Pamela Anderson, ég og Danny K

2. júlí.

Hef ekki verið nettengd fyrr en núna þegar ég er aftur komin til Englands. Eins og þessi færsla vitnar um var ég hvorki étin af snákum né mýflugum, en fy fan hvað ég er lúbarin og endurnærð. Dvölin í sumarbústaðnum var hreint undursamleg og fjórar tegundir af sánu í boði. Foreldrar Paiwi og bræður búa öll í Halmeniemi og eiga gommu af sumarhúsum sem þau leigja út. Mamma hennar tók sérstöku ástfóstri við mig og á hverjum degi beið mín nýr vöndur, gerður úr birkigreinum, og svo var ég send í gufubað með vöndinn og pískuð uppúr og niðrúr. Inn á milli fékk ég svo glös af "mahla" sem er vökvi tekinn úr birkitrjám á vorin áður en þau laufgast. Vökvinn er fullur af steinefnum og vítamínum og ég get upplýst lesendur um að hægt er að taka "mahla" úr sama trénu 20-30 sinnum á dag, án þess að það skaði tréð hið minnsta.  Þetta drekkur maður svo í sánunni rétt á meðan enginn er að berja mann og á endanum líður manni mér eins og maður sé  um það bil að breytast í birkitré. 

Það var svo engin miskunn með að fara í vatnið á milli. Einhverntíma stóð ég bryggjupollanum og var að glápa oní vatnið þegar ég sá svartan orm hlykkjast milli smáfiskanna. Ég ákvað þar og þá að nú væri mínum vatnaferðum lokið, en heimamenn sannfærðu mig um að svona ormar væru afar sjaldgæfir og ég væri lukkunnar pamfíll að hafa séð einn yfir höfuð. Þeir væru meira að segja friðaðir. Til að vera ekki leiðindatepra ákvað ég að halda áfram að baða mig í vatninu hvað sem liði ormum og smáfiskum og helvíti var það alltaf hressandi. Mig hundlangar að birta myndir hér á vefnum af sjálfri mér og öðrum í sánu eða æpandi í vatninu, en þetta er auðvitað enginn dónavefur og á þessum myndum eru allir berir. Nema hvað. 

Ég get ómögulega gert öllum skemmtilegheitunum skil í einni færslu, en verð þó að nefna miðsumarkvöldið sjálft. Eftir að hafa yljað okkur við bálið (það var sko skítkallt, eins og á íslenskri útihátíð) fórum við í betri fötin (hvíta kjólinn) og á ballið. Þar var troðið út úr dyrum, rífandi dansstemmning á einum stað, karaokí á öðrum og alls staðar fullt af fólki í miðsumarskapi, étandi pylsur, lörtsu (finnskt delicatessé í kleinuhringjastíl) og drekkandi görótta drykki. Hápunktur kvöldsins var svo finnskur skallapoppari, kallaður Danny K, sem var beðið með eftirvæntingu. Þegar hans tími nálgaðist fór í gang mikið ljósasjóv og trumbusláttur, fólk hætti að dansa og flykktist að sviðinu.  Danny var giftur finnskri fegurðardís en er nú skilinn og þykir ægilegt kvennagull þrátt fyrir að vera ansi markeraður.  Það ætlaði allt um koll að keyra þegar hann steig á sviðið og söng gamla Tom Jones-slagara í bland við finnskt rokk, sumt meira að segja frumsamið. Hann sagði viðstöddum að hann ætti von á Pamelu Anderson í heimsókn síðar um kvöldið, enda stúlkan sú af finnskum ættum og var að visitera familíuna í Finnlandi. Pamela hætti hinsvegar við heimsóknina til Danny af einhverjum ástæðum, sem varð til þess að honum lá ekkert á og tók fagnandi á móti íslenskri blaðakonu í hvítum kjól baksviðs eftir sjóvið. Það fór vel á með okkur Danny, við áttum það til dæmis sameiginlegt að hafa bæði farið í aðgerð á hné fyrir skömmu, og gátum borið saman bækur okkar. Hann var bara sjarmerandi svona í návígi og nú er ég með símann hjá honum og heimboð næst þegar ég á leið um Finnland.

Nú eru komnir gestir í kvöldmat hér í Reading, enska amma og afi voru að koma heim úr siglingu um grísku eyjarnar svo nú verða sagðar ferðasögur á báða bóga milli þess að við dáumst að Annicu litlu sem hefur stækkað ótrúlega síðan við vorum hér síðast og brosir og hjalar í sífellu. Ég mun hinsvegar halda áfram með Finnlandsævintýrin hér í næstu færslum. Set inn nokkrar myndir til gamans.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl elskuleg. Ég er búin að vera að rembast við að senda þér athugasemdir en án árangurs - þangað til núna. Þú ert ævintýrakona og ég er stolt af þér. Áfram þú. Hmmm Danny K = sjarmör. Það er spurningin. Þú ert aldeilis búin að vera á flakki kellan mín og er það öfundsvert. En munu koma tímar og koma ráð, burt með allan efa og kvíða. Hvenær kemur þú heim elskuleg og já til hamingju með afmælið.

Ástar og saknaðarkveðja - Kolla.

Kolbrún Ingibergsdóttir (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 11:36

2 identicon

Já, elsku Kollan mín. Hvenær er maður sjarmur og hvenær er maður ekki sjarmur? Ég viðurkenni að Danny skorar ekki rosalega hátt. Ég er hjá Önnu Lilju núna og hef ekki ákveðið hvenær ég kem heim. Hef heldur ekki skrifað neitt í gær og í dag því Halla mín veiktist og var flutt á spítala og ég var ómöguleg hér úti. Þetta reyndust vera gallsteinar og gallblaðran var tekin. Nú er hún á spítalanum og ég vona að allt sé á réttri leið. Gaman að heyra frá þér, elsku stelpan mín, vona að allt sé í rífandi lagi og þú sért endalaust að lenda í spennandi ævintýrum. Stórt knús

edda (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 12:11

3 identicon

Hæ elsku Edda mín, gott að annað var ekki að hjá Höllu þinni. Hvað segir maður, amma, mamma og allt þar á milli og ekkert minna, dísus hvað ég sakna þín og er með gott skúbb (blaðamannamál að ég held) Samt mín elskuleg vona bara að þér líði sem allra allra best. kveðja og stórt kram til þín.

steinunn ósk (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 15:52

4 identicon

Sakna þín líka, elsku vinkona. Skúbb!!! Ég verð auðvitað fyr og flamme. Verst að geta ekki nýtt það. Vona að allt sé í lukkunnar velstandi hjá þér og þú þarft eiginlega að senda mér mail til að segja mér soldið frá prívatmálunum (sénsarnir og allt það, þú veist). Knús

edda (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband