"Þegar einhver smyr miskunn á lúbarið líf manns"

9. október.

Það er alveg við hæfi að hrynja saman út af engu daginn fyrir geðheilbrigðisdaginn. Ég er hrikalega góð í tímasetningum, það verður ekki af mér skafið. Kvíðaköstin mín ætla ekki að láta undan síga fyrir fullt og allt þó margt hafi áunnist. Þegar þau koma er það oft röð ómerkilegra atburða sem setja allt af stað og áður en ég veit af er ég lömuð af kvíða.

Það er útilokað að ætla að útskýra þetta fyrir þeim sem ekki þekkja, aðallega vegna þess að maður botnar ekkert í þessu sjálfur. Öll rök hníga að því að maður sé velupplagður og tilbúinn að takast á við tilveruna, og þannig er það sem betur fer oftast. En skynsemi, rök og afspyrnugóðar gáfur hafa ekkert með þennan andskota að gera. Hjartslátturinn, tárin og óöryggið taka yfir nánast fyrirvaralaust. Helst vill maður undir sæng og breiða upp fyrir haus. Sofa. Ekki takast á við neitt. Bara sofa. Það er þó ekki endalaust hægt að sofa, enda batnar ekkert við það.

Þá eru það þumalputtareglurnar, sjálfshjálparbækur og -spólur og síðast en EKKI síst góðir vinir sem skipta sköpum. Vinir sem sparka mjúklega í rassgatið á manni og hvetja mann af stað aftur. Hlusta, segja "there, there" og klappa manni á axlirnar. Þeir sem geta fengið mann til að hlæja meðan á ósköpunum stendur eru svo algjörlega ómetanlegir.

Pabbi minn var þannig. Hann gat fengið mig til að hlæja í miðju fýlukasti  þó ég streittist á móti allt hvað af tók. Núna 13. október eru 14 ár síðan hann lést og ég sakna hans sárt.

Sjónvarpsdagskráin í kvöld hefur verið eins og sniðin fyrir þann sem er til í að láta bara eftir sér að vera mellankólskur. Fyrst friðarsúlan, Yoko og Lennon og svo Egill Ólafs og Jónas Þórir á rólegu nótunum. Egill er náttúrlega kynþokkafyllri en hann hefur gott af og mér enn þykir sérlega vænt um Jónas Þóri sem var einu sinni kórstjórinn minn. Og nú ætla ég að missa mig enn einu sinni í vemmilegheitin og rifja upp þegar mamma mín varð sjötug og ég búsett í Englandi.  Hún hafði ekki hugmynd um að ég, einkabarnið, hafði laumast til landsins kvöldið áður, og á afmæliskvöldinu fékk ég Jónas Þóri til að mæta í afmælið og spila fyrir hana tvö uppáhaldslög, með kveðju frá dótturinni  í útlöndum. Meðan hann spilaði seinna lagið gekk ég í salinn með eina rauða rós, svakalega leikrænt, og það var ekki þurrt auga í salnum.  Æðislegt.

Þessa sömu helgi fékk ég að vita hver væri bíólógískur faðir minn, og seinna fékk ég að kynnast honum, alveg frábærum manni,  og hans yndislegu konu. Lífið er oft svo einkennilega skrýtið.

Ég er að lesa frábæra bók, Leyndardómur býflugnanna,  og ég las þessa setningu aftur og aftur: "Einstaka sinnum veitir heimurinn manni slíkar stundir, svolítið hlé; bjallan glymur og maður drattast út í eitt hornið á boxhringnum, þar sem einhver smyr miskunn á lúbarið líf manns."

Drastískt, en svona leið mér í dag þegar ég átti vin í varpa. 

Ég vona að við eigum öll góðan dag á morgun, að þeir sem eru lasnir eigi eða öðlist von og hinir frísku hvetji okkur hin sem erum lasin til dáða.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Edda

Sendi hér með RISAknús og mjúkt klapp á bakið.

Hlakka til að sjá þig í nóvember og skal þá gráta og hlægja aðeins með þér

Alda 

Alda (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 11:50

2 identicon

Takk, þú ert yndisleg

edda (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 12:53

3 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Vá, æðislegur texti :) yndislegt að lesa þar sem þú skrifaðir að enginn í salnum hefði verið með vot augu, því að ég var alveg að klökkna þegar ég las textann þinn....... alveg yndisleg lesning

Skilaðu kveðju til fólksins þíns og bestu kveðjur auðvitað til þín Edda mín,

Inga Lára Helgadóttir 

Inga Lára Helgadóttir, 12.10.2007 kl. 14:37

4 identicon

Takk, elsku krúttið mitt, bið líka að heilsa öllum þínum. Knús

edda (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband