6. júní.
Þó brauðtertur séu "úti" á Íslandi (eins og dóttir mín heittelskuð heima heldur blákalt fram) eru þær deffenettlí "inni" hjá Lewis-fjölskyldunni í Reading og verða fastur liður í veislum hjá þeim í framtíðinni. Fyrir veisluna á laugardaginn gerði ég fjórar brauðtertur upp á gamla mátann, tvær með rækjum og tvær með skinku. Þær hurfu eins og dögg fyrir sólu og bresku gestirnir tárfelldu næstum af hrifningu. Þeir voru ekki síður hrifnir af hugmyndinni sem slíkri og spurðu hver hefði eiginlega fundið þetta upp? Já, hver fann eiginlega upp brauðtertuna?
En veislan í heild var eitt allsherjar dýrlegt ævintýr. Veðrið lék við hvurn sinn fingur og Pierce, enski afinn, kom með stórt veislutjald og garðstóla og veislan fór algerlega fram í garðinum. Allir héldu fallegar tölur til barnsins eða fóru með ljóð og japanskar hækur. Danielle föðursystir, hafði í farteskinu gítarinn sinn, eitthvert hljóðfæri sem ég kann ekki að nefna og minnir á gítar (nei, það er ekki banjó) og óteljandi trommur og ásláttarhljóðfæri. Það var sungið af hjartans lyst og allir slógu taktinn, allt frá yngsta gestinum, níu ára, uppí langömmuna, sem var eiginlega mesti stuðboltinn. Þetta var í einu orði sagt frábært, og Annica litla Ísmey var eins og ljós allan tímann, næstum allsber í sólinni.
Ég verð auðvitað að segja ykkur hvert mitt framlag var fyrir utan létta ræðu. Ég prentaði út íslenskar barnagælur, Fljúga hvítu fiðrildin, Sigga litla systir mín, Afi minn fór á honum Rauð og svo framvegis, og spilaði þetta í þremur útgáfum. Fyrst í Við skulum róa sjóinn á-útgáfunni, svo Yfir kaldan eyðisand-útgáfunni og að síðustu í skátaútgáfunni með tilheyrandi úmbarössum. Þetta músíkalska fólk náði strax að radda og gera þetta að alvöru söng þó úmbarassað hafi trúlega verið vinsælast, ekki síst vegna þess hvað það er trommuvænt. Á endanum sátu allir í grasinu, og Danielle stóð fyrir jamsession. Þetta var eins og væn hippasamkoma og ömmur og föðursystur léku sér eins og lítil börn. Sjá mynd af Kate ömmu hér á síðunni.
Daginn eftir var okkur svo boðið í Sunday Roast, enn og aftur hjá Pierce og Kate, en nú voru foreldrar hans mættir til leiks. Skemmtileg "middle-upper-class"-hjón sem fóru á kostum. Pierce er náttúrlega engu líkur, eldar mat fyrir fjölda manns, galdrar fram það sem vantar hverju sinni, gerir við bíla milli þess að hann hærir í sósunni og er alltaf jafn ljúfur. Þegar ég dáðist að honum við Kate og benti á að svona menn yxu ekki á trjánum hló hún og sagðist einmitt hafa tínt hann af tré. Ég þarf að spyrja hana við tækifæri hvar það tré er niðurkomið.
Ég ætla að yfirgefa England í dag og fljúga til Danmerkur, þar sem ég mun taka þátt í helgarráðstefnu norrænna freelance-blaðamanna á Jótlandi. Dagskráin virðist vera akkúrat það sem ég þarf á að halda, þemað er vinnugleði og hvernig á að forðast stress og styrkja sjálfsímyndina. Í veikindum mínum undanfarna mánuði hef ég þjáðst af kvíðaköstum sem kveður stundum svo rammt að að ég hreinlega lamast og sjálfsmyndin er eftir því.
Ég flýg frá Stanstead til Árósa fyrir 0.01 pund, plús fimm pund farangur og sex pund tryggingar og skattur. Fargjöld með Ryan Air frá Stanstead til fjölda áfangastaða eru á þessum nótum og ég hvet fólk til að vera duglegra að ferðast á eigin vegum og uppgötva nýja og spennandi staði fyrir "skid og ingenting". Mér skilst að þátttakendur á ráðstefnunni séu um 100, bara það gerir mig ögn nervusa, en nú er bara að bíta á jaxlinn og taka þátt.
Næsta blogg verður því væntanlega í Danmörku.
Dægurmál | 6.6.2007 | 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar ég fór út í morgunsólina í morgun með heilsudrykkinn, kaffið og sígaretturnar (hollusta og óhollusta í hárréttum hlutföllum) var ég að reyna að rifja upp hvernig ég gerði hinar rómuðu brauðtertur hér um árið. Undirbúningur fyrir veisluna stendur sumsé sem hæst og í kvöld er fundur, segi og skrifa fundur, til að fara yfir dagskrána og skemmtiatriðin. Langamma er búin að baka dýrindis tertur og einhver tantan, sem er kökuskreytingamaður, skreytir terturnar með nafni barnsins og sykurleikföngum. Í gærkvöldi sátum við Anna Lilja (með maska á andlitinu) og pökkuðum inn marglitum sykurmöndlum sem eiga að vera við hvern disk ásamt litlu sætu korti. Gestirnir taka það svo með sér þegar þeir fara heim. (Sjá mynd af Önnu Lilju fögru með maskann!!!)Skírnarkjóllinn, sem var saumaður upp úr brúðarkjól ömmunnar, er nýþveginn og straujaður á herðatrénu og nú verð ég hreinlega að ákveða hvað ég ætla að gera skemmtilegt í þessari veislu svo ég verði ekki eins og þorskur á þurru á fundinum í kvöld. Dans og söngatriði eru þegar á dagskrá svo og ræður og ljóðaflutningur, þannig að ég er soldið mát.
Annað og óskylt. Þegar ég fer inn á bloggsíður annarra sé ég að þeir eiga sér gommu af bloggvinum. Einhver sagði mér að ég ætti bara að fara inn á síðurnar og spyrja hvort viðkomandi vildi verða bloggvinur minn. Af meðfæddri hógværð og látleysi get ég það auðvitað ekki en auglýsi engu að síður eftir skemmtilegum bloggvinum, ef einhverjir bloggarar slysast inn á þessu síðu.
En nú þýðir ekki að sitja og lesa og eins og segir í kvæðinu heldur láta hendur standa fram úr ermum. Ég er skíthrædd um að terturnar misheppnist því hér er ekkert Gunnarsmajones, en ég geri mitt besta.
Dægurmál | 1.6.2007 | 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30. maí.
Á leið minni í bæinn í gær kíkti ég inn á nokkrar hárgreiðslustofur til að athuga verð á klippingu. 25 pund var algengast, nema á einum stað tók á móti mér glaðleg kona um fertugt og sagði klippinguna á 15 pund. Ég ákvað að slá til og settist í stólinn hjá henni. Á meðan hún klippti mig sagðist hún ætla að gera mig flottari en Sharon Stone!!!!??? og dáðist að því hvað ég væri kekk og skemmtileg???!!!! Hún sagði mér svo af högum sínum á meðan hún klippti mig. Hún væri frá Suður-Afríku, yngst þrettán systkina sem öll búa þar. Ófrísk að þriðja barni (örverpi). "Silly me" sagði hún, sló á bumbuna og hló hjartanlega. Hún hafði aldrei heyrt Íslands getið en hafði brennandi áhuga á að fræðast. Söngur er hennar hjartans mál og öll systkinin syngja saman þegar þau hittast. Mamma þeirra lést á mæðradaginn fyrir nokkrum árum og við útförina sungu systkinin yfir móður sinni. Hún saknar þeirra á hverjum degi. Þegar hún var búin að klippa mig harðneitaði hún að taka nema tíu pund fyrir af því ég væri svo frábær?! Svo faðmaði hún mig að skilnaði. Ég fór út, svo einkennilega glöð í hjartanu. Þetta er að verða örlítið svona væmin mannlífssaga, en það var eitthvað við hana sem gerði mig svo glaða. Hún gaf svo svikalaust af sjálfri sér og fór ekki fram á neitt á móti. Ég fór svo og keypti mér hárlit fyrir 2.99 og er vægast sagt geðveikt flott um hárið. Sharon Stone hvað?
Það er ofboðslega gaman að fá að vera hluti af breskri fjölskyldu og í fyrradag var okkur boðið til bresku ömmu og afa í enskan morgunverð. Langamma Annicu var komin frá Sevilla (þar sem hún býr) til að heilsa upp á barnið og vera í veislu sem á að halda á laugardaginn. Málið er að Annica verður ekki skírð fyrr en á Íslandi um jólin. Til að fá skírn í kirkjunni þar sem Chris var skírður þurfa foreldrarnir að mæta í messu í hverjum sunnudegi í þrjá mánuði og það þótti þeim "to much". En það á semsagt að halda nafngiftarveislu og undirbúningur er í fullum gangi. Amma Kate er afar þróttmikil og skemmtileg kona og listræn í ofanálag. Sömu sögu má segja um Danielle, systur Chris, sem er að kenna hér í listaháskólanum og þær mæðgur eru að undirbúa sýningu sem verður á fjölunum í desember undir þemanu Mýrarljós.
En dagurinn var yndislegur og það kom í ljós að búið var að bjóða fleiri gestum til kvöldverðar svo heimsóknin varð umtalsvert lengri en ég hafði búist við. 12 tíma heimsókn er gríðarlega langur tími fyrir félagslega bæklaða týpu eins og mig. Þetta gekk samt ótrúlega vel.
Nú rignir í Reading og við erum bara heima við í rólegheitum, horfum á sjónvarp, lesum og höfum það náðugt. Ég er samt ferlega glöð að nú örli loks á sumri á Íslandi. Njótið vel.
Dægurmál | 30.5.2007 | 13:12 (breytt kl. 15:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26. maí.
Ég hef ótrúlegt lag á að villast í útlöndum, líka þar sem er eiginlega ekki hægt að villast. Hér í Reading rata ég auðveldlega gönguleiðina í bæinn en ákvað að finna mér kennileiti þar sem ég gæti farið úr vagninum ef ég tæki strætó. Hér á horni skammt frá er soldið vafasöm verslun sem heitir Devoted to Pleasure, og í glugganum gínur í latexgöllum í öllum regnbogans litum. Ég hélt að þetta gæti ekki farið fram hjá mér, en einhvernveginn missti ég samt af versluninni og fór allt of langt. Þegar ég steig út úr vagninum tók ég svo strikið í vitlausa átt og fékk út úr því klukkutíma göngutúr. Nú hef ég valið mér annað kennileiti á öðru horni sem er Herra Þorskur, og það hefur virkað vel. Ég talaði um það í öðrum pistli að ég þyrfti að forðast Boots-verslanirnar en finn það núna að þetta á við um miklu fleiri búðir. Það eru allstaðar útsölur en ég hef komið mér upp tækni sem felst í að stika göturnar með nefið upp í loft og horfa hvorki til hægri né vinstri. Annars gæti ég hæglega endað eins og svo oft áður með allskyns útsöluvarning sem er engum til gagns eða gleði. Sömuleiðs er ég hálfpartinn glöð að ég finn ekki Pleasure-verslunina því þá sæti ég trúlega uppi með latexgalla sem jafnvel klæddi mig ekkert sérstaklega vel og eitthvað þaðan af verra. Ég er alveg save með Mr. Cod, því djúpsteiktan þorsk borða ég ekki undir neinum kringumstæðum.
Í gærkvöldi pössuðum við ömmurnar, enska amma Kate og amma Edda, litlu prinsessuna meðan Anna Lilja og Chris skruppu í bæinn. Það gekk meiriháttar vel, barnið grét ekki neitt heldur horfði á okkur í forundran. Við vorum auðvitað hvor annarri fáránlegri og þið hefðuð átt að sjá þegar við í sameiningu klæddum barnið í nýjan samfesting, hjalandi allskonar barnagælur á tveim tungumálum, óstjórnlega klaufskar og einhvernveginn ósamhæfðar. Ekki furða að barnið væri hissa.
Það lítur ekki vel út með festivalið, spáð grenjandi rigningu og roki. Það er ekki bara á Íslandi sem hátíðarhöld fjúka út í veður og vind, en ég verð alltaf jafn leið barnanna vegna.
Dægurmál | 26.5.2007 | 11:58 (breytt kl. 12:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25. maí 2007
PS. Gleymdi að minnast á "date"-síðurnar í blöðunum sem detta hér inn um lúguna. Minnst opna á dag og ég sé ekki betur en Reading sé sneisafull af fjallmyndarlegum, gáfuðum, vel stæðum og skemmtilegum mönnum um fimmtugt sem eru að leita að konu eins og mér...
Dægurmál | 24.5.2007 | 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25. maí 2007
Við fórum í bæinn með prinsessuna í gær og á leiðinni varð ég skyndilega gripin ofurangist. Hitinn var gríðarlegur, gangstéttarnar þröngar, bílar, hjól og gangandi vegfarendur um allt og mengunin hrikaleg. Þetta hefur ekkert með mig að gera, ég hef alltaf elskað skítugar stórborgir og súra pöbba (eða þangað til ég skipti úr fjórföldum vodka yfir í kaffi). Allt í einu leið mér samt eins og ég yrði að pakka öllu mínu fólki inn og flytja það með mér upp í óbyggðir. Mér fannst tæplega mánaðargamalt barnið svo berskjaldað og fór að hugsa um allar hætturnar sem steðjuðu að, ekki bara henni heldur öllum sem ég elska. Þetta kemur yfir allar mæður, þessi löngun að pakka öllum inn í bómull og hafa þá á vísum stað. Ég jafnaði mig auðvitað á þessu vegna þess einfaldlega að það er ekkert annað í boði.
Við áttum svo yndislegan dag og í miðbænum stoppuðum við við gildan trjástofn sem Anna Lilja sagði mér að hefði verið sagaður niður, Chris og öðrum bæjarbúum til mikillar hrellingar. "Þetta var nefnilega uppáhaldstréð hans," sagði Anna Lilja, og við stóðum góða stund og dáðumst að 150 ára gömlum stofninum sem er afar sérkennilegur að lögun. Í dag las ég svo í bæjarblaðinu að tréð, sem var sagað niður af því að greinar þess voru hættulegar, væri lifnað við.
"Þetta 150 ára gamla Indian Been-tré sem í Reading er kallað "sýrutré" á sér merkilega sögu, en undir greinum þess áttu sér athvarf lukkulegir hippar sem reyktu kannabis og droppuðu guð veit hverju," stendur í blaðinu. Þrír sérfræðingar létu hafa eftir sér að tréð væri dautt en nú blómstrar það sem aldrei fyrr, uppgjafa gæru- og sýruhippum til mikillar gleði."
Ég þori ekki að spyrja Chris af hverju þetta var uppáhalds tréð hans.
Það hefur háð mér soldið í þessum göngutúrum að hnéð á mér er í hálfgerðu messi. Ég fór í aðgerð í maí sem virðist hafa misheppnast og mér er farið líkt og Dodda litla sem datt í dý og varð aldrei jafn góður í fótnum. Lesendum til glöggvunar læt ég fylgja með fyrsta vers af Doddavísum, ef svo ólíklega vildi til að einhver kynni þær ekki:
Doddi litli datt í dý
og meiddi sig í fótnum
hann varð aldrei upp frá því
jafngóður í fótnum.
Hvað um það. Hér í Reading verður mikið festival um helgina, skrúðgöngur og skemmtikraftar og ég hyggst taka þátt í því af lífi og sál og hætta að haga mér eins og ég sé önnur tveggja úr Tungunum, skíthrædd við bíla og fólk.
Dægurmál | 24.5.2007 | 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar ég yfirgaf Ísland upp úr miðjum maí leit helst út fyrir að ríkisstjórnin héldi og mér var slétt sama. Ég fæ reglulega upp í kok af þjóðinni minni, þrátt fyrir að ég sé sannkallaður föðurlandssinni og stolt af upprunanum. Nú berast þær fréttir að ný stjórn sé mynduð og ég get ekki annað en glaðst fyrir hönd Ingibjargar og Össurar sem fá nú ráðherraembætti þrátt fyrir að hafa verið hálf lost í kosningabaráttunni og reyndar allar götur síðan Ingibjörg var kosin formaður. Vonandi að þetta viti á gott. Það er dapurlegt þegar maður missir trú á heila þjóð, og það sína eigin. Þjóð sem alltof oft minnir á ráðvilltan og bólugrafinn ungling sem hefur ekki hugmynd um hver hann er né hvað hann ætlar að verða. Fullur minnimáttarkenndar grípur hann til stærilætis sem er í skásta falli brjóstumkennanlegt og reynir í örvæntingu að fela bólurnar og falla í kramið. Æ svei. En ég nenni ekki að ergja mig á þessu núna. Ég er nefnilega stödd í Englandi, nánar tiltekið Reading. Ég er óskaplega svag fyrir Bretum, finnst þeir ljúfir og skemmtilegir og algjörlega lausir við að taka sjálfa sig hátíðlega. Þeir eru líka alltaf til í góðlátlegt spjall, hvort sem er á strætóstoppistöðinni, búðinni eða kaffihúsinu. Ég má til (fyrst ég er byrjuð að nagga á annað borð) að segja frá því að ég hef nú þegar hitt þrjá Breta sem höfðu heimsótt Ísland. Ekki einn einasti hafði orð á því hvað landið væri fagurt og frítt, hvað þá heldur þegnarnir, en verðlagið ræddu þeir gjörsamlega ofandottnir. "Þið hljótið öll að vera milljarðamæringar með geðveik laun" sögðu þeir. Ég hristi höfuðið en hafði hvorki orku né getu til að útskýra fyrir þeim fáránleikann í íslensku hagkerfi.
En aftur að Reading. Ég kom hingað til að bjóða velkominn í heiminn nýjan einstakling, undurfagra snót, sem hefur fengið nafnið Annica Ísmey Lewis. Þetta er fyrsta barn dóttur minnar Önnu Lilju og mannsins hennar, Chris. Annica fæddist 28. apríl síðastliðinn og er fegurri og yndislegri en orð fá lýst. Pabbi hennar er fæddur í Reading en Anna Lilja og Chris kynntust í menntaskóla og voru saman í háskólanum í Brighton. Chris hefur lokið námi þar og er stærðfræðingur, en Anna Lilja gerði hlé á námi sínu í Evrópufræðum og ætlar að halda áfram hér í Reading þegar tækifæri gefst til.
Reading kemur á óvart. Þetta er vinalegur bær, um það bil 40 mílur vestur af London. Hér hefur verið gert heilmikið fyrir miðbæinn, notaleg kaffihús eru meðfram kanalnum og bærinn státar af gríðarstóru "molli" kenndu við véfrétt, nefnilega Oracle. Ég sem hef krónískt ofnæmi fyrir mollum hef slysast þarna inn nokkrum sinnum og eins og lög gera ráð fyrir týnist ég umsvifalaust í Véfréttinni og rata ekki út fyrr en eftir dúk og disk. Sem er slæmt. Líka að stærsta Boots-verslunin er þarna inni og ég þarf að taka á mig stóran krók til að forðast Boots. Ég bara missi mig í þessari verslun og langar í allt. Segi og skrifa ALLT. En bæði vantar mig ekkert og svo er ég blönk eins og alltaf. Fór samt í 99 pensa búðina og keypti eftirfarandi: Sjampó fyrir blondínur sem kostar á annað þúsund heima. Þrjár tegundir af vítamínum, þrjá ljóta öskubakka (þeir einu sem voru til), tveggja lítra kók, heilsukex, 10 extra-tyggjó í magnpakkningu, útikertalukt og kerti. Samtals: 9 pund og 30 pens. Vá!!!!
Útikertið var afar mikilvægt. Húsmóðirin hér, sem á þennan líka fína garð, hefur aldrei getað vanist skordýrum og er því ekki mikil garðkona. Þar sem reykingar verða að fara fram utandyra er þó nauðsynlegt að geta setið úti. Á verkfæraskúrnum sem er alveg upp við húsið hafði köngulóin frú Esmeralda spunnið hinn fegursta vef og undi hag sínum vel. Anna Lilja tók þetta sambýli ekki í mál og dag nokkurn þegar frú Esmeralda hafði brugðið sér af bæ sópaði húsbóndinn vefnum burt. Nóttina eftir kom frú Esmeralda aftur og endurbyggði heimili sitt af enn meiri natni og hafði boðið vinkonu sinni, fröken Daisy, hina hliðina á skúrnum. (Sjá myndir af Esmeröldu hér inni á myndavefnum, Daisy, sem er aðeins minni en sýnu ljótari, var ekki heima þegar myndirnar voru teknar.) Svo eru það loðnu lirfurnar sem búa í rósarunnanum í fjærsta horni garðsins. Þær eiga það til að bregða undir sig betri fótunum og heilsa upp á við reykingaborðið. Anna Lilja verður óð í orðsins fyllstu merkingu og þó Chris sé alltaf að benda henni á að bráðum verði lirfurnar að fegurstu fiðrildum lætur hún ekki segjast. "Þetta verða þá bara loðnar, ljótar lirfur með flotta vængi," segir hún. Og það er líka sjónarmið. (Sjá mynd af frú Loðinlirfu á myndasíðu.)
Nú kveikjum við á kerti á kvöldin svo engin hætta sé á við setjumst berlæraðar á loðnar lirfur. Og vinkonurnar á veggnum eru undir eftirliti. En nóg í bili. Sumarið er hér og tími til kominn að tölta í bæinn með fegurðardísina í vagninum.
Dægurmál | 23.5.2007 | 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
gamalt og gott
Fólkið mitt
- Eldra blogg annarstaðar Bloggfærslurnar mínar meðan ég vann á eyjunni
- Halla mín
fólk
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 932
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar