14. júní.
Ég klúðraði þessu algjörlega með brenniboltann, fór í sturtu og smurði mig með kremi sem átti að slá á kláðann vegna mýbitanna og svo sofnaði ég svefni hinna réttlátu. Sem betur fer var mín sárt saknað og Norðmennirnir höfðu ætlað að kaupa okkur Íslendingana dýru verði. Geir var sem betur fer mættur og stóð sig vel, en reglurnar eru skýrar:
1. Dómarinn er strangur og óréttlátur.
2. Allt er leyfilegt.
3. Gestgjafarnir vinna.
Svo Danir fóru með sigur af hólmi. Við Geir vorum þó auðvitað ekki dauð úr öllum æðum og síðar um kvöldið, þegar kveðjupartýið var haldið, tókum við djúpan tangó sem sló Finnana út þó tangóinn væri sérstaklega ætlaður þeim. Ég kom mér í ró um tvöleytið en partýið stóð til morguns.
Ég hitti mikið af áhugaverðu fólki þarna, eftirminnilegust er trúlega hin finnska Toini Imponen, lappadjöfull eins og hún sjálf kallar sig, en hún hefur verið á Íslandi og elskar Íslendinga. Toini er alin upp á fósturheimilum um gjörvallt Finnland, er ör og skapstór en hefur spjarað sig vel. Þarna var líka yndisleg eldri kona frá Króatíu sem gaman var að spjalla við og hinn danski Jens, sem hefur óstjórnlegan áhuga á íslensku Thorsurunum og hefur skrifað grein um þá. Að ótöldum öllum hinum.
Í partýinu bauð hin danska Kristina mér far til Randers daginn eftir sem ég þáði því þaðan var einfalt að taka rútu til Ebeltoft. Þegar við settumst inn í bílinn sagði hún mér titrandi röddu að hún ætlaði að aka hægt og rólega og þá sá ég að hún var ekki í standi til að keyra yfir höfuð. Hún hafði haldið dampi til sex um morguninn og var á þessu hrikalega stigi þegar þynnkan er að taka yfir, hausinn fullur af bómull og innri titringurinn að drepa mann. Ég bauðst til að skipta um sæti við hana og hún fór þakklát yfir í farþegasætið. Óvænta atriðið á ráðstefnunni þennan morgun hefur örugglega verið mörgum erfitt því þar voru mættir til leiks þrír Danir sem höfðu í farteskinu stáltunnur, öskutunnulok og fleira í þeim dúr og hávaðinn var ærandi. Ég hefði ekki viljað sitja þunn undir þeim ósköpum öllum!
Í rútunni á leið niður Jótland, í gegnum alla yndislegu bæina, í guðdómlegu veðri, fann ég gamalkunnan kvíða læðast að mér. Eins og venjulega var hann óskilgreindur, hefur eitthvað með framtíðina að gera, peningamál og óöryggi, og ég mátti hafa mig alla við að öðlast ró á ný. Ég þuldi möntruna mína, hugsaði um allt það góða í lífinu og náði að slaka á. Ég er samt afar hugsi yfir því að allstaðar í heiminum hitti ég konur á mínum aldri í svipaðri aðstöðu. Þreyttar, útbrenndar með lélega sjálfsímynd og margar þeirra drekka ótæpilega. Þetta virðist vera almennt hjá minni kynslóð og er sennilega vegna þess að við ólumst upp við tvöföld skilaboð, annars vegar gömlu gildin frá mæðrum okkar og ömmum, hins vegar frá samfélaginu sem var að breytast og vakna til meðvitundar um stöðu kvenna. Ég var nítján ára þegar ég stóð í Bankastrætinu á kvennafundinum fræga, ólétt að tvíburum og eiginlega alveg lost. Skaparanum hugnaðist ekki að nesta mig út með "kvenlegum dyggðum". Ég hef aldrei á ævinni saumað flík, kann ekki að stoppa í sokka, finnst leiðinlegt að þrífa, og er alltaf eins og geimvera í hópi kvenna sem skiptast á mataruppskriftum, svo dæmi séu tekin. Mömmu fannst það hins vegar mikil sjálfselska að ég ynni úti frá fjórum börnum og væri ekki til staðar fyrir þau og ektamanninn. Enda hef ég aldrei tollað í hjónabandi nema tímabundið. Sektarkenndin hefur nánast verið "my middle name" alla tíð. Ég er að reyna að breyta þessu og vona að börnin mín séu að ala upp kynslóðina sem er laus við sektarkenndina fyrir fullt og allt.
Nóg um það.
Nú er ég komin til Finnlands þar sem ég dvelst í góðu yfirlæti hjá vinkonu minni Paiwi í Mikkelí. Ég flaug frá Árósum til Stanstead og þaðan til Tampere. Það var langódýrast. Ég hékk á flugvellinum í sex tíma en mér finnst flugvellir skemmtilegir staðir og leiddist ekki baun. Í gær fórum við Paiwi í bíltúr um stærsta vatnahérað Evrópu og það var æðislegt. Hún vildi endilega stoppa hjá finnskum fatahönnuði á leiðinni og neyddi mig til að máta kjóla. (Ég veit ekki hvað þetta er með vinkonur mínar að vilja alltaf draga mig inn í fatabúðir þrátt fyrir að ég viti ekkert leiðinlegra. Sennilega finnst þeim ég svona drusluleg.) Þetta endaði með að Paiwi keypti handa mér hvítan, síðan kjól sem henni og afgreiðslustúlkunni bar saman um að væri eins og sniðinn á mig!!! Ég - í hvítum kjól. Paiwi segir að ég eigi að dansa í honum á midsommarafton en ég er að spá í að nota hann sem brúðarkjól. Búin að finna æðislega sveitakirkju skammt frá Savonlinna og vantar bara brúðgumann.
Tenglar
gamalt og gott
Fólkið mitt
- Eldra blogg annarstaðar Bloggfærslurnar mínar meðan ég vann á eyjunni
- Halla mín
fólk
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 932
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já mamma mín, ég ætla að umorða hérna tilvitnun sem ég sá einhvers staðar: Uppáhalds heimilisstörfin mín eru að strauja; næst á eftir því að lemja hausnum utan í vegg þangað til ég rotast. En ég er viss um að sektarkenndin er að þynnast út með kynslóðunum. Mér stendur alveg á sama þó ég kunni ekki að baka og það hefur aldrei hvarflað á mér á minni lífslöngu ævi að stoppa í sokka t.d. Love you!
Anna Lilja (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 12:27
Elska þig líka og mikið er ég fegin að sektarkenndin er að fjara út. Ferfalt húrra fyrir því!
edda jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 16:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.