27. september.
Skrýtið hvað mér þykja þetta karakterlausar dagsetningar, tuttugasti og eitthvað september. Álíka karakterlaust og "mótvægisaðgerðir" ríkisstjórnarinnar í öllum mögulegum og ómögulegum málaflokkum. En hvað um það.
Mér berast sms hvaðanæva að um að vera í rauðu á morgun og sýna með því stuðning við búddamunkana sem mótmæla í Burma - eða Myanmar - fer eftir því hvort maður samþykkir nýtt nafn herstjórnarinnar eða ekki. Mér finnst það ekkert nema sjálfsagt að vera í rauðu, þ.e. ef ég á eitthvert klæðisplagg í þeim lit.
Ásamt þessum sms-áskorunum, sem komu meðal annars frá Finnlandi (þeir sem hafa lesið þetta blogg vita að Finnland er uppáhaldsland) fékk ég líka tölvupósta frá "þúsundvatnalandinu" og verð að sýna ykkur soldið skemmtilegt.
Ég kynntist nefnilega ekki bara skallapopparanum fræga Danny K, heldur líka ungum bónda sem var einn af kandidötunum í einskonar finnskum "bachelor"-þætti. Málið er að strákarnir í sveitunum eru stelpulausir og til að fá stelpur í sveitina var hrundið af stað sjónvarpsþætti, "A bride for the farmer", þar sem Sami (þessi á myndinni) var einn af mörgum þátttakendum. Þátturinn fór af stað síðastliðinn sunnudag og Sami reyndist langvinsælastur, fékk 282 bréf (sem er met í þættinum) frá allskonar konum sem vilja ólmar giftast honum. Það merkilega er að við Sami hugleiddum lengi í sumar hvort við ættum ekki bara að gifta okkur og hefðum trúlega slegið til ef hann væri ekki svona hrikalega ungur og ég úr barneign. Ég ætla líka að upplýsa hér um finnskt leyndarmál.
Í Finnlandi eru karlmenn metnir eftir því hvað þeir eiga stóra jörð og mikið af trjám. Þeir sem eru forríkir og eiga gommu af skógi líta samt ekki út fyrir að vera baun ríkari en hinir, ermarnar á skyrtunum þeirra eru trosnaðar og þeir ganga í slitnum, ljótum fötum, svo maður verður eiginlega að hafa einhvern í liði með sér sem veit hversu vel stæðir þeir eru. Svo mætir maður bara á sveitaballið og daðrar lymskulega við þá og þá getur maður endað sem forrík bóndakerling í Finnlandi. Það er nú ekki flóknara en það. En ég ætla að setja hér inn á vefinn (sjá neðar) mynd af mér og Sami og þeir sem vilja sjá blaðafréttina um það hvernig hann er að slá í gegn klikka á tengilinn hér við hliðina, Sami.
Dægurmál | 27.9.2007 | 22:27 (breytt kl. 23:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24. sept.
Hafi ég fengið elskhuga í heimsókn á föstudagseftirmiðdaginn var það æðislegt. Ég er samt ekki að halda því fram að hann hafi komið. Það er bara möguleiki. Ég var að minnsta kosti í rífandi góðu skapi alla helgina. Og talandi um elskhuga. Vinkona mín, sem ferðaðist mikið með sínum manni til útlanda, sagði mér einu sinni að hún pantaði alltaf eftirmiðdagsflug. Það var til þess að þau hjón gætu "gert það" áður en lagt var af stað. Hann varð allur svo miklu meðfærilegri í fríhöfninni, sagði hún. Og á ferðalaginu yfirleitt.
Ég fór í frábært teiti á laugardagskvöldið, hitti gamlar samstarfskonur af Fréttablaðinu og Birtu. Það vantar ekkert upp á að starfsfólkið sé yndislegt í Skaftahlíðinni, hvaða skoðun sem maður hefur svo á 365. Það er bara allt önnur Ella. Ég set inn mynd af þessum glæsilegu konum, Steinunni, Siggu, Brynhildi, Kristínu Evu, Gunnþóru, Tótu, og Arndísi. Fegurri gerist ein deild bara ekki.
Þær eru farnar að sjá um barnatíma á RÚV Brynhildur og Kristín Eva og gera það örugglega með bravör. Þetta eru svo miklar barnakellingar. Ég var samt að hugsa um það í morgun þegar ég hlustaði á Stefán Jón lýsa skólabörnunum í Namibíu, að það væri eitthvað mikið að á þessu landi. Stefán Jón minntist á að 20% íslenskra barna væru greind með einhverskonar athyglisröskun og spurði bara si svona af hverju það sama væri ekki upp á teningnum í Namibíu. Þrátt fyrir fátæktina ríkir þar gleðin ein, börnin bera virðingu fyrir kennurunum, fara í röð prúð og frjálsleg í fasi, og gegna með brosi á vör. Ég nenni ekki að kryfja það hér og nú en það hefur eitthvað mikið misfarist á undanförnum árum í þessu guðsvolaða landi. Best gæti ég trúað, og gerist nú afar djúp, að það hafi með gegndarlausa græðgina að gera.
Dægurmál | 24.9.2007 | 12:01 (breytt kl. 12:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21. september.
Jamm. Ég ætla að byrja á að biðja þá yndislegu bloggvini mína afsökunar sem brugðust skjótt við og gáfu sér tíma til að svara spurningum í leikhúskálf Moggans, sem birtust svo aldrei. Öllu skemmtilegu aukaefni var hent út vegna plássleysis, sem er alltaf jafn dapurlegt.
Ég var að tala um það um daginn að ég væri í haustóyndiskasti, en ég veit ekki nema ég sé búin að leysa það. Spennan og kikkið er svo mikilvægt svona týpum eins og mér þannig að gráir dagar sem renna út í eitt eru ekki að gera sig. Nú er ég ekkert að fullyrða að ég hafi leyst þetta með skemmtilegum elskhuga, sem er væntanlegur einmitt núna, en það gæti auðvitað alveg verið. Af því ég er ekki heldur að segja að ég hafi EKKI leyst þetta með skemmtilegum elskhuga sem er væntanlegur einmitt núna.
Ef ég ætti nú von á elskhuga innan tíðar, er ég að velta fyrir mér hvernig best sé hafa þetta. Þessi sterka sól er svo agalega afhjúpandi og maður er nú ekki alveg hnökralaus eins og það heitir, eftir öll þessi börn og jó jó-megrunarkúra. Það hentar mínum aldri betur að stunda svona inniíþróttir í roki og rigningu svo hægt sé að hafa lampaljós og kerti sem gera allar línur mýkri og blíðlegri. Og ef ég ætti í alvöru von á elskhuga væri líka skemmtilegra að allt ilmaði af exótískum olíum frekar en gamalli reykingalykt, en það verður ekki á allt kosið. Ilmkerti gætu kannski gert eitthvert gagn og geðveikt góð bodýlotion. Og ef ég ætti von á elskhuga gæti ég reynt að draga soldið fyrir sterkustu sólargeislana og setja mig í sexý stellingar í rökkrinu. Það er ýmislegt sem ég gæti gert ef ég ætti von á elskhuga á miðjum degi í glampandi haustsólinni..... Ef og ef og ef.......
Dægurmál | 21.9.2007 | 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14. september.
Heyrði í fréttunum í gær að bankarnir væru að bjóða bestu viðskiptavinunum í lúxusreisur. Ég fór strax að blaða gegnum umslögin mín til að tékka hvort boðskort á Scala hefði farið fram hjá mér. Bankarnir sem um ræðir eru að mig minnir Kaupþing og Glitnir, en no way að ég muni hvaða bankar hafa runnið saman í allskonar nýja banka og svo enn nýrri banka með enn nýrri nöfnum. Veit bara að ég var vanskilapési í allskonar lánastofnunum og hef örugglega í ferlinu við að koma öllu í skil borgað íbúðaverð og rúmlega það í lögfræðistofur bankanna og skuldbreytingar lána. Það vantaði ekki að þeir væru tilbúnir að semja þessar elskur, en aldrei upp á neitt sem ég réð við.
Sem þýddi að hraðar en auga á festi fór allt í sama farið og enn var samið og skuldbreytt og borgaður kostnaður á kostnað ofan. Nú er ég lífstíðareign bankanna og get trúlega aldrei framar um frjálst höfuð strokið. Þess vegna hélt ég kannski að ég væri í soltlu eftirlæti...
En andskotann að ég nenni að ergja mig á því núna. Ég á hvort sem er ekkert dress boðlegt á Scala. Ég á hins vegar fullt af frábærum óperudiskum sem ég get hlustað á í náttfötunum við kertjaljós og klæðin rauð - og reykt eins og mig bara lystir á meðan. Helv. reykingabannið er að gera mig að útlaga í þjóðfélaginu, glætan að ég setjist inn á kaffihús reyklaus eða hími úti í slagveðrinu með kaffibollann.
Ég hef þjáðst af óskilgreindu haustóyndi síðustu daga, eins og mér finnst þessi tími alltaf kósý. Það er í mér eitthvert eirðarleysi og löngun í forboðin ævintýr til að gleðjast yfir á elliheimilinu. Ég ætla að reyna að hrinda þeim í framkvæmd hið snarasta svo óyndið snúist ekki upp í eitthvað annað og verra.
Var að horfa á Bjarna Harðar og Róbert í Kastljósinu áðan og verð sífellt stoltari af mínum manni, Bjarna. Ef hann væri ekki í svona arfaglötuðum flokki myndi ég kjósa hann hvar sem væri í hvað sem væri. En nú ætla ég að greiða sjálfri mér atkvæði í sófann góða og horfa á vin minn Wallander, hinn sænska, og taka svo nokkrar aríur áður en ég fer að sofa.
Dægurmál | 14.9.2007 | 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7. september.
Mér eru konur á miðjum aldri svo hugleiknar þessa dagana. Kannski vegna þess að ég hef átt samtal við svo margar konur undanfarið sem eru þreyttar, leiðar, jafnvel svolítið vonlausar og smeykar við framtíðina. Það eru til margir hópar af miðaldra konum, sumar eru bara að gera það gott, fullar af starfsorku og gleði, sumar eru í þægilegri sátt, en hópurinn sem ég er að tala um eru konur sem hafa einhverra hluta vegna strögglað á krókaleiðum sínum að fimmtugasta afmælisdeginum, átt börn ungar, verið einar meira og minna eða farið illa út úr skilnuðum, barist í bökkum fjárhagslega, borið ábyrgð á öllu og öllum (sjálfskipað hlutverk) og eru svo bara búnar á heila klabbinu.
Það hefur verið lafað í því allan tímann að um fimmtugt fari lífið að blasa við, en svo gengur það bara ekki eftir. Þetta á ekki að vera beiskt svartagallsraus, og ég vona virkilega að það skiljist ekki þannig, en ég hef soldið verið svona kona. Núna er ég þreytt og svo einkennilega áhugalaus. Það sem er að gerast í þessu landi hreyfir eiginlega ekkert við mér, ég hef ekki almennilega vitað í langan tíma hvað mér finnst um Káraknúka, virkjanaframkvæmdir, álver upp um allar hlíðar, jarðgangagerð, dreifbýlið, kvótann, og Vatnsmýrina, ég sem lét mig aldrei vanta í Keflavíkurgöngu. Og mér gæti ekki staðið meira á sama um hvaða milljarður skiptir um eiganda hverju sinni. Ég nenni ekki að vita hver tilheyrir hvaða group.is og hef engan áhuga á því sem hin þjóðin í landinu, þessi með Elton John-syndrómið, er að bardúsa.
Þetta er náttúrlega ótækt fyrir blaðamann. Ég hef hinsvegar áhuga á alvöru fólki.
Ég fór á sinfóníutónleileika í gærkvöldi sem er ekki beint í frásögur færandi. Nema af því að það hrærði upp í gamalli minningu sem ég ætla að segja frá hér og gerist nú óþolandi montin.
Þegar ég var um það bil tíu ára voru öll skólabörn skikkuð á tvenna sinfóníutónleika, aðra fyrir áramót og hina eftir.
Á fyrri tónleikunum var efnt til samkeppni, sem fólst í að skrifa ritgerð um persónulega upplifun á tónleikunum og teikna mynd. Þetta gerði ég snarlega þegar ég kom heim og gleymdi svo "med det samme". Þegar leið að seinni tónleikunum kom yfirkennarinn inn í stofuna, svona rétt til að minna á tónleikana og fullvissa sig um að allir ætluðu að mæta. Það ætluðu allir að gera það nema ég sem var á leið til tannlæknis. Það varð uppi fótur og fit, tannlæknatímanum var frestað og ég send á tónleikana í grænblárri crebdrakt!!!!! Það var sko enginn annar uppáklæddur á þessum tónleikum. Á leiðinni í Háskólabíó sagði bekkjarsystir mín upp úr eins manns hljóði að ég hefði örugglega unnið þessa keppni. Ég hafði ekki svo mikið sem hugleitt það. En þar sem ég stóð í bíóinu og horfði yfir fullan salinn hugsaði ég með mér: "Hver af þessum krakkagrislingum hefði svo sem átt að hafa roð í mig?" Og settist svo niður í fokking dragtinni og beið eftir að nafnið mitt yrði kallað upp og ég fengi að stjórna sinfóníuhljómsveitinni, sem voru verðlaunin.
Ég hef stundum undrast á síðastliðnum árum hvað varð um þetta sjálfstraust. Hvað varð um þessa heilbrigðu og góðu sjálfsímynd? Ég á ekki svar við því, en sennilega eru leifarnar á skrifstofum hinna og þessara bankastjóra og lögfræðinga, eitthvað hjá glötuðum karldulum sem fannst maður ekki nógu góður, sumt í vanmættinum þegar maður var ekki að standa sig gagnvart börnunum sínum, vinum og vinnuveitendum. Þetta er dreift út um allar trissur.
En stelpur. Maður getur öðlast þetta sjálfstraust á ný og ég hef persónulega fundið það skila sér hægt og sígandi. Ég var til dæmis að lita á mér hárið áðan, eins og ég geri alltaf, og oftar en ekki mislukkast það og verður gult eða orange þangað til ég er búin að setja í það þrjá, fjóra liti.
Í kvöld, þegar ég þvoði úr lit númer tvö, fann ég að hárið var allt að losna, eitthvað sem ég er búin að reikna með að hljóti að gerast fyrr en síðar. Ég hef barasta engar áhyggjur af þessu. Veit samt einhver um flotta hattabúð?
Í lokin: Tónleikarnir í gær voru geðveikir. Mozart og Atli Heimir fóru bókstaflega á kostum og ég hefði ekki viljað misa af Vorblóti Stravinskíjs fyrir nokkurn mun þó ég skilji mætavel tónleikagesti við frumflutninginn sem æptu og slógust og hentu öllu lauslegu í hljómsveitina, meðan tónskáldið flúði skelfingu lostið út um glugga á tónlistarhúsinu. Sérlega geðvonskulegt verk, en áhrifamikið.
Dægurmál | 7.9.2007 | 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30. ágúst.
Ég eignaðist óvænt og ánægjulega nýjan bloggvin í dag, sem minnti mig á að ég er með bloggsíðu sem ég vanræki af algjöru samviskuleysi. Ég hef verið að taka að mér allskonar verkefni og akkúrat núna er ég með eitt sem er gjörsamlega vaxið mér yfir höfuð - þó ég myndi fyrr deyja en viðurkenna það.
Nú er bara að standa meðan stætt er og treysta á að allt gangi upp á lokasprettinum. Þetta fer að minnsta kosti örugglega einhvernveginn.
Það þýðir hins vegar að Vindáshlíðardvöl okkar mæðgna frestast um ár. Við erum ægilega spældar yfir því og ætlum í alvöru að halda Vindáshlíðarkvöld fyrir okkur tvær þó allir sem við þekkjum hafi lýst því yfir að við séum nördar af ömurlegustu sort. Sjálfir geta þeir verið nördar. Maður á að varðveita barnið í sér og ... jæja, hvað um það.
Ég fór á Snæfellsnes um síðustu helgi og fékk haustið soldið í æð, en síðasta daginn skein sólin skært og við Palli, sonur minn, nutum veðurblíðunnar í botn. Hann hljóp upp um fjöll og firnindi, gekk strandir og tíndi ber og orkusteina meðan ég gerði meira svona ekki neitt. Og talandi um nörda. Á leiðinni heim spiluðum við Karlakórinn Heimi í botn, ættjarðarlög og gleðisöngva, og ég fer bara ekki ofan af því að ekkert er jafn vel við hæfi þegar maður ekur um íslenskar sveitir í blíðunni.
Nú er ég að hugsa um að halda áfram verkefninu sem er að sliga mig og notfæra mér eitthvað af bloggvinunum, senda á þá lítinn og skemmtilegan tölvupóst með örfáum spurningum...
Set inn nokkrar myndir af Snæfellsnesinu.
Dægurmál | 30.8.2007 | 16:25 (breytt kl. 16:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21. ágúst.
Ég naut menningarnætur á á eigin forsendum. Nú er ég komin á þann aldur að gera allt á eigin forsendum. Í fyrsta skipti í sögu þessa dags hafði ég skipulagt mig vel og það er langbest að vera einn á randi, þá lendir maður ekki í einhverju dilemma við fólk um hvert á að fara næst o.s.frv.
Ég var með barnabörnin mín Lilju Maren og Jón Breka í næturgistingu á föstudagskvöld og við skemmtum okkur konunglega. Á menningardaginn, þegar foreldrarnir risu úr rekkju og sóttu ungana sína, fór ég af stað. Það sem stendur upp úr eftir daginn er löng eftirmiðdagsstund við Söngskólann í Reykjavík þar sem hinir ýmsu kórar komu fram og gestir sungu saman fjöldasöng á milli. Havnakórið (minnir mig að "það" heiti) frá Færeyjum rak lestina og stjórnandinn fékk alla í færeyskan hringdans. Það þótti mér æðislegt. Svo lá beinast við að rölta upp í Hallgrímskirkju og syngja sálma um stund. Ég hafði hugsað mér að hlusta á Ragga Bjarna og Helenu Eyjólfs en þegar sólin settist var mér orðið skítkalt og fór heim. Ég fer ekki lengur á kaffihús þar sem ég get ekki iðkað mína uppáhaldsiðju, reykingar. Heima hellti ég upp á kaffi, kveikti á kertum og lagðist endilöng í sófann með allt eitrið. Mmmmm....
Í gær skráði ég svo mig og Höllu dóttur mína í konuflokk í Vindáshlíð. Okkur hefur alltaf langað að gera þetta og eina sem skyggir á tilhlökkunina er að Anna Lilja kemst ekki með.
Ég var ægilega mikil Hlíðarstúlka á sínum tíma. Ástæðan var kannski sú að mig langaði í alvöru sveit en þar sem ég var gróflega ofverndaður krakki harðneitaði mamma að senda mig í sveit til fólks sem hún vissi engin deili á. Þetta sagði hún um leið og hún setti upp Akureyrarsvipinn. Það leggur enginn í mömmu þegar hún setur upp svipinn þann. Hún hafði sjálf vonda reynslu af sveitavist í æsku og Þóra vinkona mín, sem nú er orðin forstöðumaður Blindrabókasafnsins, heldur því fram að þetta hafi verið mín gæfa. Hún á líka hroðalegar minningar frá sinni sveitavist. En ég fékk sem sagt að fara í Vindáshlíð í staðinn.
Og þar ríkti að sjálfsögðu gleðin ein. Ég fékk að fara í marga flokka á sumri og geri bara ráð fyrir að ég hafi verið eftirlæti starfsfólksins. Helstu bömmerarnir voru þessi skipti sem ég sleit rafmagnsgirðinguna þegar ég ætlaði að skutla mér eftir boltanum, sem átti til að rata inn í reitinn sem var forboðinn kindum í Kjósinni. Einu sinni klifraði ég yfir skilrúmið milli klósettanna og datt illa á klósettsetuna sem mölbrotnaði. Og þegar ég fékk þá virðingarstöðu að bera allt matarkexið í gönguferð upp á Sandfell þreyttist ég á leiðinni og settist á kexpokann. Það var svo dreift kexmylsnu síðar í ferðinni og ég mér leið soldið pínlega á meðan. Að öðru leyti gekk allt vonum framar. Og af því ég er svo afspyrnu gamaldags sál fannst mér æðislegt að syngja Vindáshlíðarsöngvana, sem ég er þegar byrjuð að rifja upp. Nú ætla ég að kaupa mér litabók og liti og svo verður bara æðislegt að verða aftur lítil stelpa í Vindáshlíð og syngja í keðju:
Ég sat um kveld og söng í ró og næði,
við sólareld og gullin skógargöng
og fuglar blíðast kvökuðu sín kvæði....
Og svo framvegis.
Það sem skyggir á gleðina núna er sorgarfregn sem ég fékk í gækvöldi. Það var fregn um ótímabært lát ungrar og fallegrar stúlku í fjölskyldu sem er mér afar kær. Ég finn til vanmáttar og óendanlegrar sorgar. Í einhverju ljóði, sem ég kann ekki almennilega, kemur þessi setning fyrir:
"Ég vildi geta vafið öllum vorylnum að hjarta þínu". Þannig líður mér. Ég vildi geta vafið alla hennar aðstandendur yl og von. Hugurinn er hjá þeim.
Dægurmál | 21.8.2007 | 12:06 (breytt kl. 12:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12. ágúst
Þetta heitir nú að lofa upp í ermina á sér, að ekki sé meira sagt. Hér hefur enn ekkert leiftrandi og skemmtilegt verið á ferðinni, en ég átti þó yndislegan dag í gær.
Halla litla, yngsta barnið mitt, varð 25 ára í gær og nær þar með eldri systur sinni, Önnu Lilju, í rúma viku. Anna Lilja verður ekki 26 fyrr en næsta sunnudag. Þar sem systkinin öll nema Halla voru stödd í Englandi og Elías eiginmaður hennar í Danmörku á vegum vinnunnar, stóð það upp á mig og litlu krílin hennar ásamt mömmu minni að gera henni daginn eftirminnilegan.
Við Halla og krakkarnir tókum þátt í Gay Pride í góða veðrinu og fórum svo í lambasteik til mömmu. Að því búnu fór Halla í teiti til vinkvenna sinna en ég og krakkarnir, Lilja Maren, 6 ára, og Jón Breki, 5 ára, fórum heim til þeirra til að eyða kvöldinu saman. Lilja og Jón eru að sjálfsögðu algjörar stjörnur sem vefja mér um fingur sér, enda eina reglan þegar amma passar að það séu engar reglur. Á endanum vorum við öll í hjónarúminu, Jón Breki með tölvuna, og sýndi ótrúlega leikni í leikjunum sínum (sem ég verð að taka fram að eru eingöngu saklausir leikir hannaðir fyrir börn, annars konar leikir eru stranglega bannaðir), og við Lilja Maren að spila. Hún vildi kenna mér allskonar útgáfur af þekktum spilum sem ég veit ekki hvort hún hefur fundið upp sjálf eða eru til í raun og veru. Reglurnar voru að minnsta kosti grunsamlega sveigjanlegar þegar hún var í tapstöðu enda vann hún alltaf.
"Ef við spilum eitt enn er möguleiki að þú vinnir," sagði hún þegar ég vildi hætta.
"Það er ekki líklegt," sagði Jón án þess að líta upp úr tölvuleiknum. "Hún er orðin það gömul."
Og það gekk eftir. Ég vann ekki eitt einasta spil. Halla kom snemma heim, nennti ekki í bæinn á djammið og kennir aldrinum um!!!
Ég set inn nokkrar myndir af ljósunum mínum í Jörfabakkanum, þar á meðal úr hjónasænginni þar sem tapið mitt stóra fór fram.
Ég er ekki mikið fyrir að nagga, það eru nógir aðrir um það, en get eiginlega ekki orða bundist vegna þjónustu á íslenskum veitingastöðum. Ég átti tal við Svía fyrir nokkru sem hélt því blákalt fram að hvergi á veitingastað á Íslandi væri boðlega þjónustu að hafa. Íslendingar kynnu einfaldlega ekki að þjónusta fólk. Ég maldaði í móinn og benti á dýra, flotta staði sem mér fannst að hlytu að gera þetta með stæl. En nei, hann stóð fastur á sínu.
Undanfarið hef ég svo upplifað þetta af eigin raun. Biðin eftir þjónustu getur teygst upp í hið óendanlega og svo, löngu eftir að pöntun hefur loks verið tekin niður, líður heil eilífð þangað til kaffibollinn manns, eða hvað það nú var sem maður ætlaði að fá, er borið á borð. Þar sem ungmenni eru við afgreiðslu er oft eins og allir gangi um í leiðslu án þess að nokkuð markvisst sé að gerast og þó æðruleysi sé eitthvað sem ég æfi reglulega, er ég að missa mig af pirringi yfir þessu.
Getur verið að veitingahúsaeigendur séu að spara með því að hafa ungt fólk á lágum launum í vinnu, sem þar af leiðandi hefur engan metnað og ypptir bara öxlum þegar maður kvartar? Þarna held ég þeir séu að skjóta sig í fótinn því ég fer að minnsta kosti ekki tvisvar á veitingahús sem býður upp á lélega þjónustu. Þaðan af síður hika ég við að segja vinum og vandamönnum frá þessum stöðum.
Dægurmál | 12.8.2007 | 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9. ágúst.
Það er varla hægt að segja að nokkurt lífsmark sé á þessari síðu, sem gengur auðvitað ekki ef maður ætlar að gera sig gildandi.
Ég hef bara haft svo helv. mikið að gera við að gera ekki neitt eftir að ég kom heim. Dagarnir líða hjá í allskyns reddingum og svo sit ég andlaus eftir. Það tekur mig alltaf a.m.k. viku að lenda eftir langa fjarveru, stundum hálfan mánuð. Það þarf að komast inn í tempóið og fá yfirsýn yfir það sem hefur verið að gerast heima (sem mér sýnist reyndar hvorki margt né merkilegt).
Nú ætla ég að rífa mig upp á hnakkadrambinu og hætta að vera svona neikvæð, sljó og andlaus. Skrifa hnyttnar og skemmtilegar sögur úr hversdagslífinu og hafa skoðanir á allavega sumu eða einhverju. Enn er þó ekki nógu langt liðið á daginn til að leiftra af andagift svo ég geri kannski aðra tilraun í kvöld.
Þekkir fólk þetta með þreytuna eftir fríið og fjarveruna?
Dægurmál | 9.8.2007 | 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4. ágúst.
Ísland. Landið mitt Ísland, sem ég elska svo heitt en vekur þó alltaf hjá mér óskilgreinda og skrýtna depurð.
Það var samt gott að koma heim. Landið var fagurt og frítt úr flugvélinni séð og mér var vel fagnað af þeim í lífi mínu sem skipta máli. Mömmu heimsótti ég strax og Jóhann son minn, sem er eina barnið mitt heima í augnablikinu. Ömmustrákarnir mínir þar, Hinrik og Haraldur, knúsuðu ömmu sína hraustlega þó krakkarnir á leikvellinum hafi að sjálfsögðu heillað meira. Þeir potuðu í bumbuna á mömmu sinni og sögðu mér að þar biði litla systir rétta tímans til að fæðast. Þeir hafa þó ekkert fyrir sér í því. Það gæti allt eins orðið lítill bróðir. Barnið á að fæðast í nóvember, en Anna og Jóhann kunna bara að búa til nóvemberbörn. Jóhann er sjálfur fæddur 21. nóv., Hinrik 20,. og Haraldur 22. Nýja barnið er væntanlegt á svipum tíma. Jóhann og Anna eru á leið til Englands með strákana að heilsa upp á Annicu litlu frænku sína eftir viku.
Ég kvaddi litlu fjölskylduna í Englandi með tárum og sakna hennar nú þegar. Seint í gærkvöldi kom svo Halla yngsta dóttir mín heim til Íslands frá Póllandi með ljósin mín tvö, Lilju Maren og Jón Breka. Ég get varla beðið eftir að hitta þau í dag. Sonur minn Páll er í Sviss með dóttur sína Daníelu og hann er líka á leið til Englands að heilsa upp á Annicu og ekki væntanlegur heim fyrr en 14. ágúst. Þannig að fjölskyldan er svona soldið út og suður og sameinast ekki öll fyrr en um jól þegar Anna Lilja kemur heim. Þá á að skíra Annicu Ísmey Lewis og líklegt að amma og afi í Bretlandi ásamt hinum ýmsu töntum fylgi með. Bretana langar að sjá alvöru gamlárskvöld og vilja þar að auki ekki fyrir nokkurn mun missa af skírninni.
Vinir mínir hafa líka tekið mér fagnandi sem var yndislegt og þrátt fyrir rigningarspá fékk ég tvo dýrðlega sólardaga þegar ég kom heim. Ég er í fúlustu alvöru að reyna að vera jákvæð og sjá landa mína í fallegu ljósi, en það er alltaf áreynsla. Ísland er fullt af yndislegu fólki, en það er eitthvað við hugsunarhátt stórs hluta þjóðarinnar sem fer í taugarnar á mér. Eitthvað sem á skylt við forpokun og heimóttarhátt, minnimáttarkennd í bland við stórmennskubrjálæði og sjúklegan ótta við að vera ekki eins og allir hinir. Enda höfum við alltaf talað illa um þá sem að einhverju leyti skara fram úr eða skera sig úr.
Fyrir framan mig í flugvélinni var enskumælandi Spánverji að spjalla við Englendinga sem voru að koma hingað í fyrsta sinn. Ég hlustaði með athygli því Spánverjinn hafði greinilega komið til Íslands áður og naut þess að fræða Englendingana. Það er alltaf gaman að reyna að sjá Ísland með augum útlendingsins og það fór ekki milli mála að Spánverjinn var heillaður af landinu. Hann lýsti náttúruperlum landsins af þvílíkri innlifun að Englendingarnir störðu á hann opinmynntir af undrun og ánægju og ef það hefði verið hægt að skrúfa niður rúðurnar í flugvélinni hefðu þau öll hangið hálf út um gluggann.
Í rútunni frá Keflavík hélt fyrirlesturinn áfram og enn hélt ég áfram að horfa á landið með augum gestsins. Og vissulega er það fallegt og frábrugðið. Ég reyndi að láta sem ég hefði aldrei séð hraun áður, hvað þá Hafnarfjörð, Garðabæ eða Kópavog, og Perlan varð bara stórkostleg undir ræðu Spanjólans. Nú vona ég af öllu hjarta að þetta fólk njóti verunnar hér og beri okkur vel söguna þegar það kemur heim aftur. Að virðingarleysi við náttúruna og smáborgaraháttur verði ekki það sem stendur hæst í minningunni. Eða verðlagið!!!
Dægurmál | 4.8.2007 | 08:57 (breytt kl. 09:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
gamalt og gott
Fólkið mitt
- Eldra blogg annarstaðar Bloggfærslurnar mínar meðan ég vann á eyjunni
- Halla mín
fólk
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar