Brauðtertur, hækur og jamsession _ og svo Danmörk

6. júní.

Þó brauðtertur séu "úti" á Íslandi (eins og dóttir mín heittelskuð heima heldur blákalt fram) eru þær  deffenettlí "inni" hjá Lewis-fjölskyldunni í Reading og verða fastur liður í veislum hjá þeim í framtíðinni. Fyrir veisluna á laugardaginn gerði ég fjórar brauðtertur upp á gamla mátann, tvær með rækjum og tvær með skinku. Þær hurfu eins og dögg fyrir sólu og bresku gestirnir tárfelldu næstum af hrifningu. Þeir voru ekki síður hrifnir af hugmyndinni sem slíkri og spurðu hver hefði eiginlega fundið þetta upp? Já, hver fann eiginlega upp brauðtertuna? 

En veislan í heild var eitt allsherjar dýrlegt ævintýr. Veðrið lék við hvurn sinn fingur og Pierce, enski afinn, kom með stórt veislutjald og garðstóla og veislan fór algerlega fram í garðinum. Allir héldu fallegar tölur til barnsins eða fóru með ljóð og  japanskar hækur. Danielle föðursystir, hafði í farteskinu gítarinn sinn, eitthvert hljóðfæri sem ég kann ekki að nefna og minnir á gítar (nei, það er ekki banjó) og óteljandi trommur og ásláttarhljóðfæri. Það var sungið af hjartans lyst og allir slógu taktinn, allt frá yngsta gestinum, níu ára, uppí langömmuna, sem var eiginlega mesti stuðboltinn.  Þetta var í einu orði sagt frábært, og Annica litla Ísmey var eins og ljós allan tímann, næstum allsber í sólinni.

Ég verð auðvitað að segja ykkur hvert mitt framlag var fyrir utan létta ræðu. Ég prentaði út íslenskar barnagælur, Fljúga hvítu fiðrildin, Sigga litla systir mín, Afi minn fór á honum Rauð og svo framvegis, og spilaði þetta í þremur útgáfum. Fyrst í Við skulum róa sjóinn á-útgáfunni, svo Yfir kaldan eyðisand-útgáfunni og að síðustu í skátaútgáfunni með tilheyrandi úmbarössum. Þetta músíkalska fólk náði strax að radda og gera þetta að alvöru söng þó úmbarassað hafi trúlega verið vinsælast, ekki síst vegna þess hvað það er trommuvænt. Á endanum sátu allir í grasinu, og Danielle stóð fyrir jamsession. Þetta var eins og væn hippasamkoma og ömmur og föðursystur léku sér eins og lítil börn. Sjá mynd af Kate ömmu hér á síðunni.

Daginn eftir var okkur svo boðið í Sunday Roast, enn og aftur hjá Pierce og Kate, en nú voru foreldrar hans mættir til leiks. Skemmtileg "middle-upper-class"-hjón sem fóru á kostum. Pierce er náttúrlega engu líkur, eldar mat fyrir fjölda manns, galdrar fram það sem vantar hverju sinni, gerir við bíla milli þess að hann hærir í sósunni og er alltaf jafn ljúfur. Þegar ég dáðist að honum við Kate og benti á að svona menn yxu ekki á trjánum hló hún og sagðist einmitt hafa tínt hann af tré. Ég þarf að spyrja hana við tækifæri hvar það tré er niðurkomið.

Ég ætla að yfirgefa England í dag og fljúga til Danmerkur, þar sem ég mun taka þátt í helgarráðstefnu norrænna freelance-blaðamanna á Jótlandi. Dagskráin virðist vera akkúrat það sem ég þarf á að halda, þemað er vinnugleði og hvernig á að forðast stress og styrkja sjálfsímyndina. Í veikindum mínum undanfarna mánuði hef ég þjáðst af kvíðaköstum sem kveður stundum svo rammt að að ég hreinlega lamast og sjálfsmyndin er eftir því.

Ég flýg frá Stanstead til Árósa fyrir 0.01 pund, plús fimm pund farangur og sex pund tryggingar og skattur. Fargjöld með Ryan Air frá Stanstead til fjölda áfangastaða eru á þessum nótum og ég hvet fólk til að vera duglegra að ferðast á eigin vegum og uppgötva nýja og spennandi staði fyrir "skid og ingenting". Mér skilst að þátttakendur á ráðstefnunni séu um 100, bara það gerir mig ögn nervusa, en nú er bara að bíta á jaxlinn og taka þátt.

Næsta blogg verður því væntanlega í Danmörku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband