Hryggbrot og gítarsóló

16. júní.

Ég gerði heiðarlega tilraun áðan til að syngja þjóðsönginn fyrir gestgjafa mína Finnana en varð að gefast upp. Maður misþyrmir ekki þjóðsöngnum.

Við erum búin að vera á fartinni um allt, Paiwi þekkir allstaðar fólk og kynnir mig hægri, vinstri. Í hefndarskyni fyrir kjólakaupin heilsaði ég  karlkyns-Finnum afar kurteislega og spurði svo hvort þeir vildu giftast mér. Paiwi setti dreyrrauða í fyrstu og mennirnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Ég hef aldrei verið hryggbrotin jafn oft á jafn stuttum tíma. 

Ég er orðlaus yfir fegurðinni hérna og myndin sem ég var búin að gera mér af Finnum stenst engan veginn. Þeir eru opnir og vingjarnlegir, hafa viðurstyggilega góðan húmor og vilja allt fyrir mann gera. Paiwi og maðurinn hennar búa þægilega og hafa valið sér lífstíl sem byggist á kyrrð og rólegheitum. Dóttir þeirra er í námsreisu í Eistlandi og sonurinn, 16 ára býr heima.  Það er nú samt þannig að fátt er svo með öllu gott.... Drengurinn á nefnilega rafmagnsgítar og æfir sig reglulega, allt upp í tvo tíma í senn, djöflast á gítarnum og allt í botni. Foreldrarnir haggast ekki en ég er svona um það bil að fá taugaáfall eftir fimmtán mínútur. Þá fer ég í reykingagöngutúr til að ná hjartslættinum niður. Þau vilja leyfa honum að æfa sig til að "stífla ekki flæðið", en eru ekki til einhverskonar heyrnartól sem hann gæti haft á hausnum til að hlífa umhverfinu?   

Ég fer í gufubað á hverju kvöldi og á morgun er það ströndin. Eftir helgina er svo ferðinni heitið í sumarhúsið þeirra þar sem mér skilst að verði mikið miðsumarspartý. Ég reyni kannski að syngja fyrir þau Hæ, hó, jibbíjeij á morgun, svona í tilefni dagsins. Að öðru leyti verð ég til friðs.

Og meðan ég man. Ég á afmæli á fimmtudaginn og verð að heiman. Þeir sem vilja gleðja mig á afmælisdaginn geta lagt inn fúlgur fjár á reikning xxxxx - eða þannig. 

Nú ætla ég út í finnsku sumarnóttina, sem er björt eins og heima, horfa á íkornana leika sér í trjánum og senda fallegar hugsanir til allra sem ég elska - og jafnvel hinna líka. Gleðilega þjóðhátíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku vinkona, ekki leiðinlegt hjá þér fyrir utan gítargjörninginn. Les samt að það er gaman hjá þér og það er fyrir mestu. Fallegt land, skemmtilegt fólk og þú í hvítum kjól. Héðan er allt gott að frétta og mikið að gera. Hugsa til þín á hverjum degi og þín er sárt saknað. En farðu vel með þig.

kv. stoska

steinunn osk oskarsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 10:01

2 identicon

Hæ besta mamma.  Maður veit aldrei hvert svarið verður nema spurja svo ég held þetta sé fín taktík hjá þér.  Tölfræðilega hlýtur svo einhver að segja já.  Annars á ég ennþá eftir að skrifa til Stephen Fry en fyrst þú ert komin með kjólinn hlýtur hann að slá til. 

En annars segi ég bara "lets do the Timewarp again" því við erum búin að kaupa miða fyrir okkur og þig á Rocky Horror, lokasýninguna!

Og ef þú finnur engan til að giftast þér fyrir þann tíma geturðu kannski brúkað kjólinn og verið Janet - nema þú hafir verið búin að ákveða að mæta í korseletti auðvitað. 

Anna Lilja (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 13:29

3 identicon

Ég held ég slái til sem Janet. Nema ég kíki í kynlífsbúðina þína á horninu og athugi með latex-korselett. Hvenær er sýningin? Ég verð að skipuleggja mig svo ég verði örugglega komin þá. Annars hef ég fréttir handa þér. það var nefnilega einn sem bað mín að fyrra bragði í morgun. Blogga um það síðar. Annars bara ástarkveðjur, knús og kossar.

edda jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband