ég að allir sem vettlingi geta valdið blogga og svei mér ef það er ekki örlítil keppni í gangi. Hver er frumlegastur, skemmtilegastur, mest inni í umræðunni, etc. Allir vilja vera stórir, flottir, þekktir og vinsælir á landinu okkar litla og kannski er það bara mannlegt. Ég held að sjálfsögðu bara mínu striki og blogga um það sem gerist í mínu litla lífi, sjálfri mér og vonandi vinum og vandamönnum til skemmtunar.
Ég hef áður minnst á fröken Esmeröldu, sem er köngulóin voðalega sem býr hér á verkfæraskúrnum í garðinum. Í gær varð ég vitni að hroðalegu morði þar sem ég sat í sakleysi mínu og reykti út í bláinn. Stærðar býfluga kom á fleygiferð fram hjá mér og búmm, beint í vefinn. Skrýmslið hún Esmeralda var ekki lengi að taka við sér og kom á fleygiferð, réðst á býfluguna og nú upphófst bardagi upp á líf og dauða. Esmeralda hóf strax að vefja býfluguna inn í vefinn, og flugugreyið átti aldrei séns. Á endanum var býflugan eins og vakúmpakkaður böggull í fanginu á svartri köngulónni og í morgun þegar ég leit yfir sviðið sá ég að köngulóin sat efst í vefnum sínum, enn með böggulinn í fanginu og viðurstyggilegt glott á svörtu fésinu. Nægur matur til næstu daga því að sjálfsögðu er Esmeralda búin að dreifa litlum afkvæmum um allan skúr.
En að öðru. Ég get eiginlega ekki skilið við Finnland án þess að minnast aðeins á síðustu dagana mína þar.
Ég hafði ekki endilega ætlað til Helsinki en Toini vinkona mín lappadjöfull (ég tek það skýrt fram að þannig kynnir hún sig sjálf) mátti ekki heyra á það minnst að ég kæmi ekki við hjá henni í lokin. Þegar til kom var íbúðin hennar full af kanínum sem hún var að passa fyrir vini sína og að sjálfsögðu hafði hún líka tekið að sér að vökva blóm fyrir annað vinafólk í fríi. Toini vill allt fyrir alla gera. Hún fékk inni fyrir okkur þar sem hún vökvaði blómin. Við tókum því afar rólega daginn sem ég kom því ég var á leið til Tallin snemma morguninn eftir. Þar var ég búin að fá gistingu í klaustri en þegar til kom hafði ég verið bókuð á vitlausum degi og missti því af þeirri upplifun. Tallin var full af túristum, sérstaklega gamli bærinn sem er undurfallegur, en ég naut þess að rölta um, spjalla við fólk og birgði mig að sjálfsögðu upp af tóbaki eins og vera ber. Við höfðum svo einn dag til ráðstöfunar í Helsinki. Kvöldið sem ég kom frá Tallin tók Toini á móti mér á bryggjunni. Hún hafði keypt hreindýrakjöt og lappaost og heimtaði að fá að elda handa mér alvöru lappamat. Það þarf ekki að orðlengja það að maturinn var guðdómlegur.
Toini þykir sopinn góður og uppáhaldsvínið hennar er Absolut Vanilla. Ég keypti einn lítra af því í Tallin og meðan hún eldaði matinn drakk hún fjóra bjóra og lagðist svo í Absolut-flöskuna. Óvirki alkinn ég tók þessu með stóískri ró. Hún var kát og skemmtileg og sagði mér sögur af uppvextinum sem var erfiður lítilli stelpu sem ólst upp á fósturheimilum og hafði aldrei fast land undir fótum. Að hún skyldi taka stúdentspróf og fá góða vinnu er næstum kraftaverki líkast. Þegar ég vaknaði daginn eftir hraut Toini hraustlega og ég sá að flaskan var tæplega hálf. Við höfðum ætlað að gera margt þennan dag en ég bjóst ekki við miklu úr því sem komið var. Þar tók ég hinsvegar feil. Toini fékk sér góðan afréttara þegar hún vaknaði og við héldum glaðar af stað á Gay Pride. Þaðan lá leiðin í hina frægu neðanjarðarkirkju í Helsinki og svo fórum við á safn og skoðuðum áhugaverða sýningu listamanna frá fyrrum Sovétlýðveldunum. Að öllu þessu loknu fórum við á veitingastað á 14. hæð með dýrlegu útsýni yfir bæinn og þaðan fór ég svo í lestina til Tampere, en ég átti flug þaðan klukkan ellefu. Það var mikið um að vera í Helsinki þennan dag og margir fúlir og drukknir miðaldra Finnar á ferðinni. Þeir bölvuðu og rögnuðu og helltu yfir fólk svívirðingum en Toini sendi þeim tóninn til baka þannig að ég var föl af skelfingu. Toini lætur sko ekki vaða yfir sig. Þetta var frábær dagur og ég hlakka til að fá Toini í heimsókn til Íslands, en þangað hefur hún komið tvisvar áður. Hún einfaldlega elskar Íslendinga.
Og þá er ég komin að fluginu með Ryan Air frá Tampere, en Anna Kristjáns bloggaði einmitt um flugtíma fyrir nokkru. Ég er einlægur aðdáandi Ryan Air því ég hef ítrekað flogið með þeim fyrir kúk og kanil um víða veröld. Þeir eru samt ótrúlega streit á farangursþyngdinni og þarna á flugvellinum voru bókstaflega allir með yfirvigt. Fólk var spurt hvort það vildi borga aukakílóin eða taka þau úr ferðatöskunni og yfir í handfarangurinn. Að sjálfsögðu vilja menn ekki borga svo fólk sat um allan völl með opnar ferðatöskur og var að pakka upp á nýtt. Þetta meikar auðvitað engan sens. Ég var komin til London Stanstead rúmlega tólf um nótt að enskum tíma og átti eftir að koma mér til London. Klukkan var að verða fimm að morgni þegar ég kom á hostelið mitt og dagurinn eftir nýttist auðvitað ekki í neitt. En allt var þetta hverrar mínútu virði.
Flokkur: Dægurmál | 10.7.2007 | 16:55 (breytt kl. 18:29) | Facebook
Tenglar
gamalt og gott
Fólkið mitt
- Eldra blogg annarstaðar Bloggfærslurnar mínar meðan ég vann á eyjunni
- Halla mín
fólk
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl mín kæra og alltaf gott þegar nýtt kemur frá þér. En nú vantar símanúmerið þitt í nýja símann minn, allir sem mér eru kærir eru farnir með þeim gamla og þeim sem ég ætlaði að eyða eru í þeim nýja. En allt gott að frétta af mér og ég er komin á Arnarstapa að vinna í sumar og ef þú kemur heim áður en dýrðin ákveður að fara og skrúfað verður aftur frá krananum frá því fyrra þá áttu heimboð á Stapann og ferð upp á Jökul á snjósleða eða troðara. Bjóða þér svo út að Búðum í súkkulaðiköku sem kostar litlar 1800 kr. en skítt með það, við látum sem ekkert sé. Kaffið er seinni tíma mál og við Edda mín erum snillingar og gerum þetta með stæl og ég borga fyrir okkur báðar, þú mannst þú borgaðir síðast..........elska þig og sakna.........þar til númerið þitt kemur......hafðu það sem best...........stoska
steinunn ósk (IP-tala skráð) 12.7.2007 kl. 08:29
Elsku hjartað mitt. Síminn er 8247504. Að sjálfsögðu kem ég á Stapann, það verður í ágúst, mín kæra. Hlakka óstjórnlega til. Sakna þín og hugsa til þín á hverjum degi. En nú styttist í að við málum Stapann rauðan
edda (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 13:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.