Boot Camp

Það er 30 stiga hiti og ekki skýhnoðri á himni. Ég er hlekkjuð við fimm bláókunnugar manneskjur inni í dimmum skógi. Við erum öll með bundið fyrir augun. Ég er öftust í röðinni. VIð höfum kaðal til að feta okkur eftir en hann hlykkjast meðfram trjám, yfir trjárætur og ófærur og stundum rekumst við á fleiri kaðla sem við flækjumst í. Við dettum hvort um annað, rispum okkur á trjágreinum og liggjum í kös á skógarbotninum. Ég er berlæruð og berhandleggjuð. Þegar við komum að endanum á kaðlinum erum við losuð hvort frá öðru og bindið tekið frá augunum. Ég hristi af mér blaðlýsnar og býst við smá pásu en er umsvifalaust dregin af stað lengra inn í skóginn. Þar bíða okkar bogar og örvar og við tökum til óspilltra málanna. Þetta er keppni og við verðum að vera snögg og hitta í mark. Við skjótum 30 örvum með frekar lélegum árangri. Engin pása. Næst er það axarkast. Öxin er svo þung að ég veld henni varla en við köstum eins og við lifandi getum. Aftur frekar lélegur árangur.

Vatn! Ég verð að fá vatn. En það er ekkert vatn í boði.

Við höldum lengra inn í skóginn þar sem bíður okkar digur trjábolur og tvær sagir. Við eigum að saga sex bita af trénu og skiptumst á að sitja klofvega á trjábolnum sem hefur verið lagður á tvo stólpa. Svo er sagað og sagað. Mig verkjar í hendurnar og þegar við ljúkum verkefninu finn ég að ég er þakin tréflísum frá ökkla uppí rass. En það er enginn tími til að draga þær út. Við blasa himinháar stangir sem við eigum að klifra upp. Ef við komumst á toppinn doblum við skorið. My ass. Við gefumst upp og erum dregin af stað til baka þar sem við fáum hvert sitt fjallahjólið til afnota. Bara fimm kílómetrar segir foringinn. Við hjólum af stað inn í skóginn, og ég sem hélt það væru engar brekkur í Damörku. Skógarstígurinn er þakinn rótum og ójöfnum og ég dett af hjólinu. Sá sem er á eftir mér dettur líka en við stígum samstundis á bak aftur og höldum áfram. Það er hjólað í djöfulmóð og ég er rennsveitt af svita og óhreinindum og mig verkjar í klofið. Við komum í mark og gerum ráð fyrir að nú sé tími kominn á gourmet-dinnerinn sem okkur var lofað. En nei, ó nei. Næst er það eróbikk. Djöfull er ég búin á því. En nú er sumsé matur. Við brosum hvert til annars, berjum á axlir og þykjumst hafa staðið okkur vel. Þegar stigin eru talin erum við næst neðst.

Við hröðum okkur að matarborðinu og ég fæ létt áfall. Við grillið er tunna full af slímugum fiski. Þeir segja það vera urriða en ég þekki urriða þegar ég sé hann. Þetta er í skásta falli þorskur. Við köfum í tunnuna, finnum okkur fisk og álpappír og pökkum inn. Fisknum er hent á grillið og þegar minn er tilbúinn býst ég við að taka utan af honum álið og látast smakka. Áður en ég veit af er ég búin að éta allan fiskinn. Ég er nær dauða en lífi af hungri og þorsta.

Þetta er ekki Boot Camp. Þetta er ráðstefna fyrir freelanceblaðamenn á Jótlandi og þessi skemmtilegheit flokkast undir liðinn aktiviteter. Eftir matinn er talið í söngvakeppni. Löndin takast á og þar sem við erum bara tvö frá Íslandi og fyrst í röðinni stígum við upp á borð og syngjum Rósina með miklum tilþrifum og við geðveikar undirtektir. Nú snýst þetta bara um að láta sig hafa það. Við erum í öðru sæti, töpum naumlega fyrir Norðmönnum. Shit! En djöfull er þetta hressandi. Það eru hundrað manns í allt á ráðstefnunni og þegar við ökum aftur heim á hótel eru 99 drukknir og einn edrú. Ég.

Í dag hefur prógrammið verið hreint frábært. Vinnugleði er þemað og hvernig forðast beri stress og að brenna út. Hér eru margir sem hafa brunnið út eða verið alveg í þann veginn. Þetta er eins og vítamínsprauta.

Ég verð ábyggilega í viku að tína úr mér flísarnar og mýbitin eru um allan skrokk, líka inni í eyrunum á mér. Eftir hjólatúrinn líður mér milli fótanna eins og helriðinni hóru. Er algjörlega óvön hörðum sætum á fjallahjólum. En það þýðir ekki að láta deigan síga. Eftir nokkrar mínútur hefst keppni milli landa í brennó og kýló. Af því við erum bara tvö Íslendingarnir ætlum við að láta bjóða í okkur. Efast ekki um að það verður hart barist um víkingana tvo. Meira síðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæl Edda,

rakst hér inn á bloggið þitt og fór að lesa og lesa. Mjög skemmtilegt og frískandi. Veit ekki til þess að við þekkjumst, en má vel vera. Er kominn á þann aldur að allt það fólk sem hefur orðið á vegi manns, er ein iðandi minnig... Ekkert að því finnst mér.

En langar að biðja þig um að vera bloggvinur minn, svo ég eigi auðveldara með að fylgjast með þegar þú færir eitthvað inn - sem ég vil örugglega lesa!

kv.

Viðar Eggertsson, 9.6.2007 kl. 14:38

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæl Edda,

þú ert væntanlega búin að fá email um að eggmann hafi óskað eftir að gerast bloggvinur þinn. Þú ferð á bloggið þitt og skráir þig inn á það.

Þegar því er lokið opnar þú "stjórnboðið" hjá þér, þá er þar aflangur reitur, þvert yfir síðuna hjá þér, þar sem kemur fram að eggmann vilji verða bloggvinur þinn. Þú smellir þar á bláu orðiin, sérð mynd af mér og við hliðina "samþykkja", klikkar á það..... og sjá við erum orðnir bloggvinir!

kv.

kv.

Viðar

Viðar Eggertsson, 9.6.2007 kl. 15:10

3 identicon

Hæ elsku Edda mín,

Aldeilis stuð hjá þér og mikið hlítur þú að hafa fílað þig í botn, með bundið fyrir augun og ekkert vitað hvert væri verið að fara með þig. Ég er búin að hlægja út í eitt að lesa, ótrúlega gaman hjá þér. Hlakka til að lesa meira.

Stórt knús til þín mín kæra.

Stóska

steinunn ósk (IP-tala skráð) 9.6.2007 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband