Hillbillies-syndrómið og sýrutré sem lifna við

25. maí 2007

Við fórum í bæinn með prinsessuna í gær og á leiðinni varð ég skyndilega gripin ofurangist. Hitinn var gríðarlegur, gangstéttarnar þröngar, bílar, hjól og gangandi vegfarendur um allt og mengunin hrikaleg.  Þetta hefur ekkert með mig að gera, ég hef alltaf elskað skítugar stórborgir og súra pöbba (eða þangað til ég skipti úr fjórföldum vodka yfir í kaffi). Allt í einu leið mér samt eins og ég yrði að pakka öllu mínu fólki inn og flytja það með mér upp í  óbyggðir.  Mér fannst tæplega mánaðargamalt barnið svo berskjaldað og fór að hugsa um allar hætturnar sem steðjuðu að, ekki bara henni heldur öllum sem ég elska.  Þetta kemur yfir allar mæður, þessi löngun að pakka öllum inn í bómull og hafa þá á vísum stað. Ég jafnaði mig auðvitað á þessu vegna þess einfaldlega að það er ekkert annað í boði.

Við áttum svo yndislegan dag og í miðbænum stoppuðum við við gildan trjástofn sem Anna Lilja sagði mér að hefði verið sagaður niður, Chris og öðrum bæjarbúum til mikillar hrellingar. "Þetta var nefnilega uppáhaldstréð hans," sagði Anna Lilja, og við stóðum góða stund og dáðumst að 150 ára gömlum stofninum sem er afar sérkennilegur að lögun. Í dag las ég svo í bæjarblaðinu að tréð, sem var sagað niður af því að greinar þess voru hættulegar, væri lifnað við.

"Þetta 150 ára gamla Indian Been-tré sem í Reading er kallað "sýrutré" á sér merkilega sögu, en undir greinum þess áttu sér athvarf lukkulegir hippar sem reyktu kannabis og droppuðu guð veit hverju," stendur í blaðinu. Þrír sérfræðingar létu hafa eftir sér að tréð væri dautt en nú blómstrar það sem aldrei fyrr, uppgjafa gæru- og sýruhippum til mikillar gleði."

Ég þori ekki að spyrja Chris af hverju þetta var uppáhalds tréð hans.

Það hefur háð mér soldið í þessum göngutúrum að hnéð á mér er í hálfgerðu messi. Ég fór í aðgerð í maí sem virðist hafa misheppnast og mér er farið líkt og Dodda litla sem datt í dý og varð aldrei jafn góður í fótnum. Lesendum til glöggvunar læt ég fylgja með fyrsta vers af Doddavísum, ef svo ólíklega vildi til að einhver kynni þær ekki:

Doddi litli datt í dý

og meiddi sig í fótnum

hann varð aldrei upp frá því

jafngóður í fótnum.

Hvað um það. Hér í Reading verður mikið festival um helgina, skrúðgöngur og skemmtikraftar og ég hyggst taka þátt í því af lífi og sál og hætta að haga mér eins og ég sé önnur tveggja úr Tungunum, skíthrædd við bíla og fólk.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Yndislegt að lesa bloggið þitt Edda ég alveg táraðist við tilhugsunina um göngur ykkar í Reading, það er nú ekki langt síðan ég var þar með Önnu Lilju og Chris og núna er litla krúttið með ykkur. Verulega fallegar myndir af litlu fjölskyldunni og kreystu þau frá mér.

Ég hlakka til að lesa meira eftir þig hér og endilega haltu því áfram

Bestu kveðjur og kossar til ykkar allra í Reading,

Inga Lára Helgadóttir

Inga Lára Helgadóttir, 25.5.2007 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband