Væmin í Reading

 30. maí.

Á leið minni í bæinn í gær kíkti ég inn á nokkrar hárgreiðslustofur til að athuga verð á klippingu. 25 pund var algengast, nema á einum stað tók á móti mér glaðleg kona um fertugt og sagði klippinguna á 15 pund. Ég ákvað að slá til og settist í stólinn hjá henni. Á meðan hún klippti mig sagðist hún ætla að gera mig flottari en Sharon Stone!!!!??? og dáðist að því hvað ég væri kekk og skemmtileg???!!!! Hún sagði mér svo af högum sínum á meðan hún klippti mig. Hún væri frá Suður-Afríku, yngst þrettán systkina sem öll búa þar. Ófrísk að þriðja barni (örverpi).  "Silly me" sagði hún, sló á bumbuna og hló hjartanlega.  Hún hafði aldrei heyrt Íslands getið en hafði brennandi áhuga á að fræðast. Söngur er hennar hjartans mál og öll systkinin syngja saman þegar þau hittast. Mamma þeirra lést á mæðradaginn fyrir nokkrum árum og við útförina sungu systkinin yfir móður sinni. Hún saknar þeirra á hverjum degi. Þegar hún var búin að klippa mig harðneitaði hún að taka nema tíu pund fyrir af því ég væri svo frábær?! Svo faðmaði hún mig að skilnaði. Ég fór út, svo einkennilega glöð í hjartanu. Þetta er að verða örlítið svona væmin mannlífssaga, en það var eitthvað við hana sem gerði mig svo glaða. Hún gaf svo svikalaust af sjálfri sér og fór ekki fram á neitt á móti. Ég fór svo og keypti mér hárlit fyrir 2.99 og er vægast sagt geðveikt flott um hárið. Sharon Stone hvað?

Það er ofboðslega gaman að fá að vera hluti af breskri fjölskyldu og í fyrradag var okkur boðið til bresku ömmu og afa í enskan morgunverð. Langamma Annicu var komin frá Sevilla (þar sem hún býr) til að heilsa upp á barnið og vera í veislu sem á að halda á laugardaginn. Málið er að Annica verður ekki skírð fyrr en á Íslandi um jólin. Til að fá skírn í kirkjunni þar sem Chris var skírður þurfa foreldrarnir að mæta í messu í hverjum sunnudegi í þrjá mánuði og  það þótti þeim "to much". En það á semsagt að halda nafngiftarveislu og undirbúningur er í fullum gangi. Amma Kate er afar þróttmikil og skemmtileg kona og listræn í ofanálag. Sömu sögu má segja um Danielle, systur Chris, sem er að kenna hér í listaháskólanum og þær mæðgur eru að undirbúa sýningu sem verður á fjölunum í desember undir þemanu Mýrarljós.  

En dagurinn var yndislegur og það kom í ljós að búið var að bjóða fleiri gestum til kvöldverðar svo heimsóknin varð umtalsvert lengri en ég hafði búist við. 12 tíma heimsókn er gríðarlega langur tími fyrir félagslega bæklaða týpu eins og mig. Þetta gekk samt ótrúlega vel.

Nú rignir í Reading og við erum bara heima við í rólegheitum, horfum á sjónvarp, lesum og höfum það náðugt. Ég er samt ferlega glöð að nú örli loks á sumri á Íslandi. Njótið vel. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, kirkju á hverjum sunnudegi?  Ég sem varla hef stigið fæti inn fyrir kirkjudyr í fleiri ár.  Höldum bara svona skemmtilega heiðna hátíð í bili og krossleggjum fingur varðandi veðrið . . . hmmm . . .

Anna Lilja (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 20:24

2 identicon

Bretar eru nú soldið þannig að ef hægt er að gera hlutina erfiða gera þeir það. Þetta er svona svipuð pólitík og hjá bönkunum þar sem þú færð ekki yfirdrátt nema vera búin að sýna fram á ákveðna veltu. Hélt nú að á dögum tilvistarkreppu kirkjunnar tækju þeir öllum safnaðarbörnum fagnandi. En kannski svo lengi sem þú þarft ekki að leggja stund á biblíufræði og taka inntökupróf er þetta í lagi. En hvernig er það, þar sem þú ert orðin flottari en Sharon Stone, fer þá ekki að styttast í auðuga aðalsmanninn sem ætlar að vera fósturpabbi minn?

Halla (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 10:30

3 identicon

Já, Bretar hafa haft sérstakt lag á að tregðast við að stökkva inn í  21. öldina, en það gerir þá bara meira sjarmerandi, þ.e. ef maður þarf ekki að standa í einhverjum pappírsmálum sjálfur. Hvað aðalsmanninn varðar bendi ég þér á, kæra dóttir, að það er innri fegurð sem skiptir máli.... (gubb). Vandamálið er að breskir aristókratar eru nánast útdauðir, en ég hef augun opin!!!!

edda (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 11:31

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Frábærpistill hjá þér Edda með konuna sem klippti þig, þá er svo greinilegt að með því að vera opinn, koma vel fram og láta sig varða um náungann, þá einhvern veginn svífur maður áfram. Það var æðislegt að lesa um þig og hárgreiðslukonuna

....en mikið öfunda ég ykkur að vera þarna öll saman. Mér finnst svo langt síðan ég var þarna hjá Önnu Lilju, enda komnir nú þegar nokkrir mánuðir síðan.

Reading er líka æðislegur bær og gott að vera þar. Allt svo öðruvísi en ég hef vanist hérna heima og var það alger bylting fyrir mig að komast þarna út eftir að hafa ekki farið út fyrir landssteinana í tæp 15 ár hugsa mikið um þessa ferð ennþá og mun sko fara til Önnu Lilju og Chris um leið og ég hef tækifæri til ..... og þau geta tekið á móti mér

Kreystu þau öll frá mér, Anna Lilja og Chris eru æðisleg og krílið líka , en hún lík Önnu Lilju ??? mamma er sko alveg pottþétt á því ?

Bestu kveðjur frá Mér

Inga Lára Helgadóttir, 31.5.2007 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband