Stórir karlar

Verð að gera athugasemd við færslur um að ég sé grey sem geti bara flutt á land. Ég get búið hjá dóttur minni í Englandi og unnið þar um tíma. Ég hef engar áhyggjur af að ég muni ekki bjarga mér eins og ég er vön. Svo geta menn snúið út úr ef þeim finnst þeir menn að meiri.

Bloggari fluttur um set

5. desember.

Ég hef steingleymt að segja mínum ágætu bloggvinum og öðrum velunnurum að ég hef flutt bloggið mitt á eyjuna.is þar sem ég er blaðamaður.

Ekki það að ég hafi verið dugleg að blogga, en það stendur alltaf til bótaWoundering.

Ég mun fylgjast með ykkar færslum sem fyrr og sendi knús og kossa.

 


Kannski var flottasta Eddan afhent um helgina - nefnilega ég

11. nóvember.

Nú er verið að afhenda Eddur hægri vinstri í sjónvarpinu. Þá Eddu sem "hér heldur á penna" fær þó enginn afhenta, nema elskhuginn hafi um helgina fengið hana óskipta og þá ekki í samkeppni við nokkurn mann. Enda er hann langbestur og skemmtilegastur, að ekki sé talað um fimina í ... já, hérna, einmitt...

Annars hef ég engan áhuga á hinni eiginlegu Eddu-verðlaunaafhendingu nema hvað ég er arfaglöð að Egill skyldi valinn sjónvarpsmaður ársins. Hann er svo tvímælalaust bestur. Menn hafa reynt að apa hann eftir í hinum og þessum þáttum, en aldrei haft erindi sem erfiði. Og rétt í þessu fékk hann verðlaun fyrir Kiljuna. Jess. Til hamingju, Egill!!!!

Í síðasta Kiljuþætti var Egill með Sigurð Pálsson í viðtali og þar ræddi Sigurður um ástar/haturssamband sitt við Ísland og Frakkland.

Ég á sjálf í gríðarlega flóknu ástar/haturssambandi við landið mitt Ísland, og veit ekki alltaf hvernig ég á að höndla það.

Ég skil ekki þessa þjóð, finnst hún forpokuð og leiðinleg að mestu. Þrátt fyrir að vera "skrúuð " í öllu tilliti, sama hvort það eru bankarnir, olíufélögin, stórmarkaðirnir eða bensíverð og -samráð þá gerir fólk ekkert nema í mesta lagi að tuða kurteislega í leigubílum og eftirmiðdagsþáttum.

Ekki það að ég geri neitt heldur. Samt hef ég aldrei borgað meira fyrir símann, aldrei borgað hærri vexti í bönkum,  ég sem stóð í þeirri trú að allt væri þetta gert í hagsmunaskyni fyrir pöpulinn. Ég hef heldur aldrei borgað meira fyrir matvöru þrátt fyrir "frjálsu samkeppnina". 

Mér er alveg sama um forríka liðið en óttast sinnuleysi hinna sem hafa ekki lengur trú á verkalýðshreyfingunni eða stjórnmálamönnum. Enda sannar það sig ár eftir ár að kosningaloforð eru svikin og án afláts logið upp í opið geðið á manni. Viðkomandi lygarar bera þó aldrei ábyrgðina heldur svikarar síðan í fyrra eða hitteðfyrra. Fy fan.

Ég vildi að stjórnmálamenn væru með nef eins og Gosi.

Þar sem skítnum í þjóðfélaginu er að mestu sópað undir teppi, tók ég glöð þátt í bænagöngu á laugardaginn, bara til að sýna að mér stendur ekki á sama. Þetta er eitthvert jákvæðasta framtak hér í langan tíma og hellingur af fólki sem sá ástæðu til að mæta.

Ég sá samt engan auðjöfur í hópnum og enga pólitíkusa. Beðið var fyrir þjóðinni framan við Alþingishúsið, en það örlaði ekki á neinum alþingismanni. Þeir voru í helgarfríi.

Svo á ég við það að stríða að elska þetta land og verja það með kjafti og klóm undir ákveðnum kringumstæðum. Ég á von á Englendingum sem ætla að dvelja hjá mér yfir áramótin og stend mig að því að vona brjálæðislega að veðrið verði gott svo þeir geti séð geðveikina sem tíðkast hér á á gamlárs. Og ég er pínu montin og hlakka til að segja við þau: Já, þetta sjáið þið náttlega hvergi annarstaðar. (Eins og mér blöskrar bruðlið.) Ég þykist líka ætla með þau í Bláa lónið, sem mér persónulega finnst agalega misheppnað, nema ef ég er með útlendinga með mér.  Hvað er það? Og að fólk sé í biðröðum fyrir utan dótabúðir í marga klukkutíma!!!! Hvað er það????

Ég get ekki hugsað um þetta fyrir svefninn, verð pinnstíf af pirringi og andvaka í alla nótt.

Ætla þess vegna að horfa á Law and Order og reyna að gleyma "fokkings" ruglinu eins og unglingarnir segja... 

 

 

 

 

 


Enn eitt litla undrið

8. nóvember.

Ég get ekki sagt frá nýjasta litla undrinu í fjölskyldunni í sömu færslu og ég geðvonskast út í allt og alla. Það væru helgispjöll.

Litla dísin, sem allir reiknuðu með að kæmi kringum 19. nóvember og raðaði sér þar í röð með bræðrum sínum og pabba sem eru fæddir 20., 21., og 22. nóvember, ákvað að taka ekki þátt í þessu raðafmælisdagasýstemi í familíunni og kom 1. nóvember.

Ég er svo stolt af henni að ég er að rifna. Hún var rúmar 13 merkur og hefur verið eins og lítið ljós frá fyrsta degi, sefur vel, drekkur, pissar og kúkar, og meira er ekki hægt að ætlast til af lítilli stelpu. Nú eru barnabörnin mín orðin sjö, fjórar stelpur og þrír strákar. Yndislegt. Um jólin koma Anna Lilja og Chris með Annicu svo við getum öll glaðst saman um jólin.

Þetta var sem sagt þessi færsla og ég set inn mynd af stelpurófunni, sem má sjá hér neðar á síðunni.


Kauðslegar íslenskar bíómyndir

25. október.

Vitlaust að gera, en það er engin afsökun. Stóð aldrei til að láta þessa síðu drabbast niður. Ég horfði á Mýrina í gær og varð fyrir sárum vonbrigðum - eina ferðina enn. Hvernig stendur á því að íslensk kvikmyndagerð þarf að vera svona viðvaningsleg, kauðsleg og drungaleg. Og ég sem elska karlakóra var að fríka út á þunglamalegri  tónlistinni og eilífum skotum af tilgangslausum  bílferðum. Það hefur ekkert gerst í íslenskri kvikmyndagerð í áratugi, við erum enn að horfa á Morðsögu aftur og aftur. Það eina sem stendur upp úr er flippmyndin Með allt á hreinu og Stella í orflofi, sem er  möst einu sinni á ári. Nú er komið að einhverjum tilnefningum til einhverra verðlauna, ekki satt, og ég geri ráð fyrir að það verði jafn pínlegt og venjulega.

Annars er ég í prýðisskapi. Af hugsanlega elskhuganum og mér er það helst að frétta að rétt eins og í Íslendingasögunum eru samfarir okkar góðar. Grin 

Ég er að hugsa um að vista þessa færslu og byrja svo strax á annarri.

 


Rómó rigning og rosaleg stuðvika

17. október.

Sit í eldhúsinu við kertaljós og klæðin rauð og bíð elskhugans. Ef hann er til í alvörunni þá skilar hann sér. Kannski kemur hann með góða bók eða geisladisk til að gleðja mig - og geislandi bros, hann er bara þannig.

Ég er líka með kertaljós í stofunni og svefnherberginuW00t  - og ilmolíur. Rómantískt, finnst ykkur ekki? Regnið bylur á rúðunum svo það er alveg svakalega kósý hérna hjá mér, fyrir utan hvað ég er skemmtileg og sexý. Ekki skrýtið að hann komi aftur og afturGrin.

Síðasta vika var nokkuð stuðkennd með allt þetta vesen á borgarstjórnarmeirihlutanum og endalausum fréttum um hver sagði hvað við hvern og hvenær. Svo var bara allt í einu, eins og hendi væri veifað, vinstri stjórn, eða einhverskonar samsteypuvinstrimiðjustjórn, við stjórnvölinn. Sú stjórn ætlar ekki að sitja á rassinum og gera ekki neitt, strax hér um bil búin að redda leikskóla- og vistunarmálum og er þó bara rétt í startholunum.

Það taldist því ekki til tíðinda í síðustu viku að ég eignaðist nýjan gamlan bíl, fagurrauða Toyotu sem ég held að fari mér gasalega vel.

Ég átti líka yndislegar stundir með krökkunum mínum og barnabörnum, en Anna Lilja og Annica eru farnar aftur til Englands og við söknum þeirra rosalega. Sem betur fer kemur öll enska familían um jólin, Anna, Chris og Annica, og svo tengdó yfir áramótin.

Dj. vona ég að veðrið verði gott og þau fái gott ljósasjóv á gamlárs. Svo verða þau pínd í Nú árið er liðið og helst eiga þau að grenja með í þriðja versi.

Annars ætlaði ég að blogga um allt annað í kvöld, nefnilega hvað ég er ótrúlega óljónheppin í biðröðum, og ASÍ og samningana framundan. Ég geri það bara á morgun í staðinn ef ég nenni... nú hringir nefnilega dyrabjallan......InLove

 

 

 


"Þegar einhver smyr miskunn á lúbarið líf manns"

9. október.

Það er alveg við hæfi að hrynja saman út af engu daginn fyrir geðheilbrigðisdaginn. Ég er hrikalega góð í tímasetningum, það verður ekki af mér skafið. Kvíðaköstin mín ætla ekki að láta undan síga fyrir fullt og allt þó margt hafi áunnist. Þegar þau koma er það oft röð ómerkilegra atburða sem setja allt af stað og áður en ég veit af er ég lömuð af kvíða.

Það er útilokað að ætla að útskýra þetta fyrir þeim sem ekki þekkja, aðallega vegna þess að maður botnar ekkert í þessu sjálfur. Öll rök hníga að því að maður sé velupplagður og tilbúinn að takast á við tilveruna, og þannig er það sem betur fer oftast. En skynsemi, rök og afspyrnugóðar gáfur hafa ekkert með þennan andskota að gera. Hjartslátturinn, tárin og óöryggið taka yfir nánast fyrirvaralaust. Helst vill maður undir sæng og breiða upp fyrir haus. Sofa. Ekki takast á við neitt. Bara sofa. Það er þó ekki endalaust hægt að sofa, enda batnar ekkert við það.

Þá eru það þumalputtareglurnar, sjálfshjálparbækur og -spólur og síðast en EKKI síst góðir vinir sem skipta sköpum. Vinir sem sparka mjúklega í rassgatið á manni og hvetja mann af stað aftur. Hlusta, segja "there, there" og klappa manni á axlirnar. Þeir sem geta fengið mann til að hlæja meðan á ósköpunum stendur eru svo algjörlega ómetanlegir.

Pabbi minn var þannig. Hann gat fengið mig til að hlæja í miðju fýlukasti  þó ég streittist á móti allt hvað af tók. Núna 13. október eru 14 ár síðan hann lést og ég sakna hans sárt.

Sjónvarpsdagskráin í kvöld hefur verið eins og sniðin fyrir þann sem er til í að láta bara eftir sér að vera mellankólskur. Fyrst friðarsúlan, Yoko og Lennon og svo Egill Ólafs og Jónas Þórir á rólegu nótunum. Egill er náttúrlega kynþokkafyllri en hann hefur gott af og mér enn þykir sérlega vænt um Jónas Þóri sem var einu sinni kórstjórinn minn. Og nú ætla ég að missa mig enn einu sinni í vemmilegheitin og rifja upp þegar mamma mín varð sjötug og ég búsett í Englandi.  Hún hafði ekki hugmynd um að ég, einkabarnið, hafði laumast til landsins kvöldið áður, og á afmæliskvöldinu fékk ég Jónas Þóri til að mæta í afmælið og spila fyrir hana tvö uppáhaldslög, með kveðju frá dótturinni  í útlöndum. Meðan hann spilaði seinna lagið gekk ég í salinn með eina rauða rós, svakalega leikrænt, og það var ekki þurrt auga í salnum.  Æðislegt.

Þessa sömu helgi fékk ég að vita hver væri bíólógískur faðir minn, og seinna fékk ég að kynnast honum, alveg frábærum manni,  og hans yndislegu konu. Lífið er oft svo einkennilega skrýtið.

Ég er að lesa frábæra bók, Leyndardómur býflugnanna,  og ég las þessa setningu aftur og aftur: "Einstaka sinnum veitir heimurinn manni slíkar stundir, svolítið hlé; bjallan glymur og maður drattast út í eitt hornið á boxhringnum, þar sem einhver smyr miskunn á lúbarið líf manns."

Drastískt, en svona leið mér í dag þegar ég átti vin í varpa. 

Ég vona að við eigum öll góðan dag á morgun, að þeir sem eru lasnir eigi eða öðlist von og hinir frísku hvetji okkur hin sem erum lasin til dáða.

 

 

 

 

 


Rosalegt hvað útförin mín var sorgleg

7. október.

Fallegur dagur og ég ákvað að fara með gamla brýnið hana mömmu í haustlitaferð á Þingvelli. Maður er nú ekkert sérstaklega orginal því ég sá ekki betur en flestar miðaldra dætur hefðu fengið þessa sömu hugmynd. Það hreinlega "vrimlede med gamle koner paa Tingvalla".

Þetta var samt voða ljúft. Beggi vert á Valhöll, gamall kórfélagi en fyrst og fremst yndisleg mannvera, bauð okkur upp á kaffi og vöfflur og mamma var alsæl.

Við fórum svo Grímsnesið heim og landið skartaði sínu fegursta. Ég varð hálf meyr í fegurðinni allri og þegar ég var búin að keyra mömmu heim var spilað lag í útvarpinu sem mér fannst allt í einu að myndi passa svo vel í útförina mína. Ég fékk kökk í hálsinn við tilhugsunina og svo var ég skyndilega stödd í kistunni á leið út úr kirkjunni, undir þessari fögru tónlist og háværu snökkti kirkjugesta í troðfullri kirkjunni. Þetta var svo sorglegt að ég fór að hágráta sjálf og sá varla út úr augunum fyrr en ég var komin heim í Kópavoginn og búin að snýta mér og þurrka framan úr mér grenjurnar.  Fyrr myndi ég deyja en segja ykkur hvaða lag þetta var, ég vil ekki að allir séu kastandi upp við tölvurnar sínar.

Þetta hefur samt ekki komið fyrir mig síðan ég var táningur í Svíþjóð, sá misskildasti á öllum Norðurlöndunum, og jarðarförin mín þá var alltaf í brjálæðislegu hefndarskyni fyrir óverðskuldaðar skammir og upplognar sakirDevil.   

Þessi í dag var bara sorgleg.Halo

Nokkur geðvonskuorð í "okurbelginn" plús almennt nagg

5. október.

Ég slæ víst engin aðsóknarmet á þessa bloggsíðu, enda var það aldrei meiningin. (Auðvitað var það alltaf meiningin og ég er hundspæld.) En af því ég er í naggstuði á þessu annars ágæta föstudagskvöldi ætla ég að fá smá útrás hér.

Ég er svakalega ánægð með dr. Gunna og okursíðuna hans, þó ég sé persónulega búin að missa allt verðskyn og borgi bara það sem upp er sett með bros á vör. En af því ég er að vinna í miðbænum og legg stundum bílnum mínum í bílastæðahúsið á Skólavörðustígnum, þarna hjá Jóa og félögum og því öllu, langar mig að leggja orð í okurbelginn og greina frá því að frá tólf til fimm borga ég aldrei minna en fimmhundruðkall fyrir að leggja þarna. Það gerir heilar tíu þúsund krónur á mánuði!!!

Annað sem getur gert mig brjálaða er að milli súlna á að vera pláss fyrir þrjá, segi og skrifa ÞRJÁ, bíla. Oftar en ekki leggja einhverjir örvitarnir í eitt og hálft stæði og þá er ég ekki að tala um jeppana, sem, í ofanálág við örvitana, taka alltaf tvö stæði. Maður er náttúrlega gráti nær af geðvonsku yfir þessu. En til að missa mig ekki alveg ætla ég að horfa á Taggart núna (sem er auðvitað löngu dauður og þættirnir þess vegna handónýtir) og éta meira MaxipoppW00t.


Grunsamleg ló, menn í einkennisbúningi og ófullnægjandi fréttamennska

30. september.

Ég var að velta því fyrir mér í gærkvöldi hvort  það segði ekki allt um æsispennandi líf manns að hápunktur vikunnar skuli vera spurningaþátturinn Útsvar og poki af Maxipop. 

Í kvöld, þegar ég fór í þvottahúsið að hengja upp rúmföt, var ég ennþá soldið að hugsa um þetta en skildi ekkert í því þegar ég kom í þvottahúsið að gólfið var þakið grárri ló. Hugsaði með mér að þetta hlyti að vera eitthvað úr sængurfötunum, sótti ryksuguna og var að enda við að ryksuga þegar ég heyrði vængjaslátt og sá í svip fugl fljúga bak við hurðina. 

Ég verð að viðurkenna að mér er ekkert sérstaklega vel við fugla, hef flúið í dauðans ofboði þegar gæsir niður við tjörn gerðu sig líklegar til að éta barnabörnin mín (úps, amma hljóp og skildi börnin eftirBlush) en ég vildi ekki vita af þessum fugli banhungruðum og hræddum í þvottahúsinu. Ég ákvað því að hringja á  lögregluna sem brást  skjótt við, en eftir vandlega leit var fuglinn hvergi að sjá. Þeir voru farnir að horfa á mig með "henni-leiðist-greinilega-alveg-rosalega-"svipnum þegar fuglinn bjargaði mér og gaf frá sér tíst. Hann kúrði undir skáp og löggurnar, sem voru tvær og báðar jafn fjallmyndarlegar, voru ekki lengi að lokka hann úr felum. Ég vildi fá að taka mynd af þeim en þeir þvertóku fyrir það, ég fékk hins vegar að taka mynd af fuglinum í lófa lögreglumannsins, sem ég set hér inn á síðuna.

Þetta minnti mig á vetrarkvöld í hitteðfyrra, þegar ég hafði lufsast ein heima á laugardagskvöldi þrátt fyrir þrábeiðnir vinkvennanna um að koma eitthvað út á lífið. Það kvöld átti ég einmitt erindi í þvottahúsið og brá heldur í brún þegar ég kom niður og óð vatn í ökkla. Það hafði sprungið rör og ég sá mig tilneydda að hringja á slökkviliðið og biðja þá að koma og ryksjúga upp vatnið.  Þeir komu um hæl, á tveimur bílum, og þegar allt vatnið var farið úr kjallaranum var ég skyndilega stödd í eldhúsinu mínu með átta hrikalega myndarlegum mönnum í einkennisbúningi.InLove Ég sagði vinkonum mínum að þetta væri sniðugt trix ef manni leiddist og langaði í skemmtilegan félagsskap. hella nokkrum lítrum af vatni á gólfið og hringja svo. Ég hef reyndar ekki beitt aðferðinni enn.

Má til með að kvarta aðeins yfir kvöldfréttunum á RúV. Þeir fylgdu eftir frétt gærkvöldsins um vanlíðan þeirra sem fara í magahjáveituaðgerðir og voru með viðtal við mann sem hafði farið í eina slíka. Hann sagði að sér liði illa, væri þunglyndur og svo framvegis, en fréttamaðurinn spurði aldrei hvernig það tengdist aðgerðinni og maður var engu nær. Ekki góð fréttamennska. Svo voru þeir með langa frétt um dýr í útrýmingarhættu, frétt sem birtist á eyjan.is fyrir nokkrum vikum. Þannig er nú það.

Og hvað er ég svo að kvarta um tilbreytingarleysi. Veit ekki betur en ég fái elskhugann í heimsókn í vikunni, þ.e. EF ég á elskhuga sem ég hef ekki haldið skilyrðislaust fram.... Kissing


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband