Í sátt á Bretlandseyjum

Þegar ég yfirgaf Ísland upp úr miðjum maí leit helst út fyrir að ríkisstjórnin héldi og mér var slétt sama. Ég fæ reglulega upp í kok af þjóðinni minni, þrátt fyrir að ég sé sannkallaður föðurlandssinni og stolt af upprunanum. Nú berast þær fréttir að ný stjórn sé mynduð og ég get ekki annað en glaðst fyrir hönd Ingibjargar og Össurar sem fá nú ráðherraembætti þrátt fyrir að hafa verið hálf lost í kosningabaráttunni og reyndar allar götur síðan Ingibjörg var kosin formaður. Vonandi að þetta viti á gott. Það er dapurlegt þegar maður missir trú á heila þjóð, og það sína eigin. Þjóð sem alltof oft minnir á ráðvilltan og bólugrafinn ungling sem hefur ekki hugmynd um hver hann er né hvað hann ætlar að verða. Fullur minnimáttarkenndar grípur hann til stærilætis sem er í skásta falli brjóstumkennanlegt og reynir í örvæntingu að fela bólurnar og falla í kramið.  Æ svei. En ég nenni ekki að ergja mig á þessu núna. Ég er nefnilega stödd í Englandi, nánar tiltekið Reading. Ég er óskaplega svag fyrir Bretum, finnst þeir ljúfir og skemmtilegir og algjörlega lausir við að taka sjálfa sig hátíðlega. Þeir eru líka alltaf til í góðlátlegt spjall, hvort sem er á strætóstoppistöðinni, búðinni eða kaffihúsinu. Ég má til (fyrst ég er byrjuð að nagga á annað borð) að segja frá því að ég hef nú þegar hitt þrjá Breta sem höfðu heimsótt Ísland. Ekki einn einasti hafði orð á því hvað landið væri fagurt og frítt, hvað þá heldur þegnarnir, en verðlagið ræddu þeir gjörsamlega ofandottnir. "Þið hljótið öll að vera milljarðamæringar með geðveik laun" sögðu þeir. Ég hristi höfuðið en hafði hvorki orku né getu til að útskýra fyrir þeim fáránleikann í íslensku hagkerfi.

En aftur að Reading. Ég kom hingað til að bjóða velkominn í heiminn nýjan einstakling, undurfagra snót, sem hefur fengið nafnið Annica Ísmey Lewis. Þetta er fyrsta barn dóttur minnar Önnu Lilju og mannsins hennar, Chris. Annica fæddist 28. apríl síðastliðinn og er fegurri og yndislegri en orð fá lýst. Pabbi hennar er fæddur í Reading en Anna Lilja og Chris kynntust í menntaskóla og voru saman í háskólanum í Brighton. Chris hefur lokið námi þar og er stærðfræðingur, en Anna Lilja gerði hlé á námi sínu í Evrópufræðum og ætlar að halda  áfram hér í Reading þegar tækifæri gefst til.

Reading kemur á óvart. Þetta er vinalegur bær, um það bil 40 mílur vestur af London. Hér hefur verið gert heilmikið fyrir miðbæinn, notaleg kaffihús eru meðfram kanalnum og bærinn státar af gríðarstóru "molli" kenndu við véfrétt, nefnilega Oracle. Ég sem hef krónískt ofnæmi fyrir mollum hef slysast þarna inn nokkrum sinnum og eins og  lög gera ráð fyrir týnist ég umsvifalaust í Véfréttinni og rata ekki út fyrr en eftir dúk og disk. Sem er slæmt. Líka að stærsta Boots-verslunin er þarna inni og ég þarf að taka á mig stóran krók til að forðast Boots. Ég bara missi mig í þessari verslun og langar í allt. Segi og skrifa ALLT. En bæði vantar mig ekkert og svo er ég blönk eins og alltaf. Fór samt í 99 pensa búðina og keypti eftirfarandi: Sjampó fyrir blondínur sem kostar á annað þúsund heima. Þrjár tegundir af vítamínum, þrjá ljóta öskubakka (þeir einu sem voru til), tveggja lítra kók, heilsukex, 10 extra-tyggjó í magnpakkningu, útikertalukt og kerti. Samtals: 9 pund og 30 pens. Vá!!!!

Útikertið var afar mikilvægt. Húsmóðirin hér, sem á þennan líka fína garð, hefur aldrei getað vanist skordýrum og er því ekki mikil garðkona. Þar sem reykingar verða að fara fram utandyra er þó nauðsynlegt að geta setið úti. Á verkfæraskúrnum sem er alveg upp við húsið hafði köngulóin frú Esmeralda spunnið hinn fegursta vef og undi hag sínum vel. Anna Lilja tók þetta sambýli ekki í mál og dag nokkurn þegar frú Esmeralda hafði brugðið sér af bæ sópaði húsbóndinn vefnum burt. Nóttina eftir kom frú Esmeralda aftur og endurbyggði heimili sitt af enn meiri natni og hafði boðið vinkonu sinni, fröken Daisy, hina hliðina á skúrnum. (Sjá myndir af Esmeröldu hér inni á myndavefnum, Daisy, sem er aðeins minni en sýnu ljótari, var ekki heima þegar myndirnar voru teknar.) Svo eru það loðnu lirfurnar sem búa í rósarunnanum í fjærsta horni garðsins. Þær eiga það til að bregða undir sig betri fótunum og heilsa upp á við reykingaborðið. Anna Lilja verður óð í orðsins fyllstu merkingu og þó Chris sé alltaf að benda henni á að bráðum verði lirfurnar að fegurstu fiðrildum lætur hún ekki segjast. "Þetta verða þá bara loðnar, ljótar lirfur með flotta vængi," segir hún. Og það er líka sjónarmið. (Sjá mynd af frú Loðinlirfu á myndasíðu.)

Nú kveikjum við á kerti á kvöldin svo engin hætta sé á við setjumst berlæraðar á loðnar lirfur. Og vinkonurnar á veggnum eru undir eftirliti. En nóg í bili. Sumarið er hér og tími til kominn að tölta í bæinn með fegurðardísina í vagninum.

 

 

 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sæl Edda, góður pistill og til hamingju með nýasta barnabarnið sem fæddist á 60 ára afmælinu mínu. En hvað með það. Mér hefur yfirleitt fundist verðlagið í London svimandi hátt og ekkert lægra en hérna á klakanum en það má vera að vara sé ódýrari utan borgarinnar. Eigið þið þrír ættliðir skemmtilegan og góðan dag.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 23.5.2007 kl. 12:43

2 identicon

Elsku Edda mín! Til hamingju og takk fyrir sms-ið um fæðingu prinsessunnar. Tvær duglegustu konur sem ég þekki eiga afmæli 28. apríl svo þetta verður kjarnakona. Þarftu ekkert að fara að skreppa til Frodsham og taka út lækninn? Setja smá blásýru í hvitvínsglas frúarinnar og svona? Elsku vertu dugleg að skrifa. Knúsaðu Önnu Lilju og berðu Chris hamingjuóskir mínar, kann ekki alveg við að senda honum knús þar sem ég hef aldrei séð hann. En stórt knús til þín alla vega! Anna Kristine

Anna Kr. (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband